40 ára starfsafmæli - Kristbjörn Óskarsson

Kristbjörn Óskarson sendill og yfirkaffistofustjóri í 40 ár. Mynd/Gaukur Hjartar
Kristbjörn Óskarson sendill og yfirkaffistofustjóri í 40 ár. Mynd/Gaukur Hjartar

Þau merku tímamót eru í dag að hann Kristbjörn okkar Óskarsson á 40 ára starfsafmæli en hann hóf störf 1. Júní 1981 hjá Húsavíkurbæ.

Tilefni þótti því að taka hann tali og spyrja hann útí starfsferilinn.

Kiddi, líkt og hann er yfirleitt kallaður sameinaði svo síðar Húsavíkurbæ við þrjú önnur sveitarfélög, Kelduneshrepp, Öxarfjarðarhrepp og Raufarhafnarhrepp árið 2006 svo úr varð Norðurþingi. Hann hefur svo ráðið yfir sex sveitarstjórum á starfstíma sínum; Bjarna Aðalgeirssyni, Bjarna Þór Einarssyni, Einari Njálssyni, Reinhard Reynisson, Bergi Elías Ágústssyni og Kristjáni Þór, hinum sjötta, Magnússyni. Þakkar hann þeim fyrir vel unninn störf í sína þágu og annarra.

Kiddi hefur gegnt starfi sendils öll þessi ár og verið kaffistofustjóri. Kiddi man tímana tvenna, þrenna og ef ekki ferna. Enginn tölvupóstur var í þá daga. Bréfpóstur alls ráðandi. Bar Kiddi t.d. út fundarboð til bæjarstjórnarfulltrúa en í dag er það sent úr tölvukerfi. Reikningar í stærri fyrirtæki, líkt og KÞ og Höfða fór hann með fótgangandi fyrst um sinn og svo síðar á bíl. Á sumrin keyrði Kiddi um á ljósbrúnni vespu.

Á kaffistofunni reyktu menn og hélt Kiddi upp í gegndarlausum áróðri gegn reykingum og má nánast þakka honum að Ísland sé reyklaust, já og Þorgrími. Erfiðastur var Kári nokkur Sigurðsson segir Kiddi. Getur undirritaður vottað það.

Þó margt hafi breyst þá er eitt sem hefur ekki breyst en fáir vita að hann er aðeins 18 ára og það breytist aldrei sama hversu árin líða.

Þó það sem hér er ritað að framan sé ritað með glettni þá er það nú í anda Kidda sem hefur yfirleitt þótt gaman að stríða og gantast við fólk. Sjaldan lognmolla í kringum hann. Kiddi er þó líka stundum alvarlegur og það má merkja þunga í orðum hans um að hann sé þakklátur öllum þeim sem hann hefur unnið með og sakni þeirra allra sem hafa horfið á braut úr starfi með einum eða öðrum hætti.

Við, núverandi og fyrrverandi starfsfólk Bæjarskrifstofanna á Húsavík, síðar stjórnsýsluhús Norðurþings á Húsavík þökkum Kidda kærlega fyrir sitt framlag og samveru í gegnum árin. Nú hellum við upp á fyrir hann (bara í dag sko)!