Vinafundir - rjúfum einangrun fólks með greindan heilabilunarsjúkdóm

Þann 1. mars 2021 var fyrsti Vinafundur haldinn í Hlyn. Til fundarins var boðað í þeim tilgangi að rjúfa einangrun fólks með greindan heilabilunarsjúkdóm auk maka eða aðstandanda, með því að skapa stað og stund fyrir Vinafundinn.
Á fyrsta Vinafundi ræddi hópurinn saman og upp komu vangaveltur hvort nóg væri að hittast mánaðarlega en niðurstaðan varð sú að hittast annan hvern mánudag sem við síðan höfum gert.
Vinafundurinn er haldin annann hvern mánudag frá 11-13 í Hlyn félagsaðstöðu eldri borgara í Norðurþingi og nágrenni. Þar mætum við og höfum gaman saman, njótum hádegishressingar, syngjum við harmonikku undirleik, spjöllum og segjum sögur hver á sínum forsendum.
Mætingin hefur verið mjög góð frá fyrsta fundi. Hópurinn samanstendur af 14 til 16 einstaklingum auk okkar þriggja sem komum að verkefninu.
Upplifun okkar er sú að fólk nýtur þess að koma inn í hóp þar sem allir eru á sínum forsendum og njóta samveru og upplifa sig örugga.
Eina heimsókn hefur Vinafundurinn fengið sem var nú í september. Það var Hulda Sveinsdóttir heilabilunarráðgjafi.  Hún óskaði eftir að fá að upplifa einn Vinafund.
Alla sem greinst hafa með heilabilunarsjúkdóm á okkar svæði bjóðum við velkomna til Vinafundar. Hafið samband við Fanneyju Hreinsdóttur hjá félagsþjónustu Norðurþings.
Norðurþing er eina sveitarfélagið á landinu sem býður uppá þessa þjónustu og er upplifunin af verkefninu mjög góð.
 Fyrir hönd félagsjónustu Norðurþings:

Ásta Sigurðardóttir
Fanney Hreinsdóttir
Sigríður Hörn Lárusdóttir