Skjálfandi - listahátíð

Skjálfandi, vinnustofudvöl og listahátíð á Húsavík, verður haldin dagana 4. - 9. júní. Skjálfandi er nýtt nafn á Jónsviku, vinnuviku og listhátið sem var haldin yfir Jónsmessuna, en ákveðið var að skipta um nafn þar sem hátíðin hefur nú færst nær og nær vorinu til að flýta fyrir ferðamannastrauminum á Norðausturhornið.
Þetta er í 6. sinn sem hátíðin verður haldin í Norðurþingi, og hefur hátíðin verið haldin síðan árið 2011, og um 50 listamenn tekið þátt í gegnum tíðina.

Fræðast má betur um hátíðina á facebook.

Nokkrir listamenn munu dvelja í Kaldbak í vinnustofum, og vinna þar og þróa verk. Á föstukvöldinu 9. júní 2017, frá kl. 20.00 - 24.00 mun svo vera efnt til Skjálfanda listahátíðar í Samkomuhúsinu á Húsavík, þar sem listamennirnir sýna brot úr verki sínu, auk þess sem heimamenn og fleiri bera hæfileika sína, í formi tónlistar, sviðslistar, myndlistar og annarra uppákoma.

Hátíðin er samstarfsverkefni fjölmargra einstaklinga, hópa, byggðarlaga og listgreina úr Norðurþingi sem skapa framtíðarvettvang fyrir listamenn til að vinna yfir heila viku í Kaldbak, og veitir einnig innblástur inn í menningar- og listalífið á svæðinu, en á lokakvöldi vinnuvikunnar leiða heimamenn og aðkomufólk saman hesta sína með einlægri og fallegri listahátíð í samkomuhúsinu á Húsavík. Að auki brúar hátíðin bilið á milli listgreina og milli miðla. Allt er leyft öll skapandi vinna og miðlun tekin fagnandi - ljósmyndir til tónlistar - verk sem eru  að fullu tilbúin til verka í vinnslu.

Ókeypis er inn á hátíðina og stendur hátíðin frá 20.00 - 24.00.