Fara í efni

Álaborgarleikarnir 2019

Álaborg er vinabær Norðurþings (áður Húsavíkur) og hefur verið gott samband þar á milli í 50 ár síðan að formlegt vinabæjarsamstarf var tekið upp. Álaborgarleikar eru orðnir fastur liður í íþróttalífinu í Norðurþingi og er það regla frekar en undantekning að þingeysk ungmenni sæki leikana á fjögurra ára fresti. Fyrstu leikarnir voru haldnir árið 1975 og öllum vinabæjum Álaborgar er boðið að taka þátt á leikunum. Ungmenni á aldrinum 13 – 16 ára geta keppt í fjölmörgum íþróttagreinum eins og til dæmis fótbolta, handbolta, sundi, skylmingum, fimleikum, golfi og þríþraut, svo dæmi séu tekin. Alls komu yfir 1500 gestir á leikana í ár frá 19 bæjum og borgum víðs vegar um heiminn.
Að þessu sinni áttum við fulltrúa í golfi, fimleikum og sundi og var hópurinn skipaður eftirfarandi ungmennum:

 

  • Golf: Magnús Máni Sigurgeirsson, Fannar Ingi Sigmarsson, Hreinn Kári Ólafsson, Valur Snær Guðmundsson og Karl Hannes Sigurðsson þjálfari.
  • Fimleikar: Rakel Hólmgeirsdóttir, Sigrún Anna Bjarnadóttir, Elín Páls-dóttir, Sara Kristín Smáradóttir og Katla Dröfn Sigurðardóttir þjálfari.
  • Sund: Dagbjört Lilja Daníelsdóttir og Ester Eva Ingimarsdóttir, þjálfari, Árný Björnsdóttir.

Ferðin hófst á Húsavík eins og gefur að skilja. Þaðan var ekið til Keflavíkur og gist þar í eina nótt. Ferðatilhögun var ákaflega þægileg, flug til Köben, stutt stopp á Kastrup og svo 40 mínútna flug til Álaborgar. Í Álaborg var gist í skóla við hliðina á aðal íþróttasvæði leikanna. Fyrsta kvöldið fór í að koma sér fyrir og hvílast. Heldur var flestum, ef ekki öllum, brugðið þegar dýnurnar sem sofa átti á, komu í hús. Venjan er sú að öndvegis svampdýnur hafa verið rúm Álaborgarfara á meðan á leikunum stendur. Skjóta má því inn að kenningar eru á lofti um að danski herinn eigi dýnurnar góðu. Ekki vitum við hvort einhver stefnubreyting hafi verið innan danska hersins en slíkt var allavega ekki í boði í ár. Örþunnar dýnur úr Rúmfó/Jysk voru settar undir ferðalúna Íslendinga. Þjálfarar og keppendur eiga hrós skilið fyrir jákvæðni og umburðarlyndi en hópurinn lét sér blaðþunnar dýnurnar duga þessa nóttina. Daginn eftir var þó fengin loftfyllt uppfærsla úr áðurnefndri verslun og var það kærkomin, nei nauðsynleg uppfærsla á gistiaðstöðu!


Miðvikudagur 31. ágúst
Fyrsti dagur leikanna var tekinn missnemma hjá keppendum. Sundið tók snarpa æfingu á milli 8-9.30 og að sjálfsögðu voru Dagbjört og Est-er mættar fyrstar af öllum í laugina. Fyrstur kemur, fyrstur fær og fengu þær stöllur því að stjórna tónlist æfingarinnar. 30 manna hópur kom í kjölfarið á tveimur Húsvíkingum, en við vitum ekki betur en að Kínverjarnir og Eistarnir hafi verið kampa kátir með tónlist Ljótu Hálfvitanna og takfast íslenskt rapp!

Danirnir eru mjög ligeglad með skipulagið sem allt gengur þó upp eins og fallegur kapall fyrir rest. Við rétt náðum að grípa þau tíðindi að golfararnir áttu að ná rútu klukkan 9.00. Þannig að seinni 9 holurnar á ostinum sem var á ristaða brauðinu voru borðaðar mjög hratt!
Við tók smá rúntur út fyrir Álaborg til Gistrup (Ornehoj golfklub fyrir áhuga-sama). Bílstjórinn villtist reyndar, þannig að það lengdi túrinn töluvert. Þegar á völlinn var komið var spilað svokallað Texas scramble á prýðilegum 26 holu golfvelli. Okkar mönnum var skipt niður í lið með kylfingum frá hinum löndunum og var það því fínt tækifæri til að blanda geði við aðra keppendur á leikunum.

