Fara í efni

Covidpistill sveitarstjóra #20

Hinn langþráði 4. maí er nú brátt á enda runninn og ég býst við því að allir varpi öndinni ögn léttar yfir því að tilslakanir samkomubannsins hafi loks verið innleiddar. Ef marka má fjarfundina sem ég hef setið undanfarna daga þá finnst mér líklegt að þær lubbalegu samkomur verði með snyrtilegra sniði næstu vikurnar þegar rakarar þessa lands hafa komist yfir mesta covid-hár-stabbann. En í fullri alvöru þá má örugglega til sannvegar færa að stærstu orrustunni í baráttunni við Covid-19 sé lokið hjá okkur (í bili í það minnsta) þótt bardaginn haldi áfram um sinn og allt eins líklegt að langt sé enn til þess að hægt sé að hverfa til fyrra horfs áður en bölvuð veiran yfirtók heimsbyggðina.

Ég hef sagt það áður hér í þessum pistlum mínum og segi það enn að við öll, hvert og eitt okkar sem myndum í sameiningu samfélag, eigum hrós skilið fyrir að standa vaktina með þeim bravúr sem raun ber vitni. Almennt hefur fólk einfaldlega farið eftir fyrirmælum sem gilt hafa og ekkert múður. Við höfum sem samfélag staðið af okkur þetta stríð hingað til og munum standa vaktina áfram, saman. Við munum áfram sína varkárni og yfirvegun og fara okkur hægt meðan við fótum okkur á nýjan leik. Við hljótum öll að taka undir það hversu miklu máli það hefur skipt að keðjan hafi haldið í baráttunni, því við erum aldrei sterkari en veikasti hlekkurinn. Það verður að gilda áfram þótt gerðar hafi verið tilslakanir á samkomubanninu og því biðla ég til allra að slaka hvergi á í sínum eigin sóttvörnum hvað handþvottinn og tveggja metra regluna varðar. Hvoru tveggja er enn í gildi innan þess ramma sem þó hefur verið útvíkkaður frá og með deginum í dag.

Samhliða þeirri raunverulegu ógn sem veiran er við heilbrigði fólks hefur annað stríð verið háð til að verja með öllum ráðum efnahag þjóðarinnar. Það stríð verður að öllum líkindum langvinnara, því miður. Engum dylst að afar dökkar horfur blasa við til næstu missera, í það minnsta, og er sveitarfélagið okkar í sömu stöðu og önnur sveitarfélög landsins hvað það varðar. Ástandið kemur vitanlega misjafnlega niður á rekstrinum eftir svæðum en allir finna fyrir samdrættinum og allir þurfa að bregðast við. Þótt verkefnið sé gríðarstórt og þótt skoðanir séu skiptar þá vil ég heilt yfir hrósa sveitarstjórn Norðurþings fyrir að sína samstöðu um stóru myndina og helstu viðbrögð hingað til. Það er mikill styrkur sem felst í því að geta sameinast um stóru málin og vonandi tekst okkur það áfram. Sömuleiðis vil ég færa starfsfólki sveitarfélagsins öllu mínar bestu þakkir fyrir frábært framlag síðustu vikurnar við krefjandi aðstæður. Þótt búið sé að koma skútunni í gegnum þennan brimskafl þá er enn skítabræla. Það er þó umfram allt hvetjandi inn í framtíðina að hafa upplifað hve harðsnúin og dugleg, æðrulaus og hugmyndarík áhöfnin er. Fyrir það er ég þakklátur og stoltur að fá tækifæri til að arka ykkur við hlið áfram veginn út úr þessu kófi öllu saman. Það mun nefnilega hafast á endanum.

Með góðri kveðju,

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri