Fara í efni

Fötlunarráð í Norðurþingi

Fötlunarráð í Norðurþingi

Miðvikudaginn 30. janúar kom fötlunarráð saman í fyrsta skipti í kjölfar nýrra laga sem tóku gildi 1. október 2018. Áhersla á hvers kyns samráð og samvinnu við notendur hefur rutt sér til rúms innan velferðarþjónustunnar. Talið er mikilvægt að notendur eigi slíkan vettvang þar sem valdefling er höfð að leiðarljósi; fólk verði þannig virkir þátttakendur í mótun á þeim úrræðum og þjónustu sem því stendur til boða.

Samráð af því tagi sem hér um ræðir er þríþætt:

a. samráð við einstaka notendur í málum sem varða þá sjálfa,
b. samráð um stefnumótun og
c. samráð við hópa notenda um framþróun þjónustunnar.
 

Í hverju sveitarfélagi, eða í sveitarfélögum sem eiga samstarf um þjónustu við fatlað fólk, skal starfa formlegur samráðsvettvangur er nefnist samráðshópur um málefni fatlaðs fólks þar sem fjallað er um þjónustu við fatlað fólk og framkvæmd og þróun þjónustunnar. Í samráðshópnum skulu að lágmarki sitja þrír fulltrúar kosnir af sveitarstjórn að loknum sveitarstjórnarkosningum og þrír fulltrúar tilnefndir af hagsmunasamtökum fatlaðs fólks.

Umfjöllun á vettvangi fötlunarráðs er ekki hluti af stjórnsýslu viðkomandi sveitarfélags, eða þeirra opinberu aðila annarra sem taka þátt í starfi notendaráða (t.d. heilsugæsla). Fötlunarráð skilar inn fundargerðum til fjölskylduráðs sem hefur þær til viðmiðunar. Til þess að mál fái formlega meðferð innan stjórnsýslunnar þarf notendaráð að koma á framfæri formlegri tillögu.

Í fötlunarráði eru Jóna Rún Skarphéðinsdóttir, Hermína Hreiðarsdóttir ritari, Einar Víðir Einarsson varaformaður, Arna Þórarinsdóttir formaður, Karolína Kristín Gunnlaugsdóttir og Sigríður Hauksdóttir verkefnastjóri virkni hjá Norðurþingi.

Við hvetjur íbúa í Norðurþingi til að vera í góðum samskiptum við fötlunarráð og koma með ábendingar um það sem betur má fara í málefnum fatlaðra innan sveitarfélagsins.