Alþjóðlegur forvarnardagur sjálfsvíga

Í dag, 10.september er alþjóðlegur forvarnardagur sjálfsvíga. Af því tilefni gefur embætti landlæknis út meðfylgjandi veggspjald með upplýsingum um hvert hægt er að leita strax þegar einstaklingi líður illa.

Þekkir þú einhvern sem gæti verið að íhuga sjálfsvíg?

Þá er gott að vita að:
• Það er í lagi að spyrja viðkomandi hreint út hvort hann sé að íhuga sjálfsvíg.
• Það að spyrja um sjálfsvígshugsanir eykur ekki líkurnar á að viðkomandi taki líf sitt.
• Það getur hjálpað viðkomandi að þú hlustir og sýnir skilning.
• Við getum átt þátt í að hjálpa með því að vera vakandi fyrir hættumerkjum.


Dæmi um hættumerki:
• Talar um að svipta sig lífi.
• Segir hluti eins og „Enginn mun sakna mín".
• Leitar að leiðum til að taka eigið líf, eins og að komast yfir eiturefni, vopn eða lyf.
• Leitar að mögulegum aðferðum á netinu.
• Kveður ástvini og ættingja, gefur frá sér verðmæti eða skrifar erfðaskrá.


Hvað getur þú gert?
• Finndu viðeigandi tíma og stað til að tala um sjálfsvíg við þann sem þú hefur áhyggjur af. Láttu vita að þú ert til staðar til að hlusta.
• Hvettu viðkomandi til að leita sér faglegrar aðstoðar, s.s. hjá sálfræðingi, lækni, geðhjúkrunarfræðingi eða félagsráðgjafa. Þú getur líka boðist til að koma með að hitta fagaðilann.
• Fáðu aðstoð og upplýsingar hjá t.d. netspjalli heilsuvera.is, 1717.is eða Píeta-símanum, 552-2218.
• Ef viðkomandi býr hjá þér, reyndu að tryggja að hann hafi ekki aðgang að hættulegum efnum/hlutum (s.s. lyfjum, eiturefnum eða oddhvössum hlutum) á heimilinu.
• Ef viðkomandi býr ekki hjá þér, reyndu að hafa reglulega samband og fylgja því eftir hvernig líðanin er og hvettu hann áfram til að fá faglega hjálp.
• Ef þú heldur að bráð hætta sé á ferð skaltu ekki skilja viðkomandi eftir einan. Leitaðu aðstoðar hjá 1717, bráðamóttöku heilsugæslunnar, bráðamóttöku geðsviðs Landspítala við Hringbraut, s.543-1000, bráðamóttöku geðsviðs Sjúkrahússins á Akureyri, s.463-0802, eða hringdu í 112 í neyð.

Það er mikilvægt að muna að það ber enginn ábyrgð á lífi annarra og það getur verið erfitt að hafa áhyggjur af líðan ástvina. Ef áhyggjurnar hafa áhrif á þína líðan, leitaðu þá aðstoðar hjá fagaðilum, heilsugæslunni, 1717 eða Píeta.