Fara í efni

Miðstöð fyrir hönnun, tækni og listir í verbúðunum á Húsavík

Að undanförnu hefur sveitarfélagið Norðurþing og Menningarfélagið Úti á Túni unnið að samningi varðandi afnot af þremur verbúðum á efri hæð að Hafnarstétt 17. Fræðslu- og menningarnefnd hefur samþykkt samninginn.

Tilgangurinn með samningnum er að lífga upp á mannlíf á svæðinu og styðja við menningu og skapandi greinar á þann hátt að í verbúðunum verði aðstaða fyrir listamenn og hönnuði auk viðburða sem stuðli að menningarlegum fjölbreytileika, nýsköpun og skapandi hugsun í samfélaginu.

Hönnuðir og listafólk hafa um tveggja ára skeið haft afnot húsnæðinu sem áður var nýtt sem geymslur. Þar hafa þau verið þar með vinnustofur og staðið fyrir viðburðum auk þess að byggja upp tengslanet listafólks og hönnuða bæði á Íslandi og erlendis. Sú starfsemi sem þegar er í Verbúðunum er góður grunnur fyrir núverandi samning.

Stefna Menningarfélagsins er að vera fyrirmynd og næring fyrir hverskonar samtímalist, hönnun og sköpun á svæðinu. Í verbúðunum verður boðið upp á vinnustofur fyrir listamenn, sýningarrými og tæknismiðju í samvinnu við söfn og stofnanir á svæðinu.

Það er von sveitarfélagsins og Menningarfélagsins að þetta hafi jákvæð og uppbyggjandi áhrif í samfélaginu.

 Verbúðir

Menningarsvið Norðurþings og Menningarfélagið Úti á Túni