Fyrirmyndafyrirtæki 2019

Eva, St. Hallur Lund, Haukur Eiðs, Simmi og Gulli mættu á fund byggðarráðs og tóku á móti blómvendi …
Eva, St. Hallur Lund, Haukur Eiðs, Simmi og Gulli mættu á fund byggðarráðs og tóku á móti blómvendi frá byggðarráði.

Á fundi byggðarráðs í morgun, 21. nóvember, komu fyrirtæki í Norðurþingi sem nýverið hafa hlotið eftirsóknarverðar viðurkenningar fyrir árangur og frammistöðu í rekstri.

Á lista Credit Info yfir framúrskarandi fyrirtæki eru - Fjallasýn Rúnars Óskarssonar ehf., Trésmiðjan Rein ehf. Curio ehf., Sögin ehf., Garðræktarfélag Reykhverfinga hf. og Hvalasafnið ses.
 
Sjóböðin hlutu nýverið viðurkenningu fyrir að vera Sproti ársins í ferðaþjónustu á Norðurlandi og var það Markaðsstofa Norðurlands sem veitti þá viðurkenningu. Sjóböðin hlutu einnig nýverið Nýsköpunarverðlaun Samtaka ferðaþjónustunnar. Gaman er að geta þess að þau voru veitt í 16. skiptið og hafa þingeysk fyrirtæki fengið þau í fjögur skipti; Sel Hótel árið 2004, Norðursigling árið 2007, Fuglasafn Sigurgeirs árið 2009 og nú Sjóböðin

Hvalaskoðunarfyrirtækið Gentle Giants hlaut þýðingarmikla viðurkenningu frá einu stærsta bókunarfyrirtæki sinnar tegundar í Evrópu – Þýska fyrirtækinu GetYourGuide. Viðurkenningin var fyrir vöruna „Big Whale Safari & Puffins“ í flokknum Water Adventures –og er Gentle Giants eina fyrirtækið á Íslandi sem hlýtur viðurkenningu frá GetYourGuide 2019.

Síðast en alls ekki síst þá hlaut fyrirtækið Curio nýsköpunarverðlaun Íslands.  

Fulltrúar Trésmiðjunnar Reinar ehf., Sagarinnar ehf., Curio ehf., Dodda ehf., Hvalasafnsins ses. og Sjóbaða ehf. mættu á fund byggðarráðs í morgun og tóku á móti blómvendi frá ráðinu. Eftir kaffi og kökur áttu fulltrúar fyrirtækjanna og kjörnir fulltrúar samtal um atvinnumál í sveitarfélaginu

Til hamingju með framúrskarandi góðan árangur! 

Í málefnasamningi meirihluta sveitarstjórnar er eitt af áhersluatriðum kjörtímabilsins að koma á stefnumóti á milli sveitarfélagsins og atvinnulífsins að minnsta kosti einu sinni á ári. Hér er því líka verið að taka fyrsta skrefið í þá átt. Þá hefur byggðaráð hafið vinnu við mótun atvinnustefnu fyrir sveitarfélagið og framundan er að ljúka þeirri vinnu. Það eru því afar dýrmætt fyrir okkur að fá ykkur hingað í dag til að gleðjast með ykkur yfir góðum árangri og fá að eiga við ykkur samtal um atvinnumál í sveitarfélaginu.