Fara í efni

Covidpistill sveitarstjóra #12

Það er jákvætt að engin breyting hefur orðið á fjölda smitaðra hér í okkar samfélagi yfir helgina og vonandi höldum við þeirri mynd sem allra lengst. Á meðan að ferðalögum fólks milli svæða er haldið í skefjum og á meðan að smitaðir einstaklingar eru almennt ekki á ferðinni þá smám saman gerist það að við náum tökum á faraldrinum. Það verður þó að játast að upplýsingarnar sem hafa komið fram um helgina og varða hátt hlutfall þeirra sem greinast en eru einkennalausir valda áhyggjum. Þær fréttir ættu að ýta enn frekar undir það að við tökum það til okkar að fylgja í hvívetna fyrirmælum sem gefin eru út af yfirvöldum og að við séum ekki innan um fólk nema við nauðsynlega þurfum þess og að fjarlægðartakmörk séu þá virt. Stöndum okkur áfram í baráttunni því þá gengur þetta hraðar yfir.

Sveitarstjórar hér í Þingeyjarsýslu og forsvarsmenn stéttarfélaganna og samtaka atvinnurekenda á svæðinu komu saman fyrir hádegið á vikulegum fundi um stöðuna á vinnumarkaði. Það finna allir fyrir því að atvinnuleysi er að aukast hratt og er vonast eftir því að nákvæmar tölur um stöðuna í Þingeyjarsýslu berist öðru hvoru megin við páskana. Sveitarfélögin öll vinna áfram að viðbragðspökkum og eiga það öll sameiginlegt að ætla frekar að bæta í framkvæmda- og fjárfestingaráætlanir sínar í ljósi stöðunnar heldur en hitt. Ekki er annað að heyra en það ríki nokkur samhljómur um flestar útfærslur sveitarfélaganna er snúa að frestun eða niðurfellingu gjalda fyrir veitta þjónustu.

Grunnskólarnir eru komnir í páskafrí en starfsfólk vann þar í dag að betrumbótum á aðstæðum hverrar einingar svo hægt sé að hefja skólastarfið aftur af krafti eftir páska. Á fundi með skólastjórnendum í dag kom líka fram að það var fámennt en góðmennt á leikskólanum Grænuvöllum í morgun. Það stefnir í að um fimmtungur barna leikskólans verði mikið eða alveg heima hjá foreldrum sínum í apríl vegna aðstæðna sem veiran hefur skapað. Aðstæður foreldra eru vitanlega mjög mismunandi á þessum tímum og það er sveitarfélaginu mikilvægt að geta komið fjárhagslega til móts við foreldra sem ekki getað nýtt sér fulla þjónustu skólans vegna áhrifa faraldursins. Það er okkur líka mikilvægt að minna á að öll heilbrigð börn eru hvött til að nýta þá þjónustu sem er í boði hjá sveitarfélaginu eins og kostur er. Fyrir foreldra barna sem vilja fá gagnlegar upplýsingar um börn og covid-19 má benda á fyrirlestur Valtýs Stefánssonar Thors barnasmitsjúkdómalæknis: https://vimeo.com/404540593

Í samtölum mínum við fólk um helgina finnur maður glöggt hvað það ríkir mikil samhygð, vilji og í raun þörf hjá fólki til finna það að við séum í baráttunni saman. Ég vil því ljúka þessu í dag með því að nota tækifærið og senda sérstakar baráttukveðjur fyrir hönd okkar í Norðurþingi á þá staði á landinu sem eru að glíma við hvað flóknustu stöðuna. Nefni í því samhengi Ísafjörð og Bolungarvík, Vestmannaeyjar, Hveragerði og Hvammstanga. Við hugsum til ykkar og vonum að toppnum hafi verið náð í þessu hjá ykkur.

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri