Mærudagar á Húsavík
Bæjarhátíðin Mærudagar er árlegur viðburður á Húsavik síðustu helgina í júlí.
Á Mærudögum hefur skapast sú skemmtilega hefð að bæjarbúar sameinast um að skreyta bæinn með hverfalitum. Húsavík er þá skipt upp í þrjú hverfi sem auðkennd eru með mismunandi litum. Þá er suðurbærinn til og með Uppsalavegi ,,bleika hverfið'' miðbærinn er ,,græna hverfið'' og norðurbærinn frá Kaupfélagshúsinu er ,,appelsínugula hverfið''.
Mærudagar hafa unnið sér fastan sess í bæjarlífinu sem árleg samkoma fyrir bæjarbúa, ættingja þeirra og brottflutta Húsvíkinga.
Það var í apríl 1994 sem Mærudagar voru fyrst haldnir á Húsavík sem eins konar uppskeruhátíð lista- og menningarlífs í sumarbyrjun. Árið 1996 var tímasetning hátíðarinnar færð fram í júní og hún tengd við Jónsmessu. Hátíðin hefur orðið umfangsmeiri og fjölsóttari með hverju árinu sem líður og hefur nú öðlast fastan sess síðustu helgina í júlí.
Dagskrá hátíðarinnar er ávalt fjölbreytt og skemmtileg. Í boði eru hvers kyns uppákomur, nýjungar í bland við atriði sem hafa öðlast fastan sess. Tónlistin er veigamikil og eiga allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi á fjölmörgum tónlistarviðburðum.
Fagnaðarfundir Húsvíkinga hvaðan æfa að móta stemningu Mærudaga. Stéttin niður við höfnina er hjarta hátíðarinnar og þegar rölt er í gegnum iðandi mannlífið er gaman að fylgjast með þegar andlit fólks lýsa upp af gleði og undrun við það að hitta gamla vini og jafnvel gleymda kunningja.