Starfsmannastefna

Starfsmannastefna Norðurþings

Starfsmannastefna Norðurþings nær til allra þeirra sem ráðnir eru til starfa hjá sveitarfélaginu, stofnunum þess og fyrirtækjum. Um almenn réttindi og skyldur starfsmanna fer eftir gildandi lögum og samþykktum svo og kjarasamningum á hverjum tíma.

Tilgangur og markmið með starfsmannastefnu er að gæta hagsmuna starfsmanna og vinnuveitanda. Einnig er markmið með stefnunni að tekið sé af fagmennsku á starfsmannamálum hjá sveitarfélaginu og þar þróist fagþekking, verkkunnátta og starfsánægja í samræmi við markmið sveitarstjórnar og þarfir sveitarfélagsins.

Starfsmannastefnan nær til allra þeirra sem ráðnir eru til lengri eða skemmri tíma til starfa hjá sveitarfélaginu, stofnunum þess og fyrirtækjum í eigu þess.

Norðurþing leggur áherslu á að íbúarnir upplifi sveitarfélagið sem traustan og ábyrgðarfullan þjónustuaðila við mannlíf og atvinnulíf á svæðnu. Lögð er áhersla á að þjónusta sveitarfélagsins eftir því sem lög og reglur heimila verði löguð að þörfum íbúa og fyrirtækja á grundvelli jafnræðissjónarmiða.

Það er sameiginlegt markmið starfsmanna og stjórnenda sveitarfélagsins að veita metnaðarfulla og framsækna þjónustu.  Slíkt samstarf byggist á trausti og virðingu þar sem hver og einn ber ábyrgð á eigin viðhorfum og hugarfari.

Mönnun starfa

Í Norðurþingi skal unnið að því að í öllum stöðum sveitarfélagsins sé hæft og áhugasamt starfsfólk sem býr yfir góðri þekkingu á starfssviði sínu, reynslu og metnaði. Góður aðbúnaður og almenn starfsánægja eiga að gera Norðurþing að eftirsóknarverðum vinnustað fyrir gott starfsfólk .

Þegar ráða á fólk í fastar stöður skulu þær auglýstar á opinberum vettvangi með áberandi hætti í miðlum með mikla dreifingu. Afleysingastörf og önnur störf, sem ráðið er í til skamms tíma, skulu að lágmarki auglýst á heimasíðu Norðurþings. Þegar um skammtímaráðningar er að ræða er þó heimilt að ráða starfsmann, sem áður hefur sinnt sama starfi, án þess að starf sé auglýst .

Ráðningarferli sveitarfélagsins skal vera vel skilgreint og því skal fylgt í hvívetna við ráðningar. Starfslýsing skal ávallt liggja fyrir þegar starf er auglýst, sem og upplýsingar um starfskjör svo hægt sé að svara spurningum áhugasamra um þessa þætti umsvifalaust.

Ráðningar skulu byggðar á faglegu mati á hæfni og reynslu umsækjenda. Þeir sem að ráðningum standa skulu gæta hlutleysis í hvívetna og forðast að láta skyldleika, vensl, vinskap eða stjórnmálaskoðanir hafa áhrif á ákvörðun sína.

Gerðir skulu ráðningarsamningar við alla starfsmenn þar sem fram koma starfshlutfall, starfssvið, vinnutími og grunnlaunakjör. Sé samið um yfirvinnu, hlunnindi og þess háttar skal gerður viðauki við ráðningarsamning.

Stefna Norðurþings, starfsemi sveitarfélagsins og starfsreglur skulu kynntar starfsmönnum í upphafi starfstíma. Þekkingu starfsmanna á þessum þáttum skal haldið við og hún aukin með markvissum hætti á meðan viðkomandi starfar hjá Norðurþingi.

Aðstæður og aðbúnaður starfsmanna skulu vera til fyrirmyndar, þannig að orðspor sveitarfélagsins sem vinnustaðar geti verið því til framdráttar í samkeppni um hæft starfsfólk.

Norðurþing skal kappkosta að bjóða starfsfólki leiðir til að hagræða vinnuaðstæðum sé það ekki fullfært um að mæta þeim skilyrðum sem almennt eru sett á vinnustöðum. Þetta má t.d. gera með sértækum aðgerðum til að bæta stöðu hópa sem standa höllum fæti á vinnumarkaði eða í viðkomandi starfsgrein.

