Fréttir af skíðalyftu í Reyðarárhnjúk

Mynd/ www.640.is - Hafþór Hreiðarsson
Mynd/ www.640.is - Hafþór Hreiðarsson

Í lok desember 2019 var opnuð skíðalyfta í Reyðarárhnjúk ofan Húsavíkur. Um er að ræða lyftu sem áður stóð í Skálamel en sökum breyttra snjóalaga var tekin ákvörðun um að færa lyftuna.

Verkið var dregið áfram af sjálfboðaliðum og áhugasömu fólki um framgang vetraríþrótta. Óhætt er að segja að verkið hefði aldrei verið unnið eins hratt og raun ber vitni án aðstoðar frá þessari vösku sveit.

Frá því að lyftan var opnuð formlega hefur því miður gengið brösulega að halda henni gangandi. Veðurfar í janúar var eins og það var og lítið við því að gera. Við erum enn að læra á svæðið okkar upp frá og veður getur verið gjörólíkt því sem er í þéttbýlinu á Húsavík.

Varðandi lyftubilanir hafa fyrst og fremst verið tvö atriði að valda okkur ama. Lyftuvírinn og öryggisrás fyrir lyftu.
Til að byrja með var of mikill slaki á lyftuvírnum. Það varð þess valdandi að diskarnir höfðu tilhneigingu til að koma skakkir inn að og rekast í mastrið á endastöðinni. Við það sló lyftunni út og einnig má nefna að vírinn fór tvívegis út af hjólunum með tilheyrandi vinnu við að laga það. Til að gera langa sögu stutta er nú talið að vírinn sé kominn í fínt lag og hefur hann ekki verið til vandræða eftir síðustu lagfæringar.

Annað vandamál hefur verið erfiðara við að eiga og það tengist svokallaðri öryggisrás á lyftunni. Öryggisrásin á að tryggja það að lyftan slái út ef að einhverskonar mótstaða er á kerfinu. Til dæmis slær öryggisrásin út ef að einstaklingur fer fram fyrir síðasta lyftumastur. Tveir skynjarar (öryggi) eru á hverjum einasta staur til að tryggja það að lyftan sé örugg fyrir starfsmenn og notendur.

Þessi öryggisrás hefur verið að senda nær stöðugar villumeldingar og sem dæmi má nefna að síðasta opnunardag í lok janúar sló lyftunni út yfir 50 sinnum á einum klukkutíma. Til að laga bilunina þarf að yfirfara leiðslur og kanna hvar leiðir út. Sú vinna er nú í gangi og vonum við að það gangi eins hratt og auðið er. Um er að ræða sömu leiðslur og öryggi sem voru á lyftunni þegar hún stóð í Skálamel og því ómögulegt að segja hvort flutningur á lyftunni hafi eitthvað með málið að gera.

Ný upplýsingasíða hefur verið opnuð á facebook fyrir skíðasvæðið. Hana má finna með því að leita að „skíðasvæði Norðurþings“. Þar verður framvegis miðlað upplýsingum um skíðasvæðið, göngubrautir, lokanir og annað til fróðlegt.

Að lokum má segja að uppbygging á nýju útivistarsvæði er langhlaup. Stórir áfangar hafa unnist nú á síðustu misserum og er það einlæg trú mín að svæðið eigi eftir að vaxa og dafna í framtíðinni þrátt fyrir tímabundin vandamál með skíðalyftuna. Nú búum við svo vel að hafa skíðagöngu og lyftu á sama stað og er mikill ávinningur af því. Framundan eru bestu skíðadagar ársins þegar sól fer að hækka á himni og hægt verður að standa á skíðum þangað til sólinn hverfur á bak við Kinnafjöll. Það er okkar markmið að vera komin á beinu brautina sem allra fyrst þannig að hægt sé að njóta útivistar í fersku fjallaloftinu.

 

Kjartan Páll Þórarinsson

Íþrótta- og tómstundafulltrúi Norðurþings