Snjómokstur og sorphirða á Húsavík

Tvö tryllitæki undir styrkri stjórn Ómars og Óla dauðhreinsa Vallholtsveginn að morgni 3.des
Tvö tryllitæki undir styrkri stjórn Ómars og Óla dauðhreinsa Vallholtsveginn að morgni 3.des

SNJÓMOKSTUR
Hressilega hefur kyngt niður af snjó síðustu dægrin líkt og hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum.
Hér á Húsavík voru starfsmenn þjónustustöðvar árrisulir og hófu störf við hreinsun á götum og stæðum bæjarins snemma í morgun og munu halda áfram vinnu við verkun gatna í dag. Í þessum töluðu orðum eru 5 stór tæki í notkun og einnig minni sem taka gangstéttir þar sem stærri tæki ná ekki að hreinsa. Á morgun er áætlað að keyra snjó af snjósöfnunarsvæðum. 

Haft var eftir snjómokstursmönnum að íbúar eigi heilt yfir þakkir skilir fyrir skilning á þeirra störfum og allir tekið þetta veðuráhlaup með æðruleysi. Þetta hefst allt um síðir. 

SORPHIRÐA
Sorphirða er hafin hér á Húsavík og mun halda áfram í dag,  á morgun, þriðjudag og miðvikudag eins og venjulega.

Vinsamleg tilmæli eru til íbúa að moka frá ruslatunnum og ekki síst ofan af þeim. Sorphirða mun einnig riðlast eitthvað eftir aðstæðum, t.a.m hreinsun á götum en þau hús sem þarf að sleppa verða tekin þegar færi gefst hverju sinni. 

Við hjá Norðurþingi sendum snjómokstursmönnum og sorphirðufólki baráttukveðjur í þessum hasar.