Fagmennska

Fagmennska á að vera í fyrirrúmi á öllum sviðum starfsemi sveitarfélagsins. Starfsmenn skulu ráðnir á faglegum forsendum og stöðugt aukið við faglega þekkingu þeirra með markvissri fræðslu. Starfsmenn og kjörnir fulltrúar skulu gæta þess að afgreiðsla mála og þjónusta, sem veitt er, sé í samræmi við lög, reglugerðir og samþykktir sveitarfélagsins og samræmi sé milli afgreiðslu  sambærilegra erinda. Starfsmenn skulu gæta trúnaðar við skjólstæðinga sveitarfélagsins og viðskiptaaðila í hvívetna.

Starfsmenn og kjörnir fulltrúar skulu sinna störfum sínum af heiðarleika, trúmennsku og vandvirkni og gæta þagmælsku um það sem þeir verða áskynja í starfi sínu fyrir Norðurþing.

Samskipti starfsmanna innan hvers vinnustaðar og á milli vinnustaða grundvallast á virðingu og jákvæðu viðmóti.

Allir starfsmenn Norðurþings skulu leggja sitt af mörkum til að skapa þær aðstæður á vinnustaðnum að starfsfólk sé ánægt og því líði vel í vinnunni.

Starfsmenn skulu njóta viðurkenningar fyrir vel unnin störf. Ófagleg og ámælisverð vinnubrögð skulu ekki liðin.

Vinnuferli í starfsemi Norðurþings skulu greind og skráð. Vinnuferli skulu yfirfarin með reglulegu millibili með tilliti til aukinnar skilvirkni og hnökrar, sem uppgötvast, skulu sniðnir af jafnóðum. Starfsmenn, sem að vinnuferli koma, skulu vera virkir þátttakendur í mótun þess.

Stjórnendur skulu stuðla að fagmennsku og árangri starfsmanna með hvatningu, aðstoð, fræðslu og leiðbeiningum. Sé fagmennsku starfsmanns ábótavant og ofangreindar aðferðir duga ekki til, skal stjórnandi beita þeim ráðum sem hann hefur samkvæmt kjarasamningum til að glíma við vandann.

Framkoma sem skapar öðrum vanlíðan eða óöryggi er ekki umborin og tekið skal þegar í stað á vandamálum sem upp kom í samskiptum á vinnustöðum.

Vinnuumhverfi og öryggi

Það er viðurkennt að gott starfsmumhverfi eykur vellíðan og afköst starfsmanna og því er leitast við að skapa slíkar aðstæður á hverjum vinnustað.

Til að tryggja starfsánægju starfsmanna ætlar Norðurþing að stuðla að því að hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum sínum séu til fyrirmyndar.

Það er sameiginlegt markmið starfsmanna og stjórnenda að öryggisatriðum sé sinnt og hver og einn axli þá ábyrgð í sínu daglega starfi.

Starfsmenn skulu hvattir til að vera meðvitaðir um starfsumhverfi sitt og aðstöðu, sem og aðstöðu samstarfsmanna sinna og vekja athygli yfirmanna sinna á möguleikum til úrbóta.

Starfsmenn eiga að hafa áhrif á umhverfi sitt og aðgang að tækjum og búnaði sem þeim er nauðsynlegur til að sinna störfum sínum á öruggan hátt.

Fjölskyldan í fyrirrúmi

Til að tryggja gott samspil fjölskyldulífs og starfsánægju skal leitast eftir að koma til móts við starfsmenn varðandi sveigjanleika í starfi svo þeir geti sem best sinnt ábyrgð sinni hvort heldur sem er gagnvart vinnu eða fjölskyldunni.  Slíkur sveigjanleiki byggir á góðu samstarfi og trausti milli starfsmanns og stjórnanda.

Norðurþing mun reyna að gera starfsfólki kleift að minnka starfshlutfall tímabundið vegna fjölskylduábyrgðar, t.d. vegna ummönnunar barna eða veikinda í fjölskyldunni.

Bæði kyn skulu hvött til þess að nýta sér sinn rétt til fæðingarorlofs og skipta með sér heimaveru vegna veikinda barna.

