Fara í efni

Skipulags- og umhverfisnefnd

3. fundur 10. maí 2016 kl. 14:00 - 18:30 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Sif Jóhannesdóttir formaður
  • Röðull Reyr Kárason aðalmaður
  • Örlygur Hnefill Örlygsson varaformaður
  • Soffía Helgadóttir aðalmaður
  • Jónas Hreiðar Einarsson aðalmaður
  • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfull
Starfsmenn
  • Margrét Hólm Valsdóttir
Fundargerð ritaði: Gaukur Hjartarson Skipulags- og byggingafulltrúi
Dagskrá

1.Húsnæðismál í Norðurþingi

Málsnúmer 201602125Vakta málsnúmer

Kristján Þór Magnússon, Gunnlaugur Aðalbjarnarson og Snæbjörn Sigurðarson mættu til fundarins. Kristján kynnti drög að skýrslu Alta um húsnæðismál á Húsavík. Skýrslan er hugsuð sem innlegg í mótun húsnæðisstefnu sveitarfélagsins.

Í stuttu máli er það niðurstaða greiningarinnar að bæta þyrfti við allt að 120 íbúðum á Húsavík vegna þeirra starfa sem til verða í verksmiðju PCC BakkiSilicon og afleiddra starfa. Þar fyrir utan er vöxtur í öðrum atvinnugreinum. Bornar eru saman íbúðastærðir á Húsavík og á höfuðborgarsvæðinu. Sá samanburður bendir til þess að helst vanti minni íbúðir á Húsavík, allt að 110 m². Á hinn bóginn sé nokkur yfirmettun í stærri einbýlishúsum.
Skipulags- og umhverfisnefnd ræddi skýrsludrögin. Horft verði til þess í deiliskipulagningu næstu íbúðarsvæða að aukin áhersla verði lögð á uppbyggingu smærri íbúðaeininga og þéttingu byggðar.

2.Breyting á deiliskipulagi miðhafnarsvæðis

Málsnúmer 201411063Vakta málsnúmer

Við yfirferð athugasemda vegna tillögu að breytingum deiliskipulags miðhafnarsvæðis láðist að taka inn umfjöllun um athugasemd sem barst innan athugasemdafrests frá eigendum Barðahúss að Hafnarstétt 23. Í athugasemdinni er óskað eftir útvíkkun byggingarreits á þaki Barðahúss þannig að þar mætti reisa allt at 170 m² byggingu. Hugmynd að útfærslu þar að lútandi var sýnd á teikningum.
Skipulags- og umhverfisnefnd felst ekki á það byggingarmagn sem óskað er eftir. Uppbygging skv. hugmyndum lóðarhafa myndi hindra útsýn til hafnarsvæðis yfir þak hússins af Garðarsbraut. Nefndin er hinsvegar reiðubúin að koma til móts við óskir lóðarhafa með því að auka byggingarrétt á þakinu í 100 m² sem allur verði á suðurhelmingi þaksins. Vegghæð verði að hámarki 2,80 m og þakhæð til samræmis við gildandi deiliskipulag.

Skipulagsráðgjafa verði falið að breyta skipulagstillögunni til samræmis.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við hafnarnefnd og sveitarstjórn að skipulagsbreytingarnar verði samþykktar með þeim breytingum sem felast í ofangreindri bókun sem og bókun nefndarinnar frá 12. apríl s.l. Skipulagsfulltrúa verði falið að ganga frá gildistöku breytinganna.

3.Deiliskipulag athafnasvæðis í Haukamýri

Málsnúmer 201605059Vakta málsnúmer

Í apríl 2015 úthlutaði bæjarstjórn Norðurþings lóð á Haukamýri til uppbyggingar steypustöðvar Steinsteypis ehf. Bæjarstjórn taldi sig hafa tekið þá ákvörðun með hagsmuni bæjarbúa að leiðarljósi því með uppbyggingu steypustöðvarinnar á deiliskipulagðri lóð við Bakka hefði þýtt verulega óþarfa efnisflutninga í gegn um bæinn. Haukamýrarsvæðið hefur í rúm 40 ár verið ætlað undir iðnaðar- og athafnastarfsemi. Það hefur hinsvegar aldrei verið deiliskipulagt þrátt fyrir að hafa að talsverðu leiti byggst upp. Ákvörðun um úthlutun lóðarinnar varð að taka með nokkrum hraði enda Steinsteypir kominn með veruleg verkefni við uppsteypu Þeistareykjavirkjunar. Með samkomulagi milli Steinsteypis og sveitarfélagsins fólst að Steinsteypi yrði heimilað að hefja uppbyggingu steypustöðvar enda yrði fullnægjandi hönnunargögnum skilað til bæjarins áður en byggt yrði upp.
Skipulags- og umhverfisnefnd harmar að hnökrar eru á stjórnsýsluákvörðunum vegna þessarar uppbyggingar Steinsteypis. Nefndin leggur til við sveitarstjórn að strax verði hafist handa við deiliskipulagningu athafnasvæðis á Haukamýri.

