Fara í efni

Byggðarráð Norðurþings

201. fundur 13. janúar 2017 kl. 14:00 - 16:30 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Óli Halldórsson formaður
  • Olga Gísladóttir varaformaður
  • Jónas Hreiðar Einarsson áheyrnarfulltrúi
  • Gunnlaugur Stefánsson aðalmaður
  • Kristján Þór Magnússon
  • Margrét Hólm Valsdóttir
Fundargerð ritaði: Margrét Hólm Valsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá

1.Eftirfylgni með fjárhagsáætlun Norðurþings 2017

Málsnúmer 201701045Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur skýrsla fráfarandi fjármálastjóra Norðurþings um forsendur, áherslur og ýmsa þætti er varðar fjárhagsáætlun 2017.
Til fundarins mætti Gunnlaugur Aðalbjarnarson, fyrrverandi fjármálastjóri Norðurþings sem fór yfir skýrsluna.
Byggðarráð þakkar fyrir góða og ítarlega kynningu. Einnig er Gunnlaugi þökkuð góð störf í þágu sveitarfélagsins.
Gestur fundarins: Gunnlaugur Aðalbjarnarson, fyrrverandi fjármálastjóri Norðurþings

2.Uppbygging Holtahverfis

Málsnúmer 201603116Vakta málsnúmer

Fyrir liggja samningsdrög milli Norðurþings og PCCSR um uppbyggingu íbúðahúsnæðis í Holtahverfi á Húsavík. Gestir fundarins undir þessum lið verða Gaukur Hjartarson og Garðar Garðarsson lögmaður sveitarfélagsins. Umræður um gatnagerðargjöld í Holtahverfi sem og aðra kostnaðarliði framkvæmdarinnar verða ræddir.
Til fundarins mættu Gaukur Hjartarson skipulags- og byggingafulltrúi, Snæbjörn Sigurðarson verkefnisstjóri og Garðar Garðarson lögmaður (í síma).
Farið var yfir forsögu málsins og hvað lagt hefur verið til grundvallar útreikninga gatnagerðargjalda og annarra kostnaðarliða framkvæmdarinnar.

Gestir fundarins: Snæbjörn Sigurðarson, verkefnisstjóri og Gaukur Hjartarsson, skipulags- og byggingafulltrúi. Garðar Garðarsson, lögmaður í síma.

3.Staða og framtíð slökkviliðs Norðurþings

Málsnúmer 201603110Vakta málsnúmer

Farið verður yfir stöðuna á drögum að samningum slökkviliðsins við utanaðkomandi aðila í tengslum við uppbyggingu liðsins til næstu ára sem og hugmyndir að útliti nýrrar slökkvistöðvar.

4.Birting gagna á heimasíðu Norðurþings

Málsnúmer 201701042Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur minnisblað frá Óla Halldórssyni varðandi birtingu gagna á heimasíðu Norðurþings. Þar segir m.a.

"Almennt er sífellt ríkari krafa um gegnsæi í meðferð fjármuna og auðlinda í opinberum rekstri. Eðlilegt verður að teljast að upplýsingar um kauptaxta og kjör kjörinna fulltrúa séu birt opinberlega. Einnig viðmiðunarreglur og leiðbeiningar um úthlutun auðlinda eða gæða í almannaeigu. Þá er opinber birting samninga, eftir því sem lög og reglur um meðferð persónuupplýsinga heimila, eðlileg með sömu rökum.
Almennt hefur ekki tíðkast til þessa að birta gögn sem þessi opinberlega hjá Norðurþingi. Æskilegt er að sveitarfélagið stefni að því að vera í fremstu röð hvað þetta varðar. Slíkt verður til lengri tíma til jákvæðs aðhalds fyrir bæði kjörna fulltrúa og stjórnsýsluna."

Bókunartillaga frá Óla Halldórssyni:

Með vísan til sífellt aukinna væntinga til gegnsæis í meðferð fjármuna og auðlinda í almannaeigu verði eftirfarandi efni birt á heimasíðu Norðurþings frá og með árinu 2017. Eftir því sem unnt er verði samningar og gögn sem enn eru í gildi einnig birt:
(a)
Upplýsingar um kjör og kauptaxta kjörinna fulltrúa og nefndarmanna.
(b)
Viðmiðunarreglur um úthlutanir auðlinda, eigna eða gæða í eigu Norðurþings
(c)
Samningar Norðurþings um fjárframlög til félaga, einstaklinga og fyrirtækja.
(d)
Samningar um afnot af auðlindum, jörðum og öðrum gæðum.

Byggðarráð samþykkir samhljóða framlagða bókun.

5.Álagning gjalda 2017

Málsnúmer 201611118Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur tillaga um sérstakan fasteignaskatt árið 2017:

Sérstakur fasteignaskattur er lagður á eignir í A-flokki sem bjóða gistiaðstöðu. Nýting allt að 100% ..........1.65%
Byggðarráð samþykkir samhljóða framlagða tillögu.

6.Boð frá Fredrikstad, vinabæ Norðurþings um þátttöku í hátíðahöldum 17. og 18. maí n.k.

Málsnúmer 201701034Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur boð frá vinabæ Húsavíkur, Fredrikstad í Noregi þar sem boðið er til hátíðar á þjóðhátíðardegi Norðmanna þann 17. maí nk. í tilefni 450 ára afmælis Fredrikstad. Einnig er boðað til málþings þann 18. maí þar sem aðalumræðuefnið verður staða og tækifæri í vinabæjarsamvinnu. Öðrum vinabæjum Fredrikstad í Evrópu hefur einnig verið boðið til þessarar hátíðar og málþings.
Byggðarráð samþykkir að leita leiða til að þiggja þetta góða boð.

7.Bréf til allra sveitarfélaga - tilkynning um skil starfshóps, nýjar reglur um persónuvernd

Málsnúmer 201612036Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur bréf til allra sveitarfélaga varðandi skil starfshóps um skoðun á skráningum upplýsinga um nemendur grunnskóla í rafræn upplýsingakerfi. Einnig er í bréfi þessi kynnt til sögunnar ný persónuverndarlöggjöf sem áætlað er að taki gildi á árinu 2018 og hvetur Samband íslenskra sveitarfélaga öll sveitarfélög til þess að hefja undirbúning vegna gildistöku laganna nú þegar.

8.Skipun í fulltrúaráð Eyþings

Málsnúmer 201701036Vakta málsnúmer

Fyrir Byggðarráði liggur bréf frá Eyþingi, sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum. Þar er farið fram á að aðildarsveitarfélög Eyþings skipi fulltrúa í fulltrúaráð Eyþings skv. grein 5.2. í lögum Eyþings.
Byggðarráð samþykkir að Sif Jóhannesdóttir og Olga Gísladóttir verði fulltrúar Norðurþings í fulltrúaráði Eyþings.

Fundi slitið - kl. 16:30.