Fimleikastelpurnar áttu ekki æfingatíma fyrr en klukkan 12 á hádegi og var áætlað að nýta tímann til að sofa fram eftir. Gallinn var sá að þunnu jógadýnurnar veittu ekki mikinn stuðning við mjóbakið og var því vaknað á sama tíma og aðrir. Fimleikarnir hafa aðstöðu í glæsilegu húsnæði við hliðina á leikvangi fótboltaliðs Álaborgar (Aab). Sundhöllin sem keppt er í er einnig á sama svæði, íþróttasalir í fullri stærð og því um sannkallaða íþróttamiðstöð í miðborginni að ræða. 

Skrúðganga og setningarathöfn var næst á dagskrá. Skrúðgangan var leidd af alvöru lúðrasveit í búningum og alles! Gengið var frá íþróttamiðstöðinni þar sem miðstöð leikanna er og á glæsilegan útisundstað í Vestre Fjordpark (mælt er með að gúggla staðinn til að sjá hversu magnaður hann er). Leikarnir voru formlega settir af Thomas Kastrup-Larsen, borgarstjóra Álaborgar. Við tók sýning hjá dýfingarmeisturum sem voru ekki að stinga sér til sunds í fyrsta skipti.

Fimmtudagur 1. ágúst
Dagskráin er misþétt hjá hópunum sem eru í Álaborg. Fimleikarnir byrja ekki æfingar fyrr en klukkan 12 í dag. Því ákváðu stelpurnar að taka auka „gólfæfingar“ fyrir hádegi í miðbæ Álaborgar. Stutt en snörp æfing og er stefnan sett á að reyna að ná fleiri aukaæfingum í verslunum borgarinnar, enda miðbærinn gríðarlega skemmtilegur. Eftir hádegi héldu hefðbundnar fimleikaæfingar áfram og á föstudaginn fer svo keppnin fram. Greinilegt er að Danirnir eru með mjög sterkt lið enda fimleikaklúbburinn öflugur hjá þeim á landsvísu.


Golfararnir okkar voru aftur með stíft prógramm. Dagurinn léttist þó aðeins við það að bílstjóri rútunnar rataði nú á golfvöllinn í Gistrup. Aftur voru spilaðar 18 holur á vellinum og endað á púttæfingum og úttekt á æfingasvæðinu. Kjartan og Kiddi komu að taka út aðstæður en töluðu greinilega ekki við rútubílstjóra hópsins og keyrðu á vitlausan golfvöll! Þeir félagar létu þó vel af kaffibollanum þar og geta þá sagt hópnum hvernig á að keyra uppá þann golfvöll sem spilaður verður á föstudeginum.


Sundstelpurnar héldu beint í keppni á fimmtudeginum. Keppt var í 25m innilaug sem er á sama svæði og fótboltaleikvangur Álaborgar (Aab) og áðurnefnt fimleikahús. Um 120 keppendur voru í sundinu og breiddin á meðal keppanda mjög mikil sem gerði mótið skemmtilegt. Stelpurnar okkar stóðu sig með mikilli prýði og er ljóst að þær standast fyllilega sam-anburð miðað við jafnaldra sína hér heima og erlendis.


Föstudagur 2. ágúst
Golfararnir söðluðu um á nýjan völl í dag. Aalborg golfklub var stað-urinn en um að ræða völl í hæsta gæðaflokki. Til marks um það má nefna að leikið hefur verið á vellinum á evrópsku mótaröðinni af fremstu kylfingum álfunnar. Ef einhver er að huga að umsókn í klúbbinn er um að gera að henda inn umsókn sem fyrst, en þriggja ára bið er eftir inngöngu.

Fimleikakeppnin var í dag eftir tveggja daga undirbúning. Rakel og Sara kepptu í stökki og gólfæfingum. Gólfæfingarnar gengu með ágætum, en enn betur gekk í stökkinu þar sem stúlkurnar bættu báðar sinn besta árangur!
Að venju var stuð og stemmning í sundhöllinni. Fyrir þá sem ekki hafa farið á sundmót er klárlega hægt að mæla með þeirri upplifun! Tónlist, hvatningaróp, dansspor á bakkanum og hnífjöfn sund eru það sem skal vænta.
Þær Esther og Dagbjört öttu kappi hvor við aðra í fjórsundi og röðuðust á 5 og 6 braut. Dagbjört byrjaði sterkari í flugi og skriði, en þegar kom að bakskriðinu (sterkasta grein Esterar) náði hún að vinna upp 4 metra forskot sem Dagbjört hafði byggt upp. Engu líkara en það væri utanborðsmótor á löppunum á henni þegar hún spýttist áfram í lauginni. Fyrir síðustu ferðirnar (bringusund) var Ester komin með gott forskot á Dagbjörtu. Dagbjört er gríðarsterk í bringusundinu og eins og selur þá mokaði hún sér áfram og við tók æsispennandi lokasprettur. Dagbjört átti greinilega eitthvað inni og náði að vinna upp það forskot sem hún hafði tapað og endaði sjónarmun á undan Ester í mark. Virkilega skemmtilegt á að horfa og eftir stendur árangur á alþjóðlegu móti sem stelpurnar geta verið mjög stoltar af.

Laugardagur 3. ágúst
Lítið var annað gert síðasta daginn en að halda heim á leið. Hljómar ef til vill sem auðvelt verk, en annað átti eftir að koma á daginn. Upphaflega stóð til að fljúga: Álaborg – Köben – Keflavík. Til að gera langa sögu stutta þá var seinkun á fluginu til Köben. Veður var gott og sólin skein í heiði þeirra Dana, sem er reyndar bara þúfa eða hóll í besta falli. Allavega, ekkert átti að koma í veg fyrir að þægilegt 40 mínútna innanlandsflug gengi sem skyldi. Flugið tafðist þó af einhverjum ókunnum ástæðum um tæpa þrjá klukkutíma. Þar með var ljóst að hópurinn myndi missa af sínu flugi til Íslands. Flugfélagið bar ábyrgð á töfinni og þurfti því að ganga í það að finna út úr því að koma hópnum heim. Ekki var um auðugan garð að gresja í þeim málum. Laugardagur um verslunarmannahelgi og þétt skipað í allar vélar til Íslands. Ekki er annað hægt en að hrósa starfsmönnum SAS fyrir snör handtök og mikla innsýn í húsvíska hópinn. Þegar Álaborgarfarar lenda á Kastrup tekur hópur starfsmanna á móti þeim með alla flugmiða klára! Starfsmenn voru greinilega með upplýsingar um hverjir voru fljótir að hlaupa og hverjir ekki! Kristján Þór sveitarstjóri og Kolbrún Ada voru til að mynda látin sitja eftir og bíða rólega eftir næstu vél Icelandair beint til Íslands. 

Aðrir voru sendir í kapphlaup út í óvissuna á eftir flugvallarstarfsmönnum. Hópurinn hafði það af upp í vél og allir hreyflar í gangi! Vélin var sem sagt að fara til Stokkhólms og þaðan átti að fljúga beint til Íslands. Þetta gekk eins vel og hægt var, en vissulega nokkurra tíma töf á heimleiðinni, en einhverjir gátu krossað við Svíþjóð sem land á listanum hjá sér. Til gamans má geta að fyrir fjórum árum síðan lentu Álaborgarfarar í töf á heimleiðinni þar sem flugvél WOW (flugfélag sem var einu sinni til) komst ekki til Köben af einhverjum ástæðum. Leiguvél kom því 9 tímum síðar og ferjaði hópinn heim. 

Þrátt fyrir ævintýrið á heimleiðinni var ferðin í alla staði vel heppnuð. Hópurinn var fjölbreyttur, fjörugur og skemmtilegur. Álaborg er skemmtileg borg sem hefur uppá allt að bjóða og er greinilega kraftur í íþróttalífinu þar. Vinabæjarleikarnir gefa tækifæri á að bera sig saman við keppendur frá öðrum löndum. Einnig gefst starfsmönnum og stjórnmálamönnum kostur á að hitta kollega sína frá vinabæjum Norðurþings og skiptast á hugmynd-um, sögum og almennri sýn á hin og þessi hugðarefni.


Að lokum vil ég undirritaður þakka kærlega fyrir frábæra ferð. Það flokkast til forréttinda að fá tækifæri að taka þátt í verkefni sem þessu á fjögurra ára fresti.

F.h. Norðurþings, Kjartan Páll Þórarinsson