4.Framandi og ágengar plöntur í landi Norðurþings

Málsnúmer 201605056Vakta málsnúmer

Á undanförnum árum hefur útbreiðsla alaskalúpínu og skógarkerfils vaxið hröðum skrefum ár frá ári við Húsavík. Alaskalúpínu var dreift umhverfis þéttbýlið til uppgræðslu illa farins lands. Undir handleiðslu garðyrkjumanna bæjarins var henni dreift í flest stærri rofsár innan bæjargirðingar og hefur nún nú náð að græða þau flest upp. Á hinn bóginn sækir hún nú í vaxandi mæli út fyrir gróðursnauð svæði og þar með talið inn í berjalönd. Skógarkerfill og spánarkerfill hafa einnig dreift sér verulega innan bæjarlands Húsavíkur og sér ekki fyrir endann á þeirri þróun. Kerfillinn þarf frjósaman jarðveg til að þrífast og er því helst að finna í eldri frjósömum túnum, en víða hefur hann einnig sest að í breiðum af alaskalúpínu þar sem safnast hefur frjósamur jarðvegur.
Til fundarins mættu Þorkell Lindberg Þórarinsson, forstöðumaður Náttúrustofu Norðausturlands og Smári Jónas Lúðvíksson garðyrkjustjóri Norðurþings.
Þorkell Lindberg ræddi um framandi og ágengar tegundir almennt, sem og sértækt fyrir Norðurþing. Rætt um leiðir til að uppræta kerfil og hefta frekari útbreiðslu lúpínu á afmörkuðum svæðum innan sveitarfélagsins. Smári og Gaukur lögðu áherslu á að sveitarfélagið legði þar meiri áherslu á vinnu við eyðingu kerfils en lúpínu.

Náttúrustofu Norðausturlands er falið að gera tillögu að áætlun um aðgerðir í samráði við garðyrkjustjóra Norðurþings fyrir næsta fund nefndarinnar.

5.Þeistareykjalína 1 - umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi

Málsnúmer 201603119Vakta málsnúmer

Með erindi dags. 18. mars 2016 óskar Guðmundur Ingi Ásmundsson, f.h. Landsnets eftir framkvæmdaleyfi til uppbyggingar Þeistareykjalínu 1 að tengivirki við Bakka.
Sótt er um framkvæmdaleyfi á grundvelli 13. og 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sbr. og 6. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 fyrir framkvæmdinni Þeistareykjalína 1, 220 kV háspennulína. Framkvæmdin er matsskyld skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og er matsskýrsla og álit Skipulagsstofnunar fyrirliggjandi. Sótt er um framkvæmdina á grundvelli Aðalskipulags Norðurþings 2010-2030 þar sem gert er ráð fyrir háspennulínum sbr. 1. mgr. 7. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2000. Í aðalskipulagi nágrannasveitarfélagsins Þingeyjarsveitar er einnig gert ráð fyrir framkvæmdinni.
Meðfylgjandi umsókn eru gögn vegna framkvæmdaleyfisumsóknar, sbr. sérstaklega 2. og 3. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2000. Lýsing mannvirkja vegna útgáfu framkvæmdaleyfis, dags mars 2016, sem er aðalþáttur gagnanna er tekið saman af verkfræðistofunni Mannviti f.h. Landsnets hf. Er vísað til hennar um frekari skýringar og lýsingar á framkvæmdinni. Lýsingin er þannig hluti þessarar umsóknar Landsnets hf. um framkvæmdaleyfi. Skipulags- og byggingarfulltrúi kynnti drög að samningi um eftirlit Umhverfisstofnunar með framkvæmdinni sbr. 76. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.
Skipulags- og umhverfisnefnd telur að fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við Aðalskipulag Norðurþings 2010-2030. Nefndin telur að fullnægjandi grein sé gerð fyrir henni í framlögðum gögnum. Fyrirhuguð framkvæmd uppfyllir skv. áliti Skipulagsstofnunar frá 29. nóvember 2010 skilyrði 1. mgr. 14. gr. skipulagslaga um útgáfu framkvæmdaleyfis vegna matsskyldra framkvæmda vegna sameiginlegs mats á umhverfisáhrifum álvers á Bakka, Þeistareykjavirkjunar og háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum að Húsavík. Skipulags- og umhverfisnefnd felst einnig á drög að samningi milli Umhverfisstofnunar og Landsnets um eftirlit með framkvæmdinni.
Nefndin leggur til við sveitarstjórn að umsókn Landsnets vegna Þeistareykjalínu 1 innan Norðurþings verði samþykkt og jafnframt verði skipulags- og byggingarfulltrúa falið að gefa út framkvæmdaleyfið í samræmi við reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012.

6.Nanna Steina Höskuldsdóttir fyrir hönd veiðifélags Deildará sækir um afmörkun á lóð fyrir veiðihús

Málsnúmer 201605038Vakta málsnúmer

Óskað er eftir samþykki fyrir afmörkun lóðar umhverfis veiðihús félagsins. Meðfylgjandi umsókn er hnitsettur lóðaruppdráttur. Lóðarflatarmál er 1.811 m². Lóðin er til í fasteignaskrá Þjóðskrár en áður hefur ekki legið fyrir afmörkun hennar eða stærð.
Skipulags- og byggingarnefnd leggur til við sveitarstjórn að afmörkun lóðarinnar verði samþykkt en minnir á að formlegt samþykki vantar frá landeiganda.

7.Umsjónamaður fasteigna Norðurþings sækir um fyrir hönd framkvæmdanefndar heimild til niðurrifs mjölskemmu á Raufarhöfn

Málsnúmer 201604125Vakta málsnúmer

Óskað er eftir heimild til að rífa mjölskemmuna við Aðalbraut 20-22 á Raufarhöfn. Fyrirhugað er að auglýsa skemmuna til sölu og því haldið opnu að væntanlegur kaupandi hefði hug á flutningi burðarvirkissins. Skipulags- og byggingarfulltrúi gerði nefndinni grein fyrir ástandi hússins.
Soffía óskar bókað:

"Raufarhöfn er í verkefni "Brothættar byggðir" og er lykilatriði fyrir heimamenn að mjölskemman fái viðhald en verði ekki rifin. Ekki er ásættanlegt að rífa eitthvað niður sem hægt er að gera eitthvað úr en það kostar fjármagn og er vitað. Vesturhliðina þarf að laga, þak og stafna og hægt að auka leigutekjur ef skemman yrði vatns- og vindheld. Því leggst ég gegn því að leyfi verði veitt til niðurrifs skemmunar. Ég óska eftir að erindinu verði vísað til nýstofnaðs hverfisráðs eða íbúasamtaka Raufarhafnar."

Skipulags- og umhverfisnefnd óskar umsagnar Hverfisráðs Raufarhafnar áður en hún tekur afstöðu til þessa erindis.

8.Skotfélag Húsavíkur sækir um breytingu á riffilbraut á athafnasvæði sínu

Málsnúmer 201604109Vakta málsnúmer

Óskað er eftir heimild til breytinga á riffilbraut félagsins við Fjallshóla í þeim tilgangi að auka öryggi þeirra sem fara um nærsvæði skotsvæðisins. Framkvæmdin fælist í að jafna brautina, lækka hana í fjær enda og ryðja þar upp skeifulaga varnarmön. Sáð verði grasfræi í þau sár sem framkvæmdin mun valda á gróðurhulu. Meðfylgjandi umsókn er teikning sem skýrir fyrirhugaðar framkvæmdir.
Skipulags- og umhverfisnefnd fellst á fyrirhugaða framkvæmd.

9.Jónas Halldór Friðriksson fyrir hönd Völsungs sækir um tímabundið stöðuleyfi fyrir kaffiskúr við gervigrasvöll

Málsnúmer 201604107Vakta málsnúmer

Óskað er eftir stöðuleyfi fyrir til að setja niður þjónustugám/aðstöðuskúr við NV-horn gerfigrasvallar. Fyrirhugað er að aðstaðan verði þar til loka september n.k.
Skipulags- og umhverfisnefnd fellst á erindið.

