Fara í efni

Covidpistill sveitarstjóra #8

Öll hljótum við að fagna því að okkur Íslendingum virðist vera að takast hvað best upp við að sveigja hina margumræddu kúrfu af leið veldisvaxtar óhefts faraldurs. Hin einföldu ráð sem við beitum í formi sóttkvíar og einangrunar þeirra sem eru útsettir og eða smitaðir af kórónaveirunni eru einfaldlega að skila góðum árangri. Þetta eru góðar fréttir og hvetjandi, en verðum ekki værukær.

Það er ánægjulegt að okkur hafi tekist að halda úti þjónustu grunn- og leikskóla í Norðurþingi með jafn litlum frávikum og raun ber vitni undanfarnar vikur. Gott skipulag, magnað starfsfólk og samstarfsfúsir foreldrar og forráðamenn barna eiga heiðurinn af því, sem og atvinnulífið hér í sveitarfélaginu sem að mínum dómi er að sýna æðruleysi, skilning hvað þessa skertu þjónustu varðar og dugnað við herfilegar aðstæður. Þakkir til ykkar allra.

Fleiri börn eru að mæta í skólana og á leikskóla en í síðustu viku og ennþá er okkur að takast að halda starfseminni innan þeirra marka sem samkomubannið setur. Mögulega þarf þó að grípa til frekari takmarkana, sérstaklega hvað leikskólann Grænuvelli varðar ef fram heldur sem horfir, en það verða næstu dagar einfaldlega að leiða í ljós. Því skal komið á framfæri hér að opnunartíminn á Grænuvöllum verður lengdur til kl. 16 frá og með morgundeginum, í stað 15:45. Þá er miðað við að allir séu komnir út úr húsi kl 16. Leikskólastjóri hefur sömuleiðis sent út tilkynningu til foreldra varðandi leiðréttingu gjalda vegna mars mánaðar sem og óskum til foreldra um að fyrirhugaðar breytingar á vistunartíma barna vegna covid-ástandsins verði tilkynntar fyrir 4. apríl n.k.

Við höfum rætt það undanfarið að þótt enginn á byggðu bóli vilji taka þátt í þessu martraðar-maraþoni og enginn hafi undirbúið sig svo heitið geti fyrir þessi ósköp, þá er stólað á að við höfum úthaldið sem þarf til að ráða niðurlögum faraldursins. Sóttvarnarlæknir talaði á blaðamannafundinum í dag um þolgæði. Við þurfum að vera þrjósk og við þurfum að beita öllu því úthaldi sem við mögulega finnum innra með okkur til hegða okkur í samræmi við ástandið þannig að þetta gangi hraðar yfir. Við erum mögulega hálfnuð í stranga ferlinu ef allt gengur upp. En ef við gefum eftir of snemma þá lengjum við einfaldlega þann tíma sem þetta tekur að ganga yfir.

Tölum í okkur hugrekki og þor, úthald og seiglu, og högum okkur bara samkvæmt þeim ramma sem okkur er settur. Hann er skýr og það eiga allir að þekkja hann. Þótt ég mæli ekki sérstaklega með því að fólk velti sér of mikið upp úr fréttum frá þeim svæðum þar sem faraldurinn geisar hvað harðast nú, þá getur maður annað en fyllst fullkomnu þakklæti fyrir þær skynsamlegum en hörðum fyrstu viðbrögðum og samheldni allra Íslendinga við upphaf faraldursins hér. Maður fyllist angist yfir þeirri hræðilega erfiðu stöðu vina okkar, bræðra og systra í New York, í Bergamo, eða í Madrid. Það er ekki hægt að þakka nægjanlega vel fyrir þá staðreynd að hér sé faraldurinn ekki í jafn óviðráðanlegum vexti. Verðum ekki værukær.

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri