Fara í efni

COVID-19: Aðgerðir Norðurþings vegna efnahagsmála

Á 100. fundi sveitarstjórnar Norðurþings þann 12. mars síðastliðinn var samþykkt að stofna aðgerðahóp á vegum Norðurþings til að fást við efnahagsmál vegna Covid-19. Hópurinn hefur komið saman til þriggja funda undanfarna viku og liggja fyrir byggðarráði fundargerðir hópsins ásamt vinnugögnum vegna mögulegra sviðsmynda í rekstri sveitarfélagsins á árinu. Sömuleiðis liggur fyrir erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga frá 19. mars sl. þar sem hvatt er til að hrinda í framkvæmd eins og kostur er hugmyndum og ábendingum að aðgerðum til viðspyrnu fyrir íslenskt atvinnulíf og fjölskyldur í ljósi þess samdráttar sem blasir við í þjóðarbúskapnum.

Grunnstefið í viðbrögðum Norðurþings við Covid-19 faraldrinum byggir meðal annars á tillögum Sambands íslenskra sveitarfélaga að aðgerðum til viðspyrnu. Byggðarráð samþykkir eftirfarandi aðgerðir sem gilda fyrir tímabilið 16. mars til og með 31. maí.

Fyrirkomulag þessa verður endurskoðað fyrir 15. maí:

- Leiðrétt verður fyrir þeirri skerðingu sem nú er orðin og fyrirséð er að verði á þjónustu við barnafjölskyldur í leik- og grunnskólum. Það þýðir að ekki verður innheimt fyrir þjónustu sem ekki er veitt í mötuneytum grunnskóla, frístundaheimilum og leikskólum. Fyrirframgreidd gjöld mynda inneign sem kemur til lækkunar á gjöldum að loknu tímabili þjónustuskerðingar.

-Ferðaþjónustufyrirtæki sem nýta þjónustu Hafnasjóðs Norðurþings fá niðurfellingu á farþegagjöldum.

Byggðarráð felur sveitarstjóra framkvæmd þessara aðgerða í samráði við viðkomandi sviðsstjóra. Aðgerðarhópur Norðurþings mun vinna áfram að frekari tillögum að viðbrögðum við því ástandi sem nú ríkir s.s. innheimtu fasteignagjalda og ýmissa þjónustugjalda sveitarfélagsins. Þær tillögur verða lagðar fram í byggðarráði í næstu viku.