Fara í efni

Covidpistill sveitarstjóra #16

Staðan á okkar svæði í dag er sem fyrr jákvæð. Nú eru 85 í sóttkví og aðeins 19 virk smit í umdæmi Lögregulstjórans á Norðurlandi eystra. Á Akureyri eru 15 smit, tvö á Húsavík og sitthvor einstaklingurinn smitaður á Siglufirði og Dalvík. Alls hafa verið greind 47 smit á svæðinu, sem hlýtur að teljast með eindæmum vel sloppið m.v. hvað óttast var að gæti gerst fyrir örfáum vikum síðan. Allt bendir því til þess að við séum með stjórn á aðstæðunum og séum með góðan byr í siglunum. Það er hinsvegar mikilvægt að missa ekki sjónar á verkefninu, sem er 100% hlýðni fyrirmæla og að farið sé eftir reglum samkomubannsins. Það getur verið erfið freisting að stytta sér leiðina í markið, en við það ertu dæmdur úr leik. Svo einfalt er það.

Mesta áskorunin hér á okkar svæði að mati aðgerðarstjórnar almannavarna er að fá fólk til að virða fjarlægðarmörkin við aðra einstaklinga. Það er mikill freistnivandi víða þegar gott er veðrið að hitta félaga og vini, jafnvel í leik eða göngu og þá gleymir fólk sér. Reynum að standa vaktina öll þétt saman (en samt ekki!) með þetta og minnum hvert annað á. Það getur skipt sköpum. Eins er mikilvægt að við hugsum vel út í það hvaða hluti við snertum þótt við séum utandyra. Eru það hlutir sem líklegt er að aðrir séu að snerta? Bekkir, handrið eða annað geta hæglega borið vírusinn þótt utandyra sé.

Staðan er annars góð í skólunum okkar. Góð mæting var í morgun í grunn- og leikskóla sveitarfélagsins og kennarar og börn tilbúin til að tækla síðustu brekkuna í samkomubanninu af mikilli festu. Hugvitsamar leiðir hafa verið prófaðar víða innan skólanna okkar sem auðveldað hafa starfið til muna og hafa því fjölmörg verkfæri verið gagnreynd sem nýst geta ekkert síður í skólastarfinu þótt ekki ríki samkomubann. Það er mikið verðmæti fólgið í því. Næstu straumhvörf hjá okkur verða 4. maí þegar skólastarfið ætti að komast í eðlilegra horf hjá okkur, þótt ég sjái ekki fyrir mér að starfið þá verði að öllu leyti eins og það var fyrir covid-19. Allt skýrist þetta hægt og rólega á næstu dögum. Mestu skiptir að eyða þeirri óvissu sem hægt er að eyða. Það hjálpar öllum að plana næstu mánuði og frekari viðbrögð. Yfirvöld hafa sýnt að þau eru fullkomlega meðvituð um það mikilvægi.

Að lokum er við hæfi að vitna í afmælisbarn dagsins þegar hún var spurð fyrr í dag hvað það væri sem hefði skipt mestu máli síðustu vikur í baráttu landsmanna við faraldurinn. Ekki stóð á svarinu; „seiglan“. Held það sé hárrétt hjá frú Vigdísi. Við erum seig þegar á reynir. Það er einn af mikilvægari kostunum að hafa, það er seiglan. Sýnum hana áfram. Hamingjuóskir sendi ég frú Vigdísi Finnbogadóttur í tilefni afmælisins með þökk fyrir hennar baráttu, þrek og seiglu í gegnum árin.

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri