Hrútadagurinn á Raufarhöfn

Hrútadagurinn á RaufarhöfnHrútadagurinn á Raufarhöfn er haldinn fyrsta laugardag í október ár hvert í Faxahöllinni á Raufarhöfn.

Það var hópur framtakssamra bænda í Þistilfirði, Sléttu og Öxarfirði sem ákváðu að safna saman á einn stað þeim hrútum söluhæfum hrútum af svæðinu. Þetta var meðal annars gert  til að auðvelda kaupendum valið, að hafa hrútana alla á einum stað og geta borið þá saman. Faxahöllin á Raufarhöfn er ákjósanlegur staður, miðsvæðis á sölusvæðinu og góð aðstaða fyrir bæði menn og fé. Einnig er þetta gott tilefni til að koma saman, bændur af svæðinu og þeir sem eru lengra að komnir í kauphugleiðingum, ásamt öðru áhugafólki um sauðfjárræktun.

Fyrir utan uppboð á hrútum er ýmislegt annað skemmtilegt í boði. Handverksfólk á svæðinu frá Þórshöfn að Húsavík er með ullarvörur til sölu í höllinni,  keppt er um Íslandsmeistaratitil í kjötsúpugerð og gefst gestum kostur á að gæða sér á rjúkandi heitri súpu keppenda.

Hátíðarhöldunum lýkur með hagyrðingakvöldi og dansleik.