10.Norðlenska matborðið ehf sækir um að setja upp útblástursrör frá áleggsreykingarofni við Hafnarstétt 25 - 31

Málsnúmer 201605037Vakta málsnúmer

Óskað er eftir leyfi til að setja upp útblástursrör frá reykofni upp með vesturhlið stromps á norðurhlið húss. Meðfylgjandi umsókn er útlitsmynd húss með útblástursröri.
Skipulags- og umhverfisnefnd telur að viðkomandi reykrör sé eðlilegur búnaður utan á húsinu og samþykkir uppsetningu þess.

11.Norðlenska matborðið sækir um uppsetningu á útblástursröri frá steikingarlínu

Málsnúmer 201605036Vakta málsnúmer

Óskað er eftir leyfi fyrir 2 m háu útblástursröri upp úr vinnslusal steikingarlínu að Hafnarstétt 25-31 í stað 8 m rörs sem sett var upp á síðasta sumri. Meðfylgjandi umsókn er teikning unnin af Mannviti verkfræðistofu.
Skipulags- og umhverfisnefnd telur að viðkomandi reykrör sé eðlilegur búnaður utan á húsinu og samþykkir uppsetningu þess.

12.Umsókn um byggingarleyfi fyrir svefnskála fyrir veiðifélag Deildarár

Málsnúmer 201605031Vakta málsnúmer

Óskað er eftir leyfi til að byggja veiðihús á lóð veiðifélagsins við Deildará. Meðfylgjandi erindi er teikning af fyrirhuguðu húsi og afstöðu þess til fyrra húss á lóðinni.
Skipulags- og umhverfisnefnd fellst á uppbyggingu hússins fyrir sitt leyti og heimilar skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi þegar fullnægjandi gögn þar að lútandi hafa borist.

13.Þórir Örn Gunnarsson f.h. Hafnarsjóðs Norðurþings sækir um lóðina Höfði 4

Málsnúmer 201605062Vakta málsnúmer

Óskað er eftir heimild til að nýta lóðina að Höfða 4 til að geyma ýmis verðmæti tengdum rekstri hafnarinnar. Inni á lóðinni eru fyrir tankur og lítið hús.
Lóðin að Höfða 4 er byggingarlóð skv. deiliskipulagi. Nefndin telur því ekki rétt að ráðstafa henni varanlega sem geymslusvæði. Nefndin leggur þó til við sveitarstjórn að Hafnarsjóður fái afnot að lóðinni til fimm ára gegn því að umgengni um lóðina verði snyrtileg og húsi innan lóðar viðhaldið.

14.Umsókn um byggingarleyfi Víðimóa 8

Málsnúmer 201605058Vakta málsnúmer

Óskað er byggingarleyfis fyrir húsi innan lóðarinnar að Víðimóa 8. Húsið víkur nokkuð frá samþykktu deiliskipulagi. Frávikin liggja í því að botnplata þess er lækkuð um 120 cm frá skipulaginu til að ná fram vegghæð upp á 7,5 m sem nauðsynlegt er vegna fyrirhugaðrar vinnslu í húsinu. Í samþykktu deiliskipulagi er gert ráð fyrir að heimiluð vegghæð sé 6,5 m og þakhalli að hámarki 15°. Mænir yrði 25 cm hærri en fyrirliggjandi byggingar við hliðina. Til mótvægis við aukna vegghæð yrði mön við Víðmóa 14 framlengd í sömu hæð norður að lóðarmörkum við Víðimóa 6.
Skipulags- og byggingarfulltrúa er falið að grenndarkynna frávik frá deiliskipulagi lóðarhöfum að Víðimóum 3 og 14.

15.Halldór G. Halldórsson f.h. Björns Halldórssonar sækir um stofnun lóðar að Valþjófstöðum 2 Ln. 154228

Málsnúmer 201605055Vakta málsnúmer

Óskað er eftir samþykki fyrir stofnun og útskiptum 1.402 m² lóðar um íbúðarhús á Valþjófsstöðum II í Núpasveit, fastanr. 216-6661. Meðfylgjandi umsókn er hnitsettur lóðaruppdráttur.
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að stofnun lóðarinnar og útskipti hennar úr jörðinni verði samþykkt af hálfu sveitarfélagsins. Á hinn bóginn þarf að skila inn til sveitarfélagsins skráningartöflum til endurskráningar íbúðarhússins og útbúa ný skjöl varðandi eignarhald lóðarinnar eða lóðarleigusamning.

Fundi slitið - kl. 18:30.