Starfsfólki skulu skapaðir möguleikar á samfelldum starfsferli og komið skal til móts við þarfir hvers og eins t.a.m. vegna aldurs, breytinga á persónulegum högum og starfsgetu.

Starfsmenn skulu leitast við að láta ekki einkalífið trufla vinnuna óhóflega. Starfsmenn skulu hafa svigrúm til að sinna nauðsynlegum persónulegum einkaerindum enda vinni þeir upp þann tíma sem þeir missa úr vinnu eða taki ekki laun á meðan einkaerindum er sinnt. Ef persónuleg erindi eru tímafrek skal starfsmaður taka frí frá vinnu í samráði við yfirmann til að sinna þeim.  Starfsmaður skal taka tillit til aðstæðna á vinnustað við skipulagningu slíkra fjarvista.

Jafnrétti

Starfsmenn í sambærilegum störfum skulu njóta sömu réttinda, sömu hlunninda, sama svigrúms varðandi vinnutíma og hlíta sömu reglum.

Öllum starfsmönnum, óháð kyni, skulu standa til boða sömu tækifæri til símenntunar og starfsþróunar.

Þegar ráðið er í störf eða verkefnum úthlutað, skal þess gætt að einstaklingum sé ekki mismunað á grundvelli kynferðis, kynhneigðar, trúarbragða, skoðana, þjóðernis, uppruna, kynþáttar, litarháttar, þjóðfélagsstöðu, ætternis eða aðstæðum að nokkru leyti.

Í auglýsingum skulu störf vera ókyngreind nema um sé að ræða störf sem aðeins annað kynjanna getur sinnt, svo sem baðvarsla.

Réttindi og skyldur starfsmanna

Almenn réttindi og skyldur starfsmanna fara eftir gildandi lögum og samþykktum svo og kjarasamningum á hverjum tíma. Launakjör skulu ákvörðuð á grundvelli kjarasamninga og reglna sem sveitarfélagið setur sér.

Starfsmenn fylgi þeim reglum sem í gildi eru á hverjum vinnustað um vinnutíma, árangur og hátterni svo og lögum og sérstökum reglum deilda og stofnana bæjarins eins og þær eru hverju sinni. Stjórnendur skulu gefa starfsmönnum tækifæri á að sinna skyldum sínum á þessu sviði og stuðla að slíkri þekkingaröflun.

Starfsmenn vinni eftir stefnu vinnustaðar síns af heilindum og trúmennsku og hlíti lögmætum fyrirmælum yfirmanna sinna.

Starfsmenn sinni starfi sínu af samviskusemi og sýni kurteisi, lipurð og réttsýni og starfi fyrst og fremst í þágu íbúa sveitarfélagsins sem leggur þeim þá skyldu á herðar að setja almannahagsmuni ofar sérhagsmunum.

Starfsmenn gæti þess að framkoma og athafnir á vinnustað og utan hans samrýmist starfinu sem þeir gegna.

Starfsmenn þiggi ekki greiðslur eða annan viðurgjörning frá viðskiptamönnum sem túlka má sem persónulega þóknun fyrir greiða.

Starfsmenn stofni ekki til eigin atvinnurekstrar eða umboðsstarfsemi, gegni starfi í þjónustu annarra eða gangi í stjórn atvinnufyrirtækis án samráðs við yfirmann og stundi ekki starfsemi sem telja má að sé í samkeppni við starfsemi vinnustaðarins

Starfsmenn gæti þagmælsku og trúnaðar varðandi málefni samstarfsmanna, bæjarbúa og viðskiptavina, sem þeir verða áskynja í starfi og gildir þagnarskylda þó látið sé af starfi.

Vellíðan starfsmanna

Andleg og líkamleg vellíðan starfsmanna er mikilvæg forsenda góðrar vinnu og eru starfsmenn og stjórnendur hvattir til að huga vel að andlegri og líkamlegri velferð sinni og samstarfsfólks síns.

Vinnustaðir sveitarfélagsins skulu vera reyklausir á grundvelli ákvæða laga og reglugerða þar að lútandi.

Enginn starfsmaður má vera undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna á vinnutíma.

Leynd og misskilin tryggð gagnvart vinnufélaga sem á við vímuefnavandamál að etja getur leitt til ómælds tjóns jafnt fyrir viðkomandi einstakling sem vinnustaðinn í heild sinni.

Sveitarfélagið leitast við að koma starfsmönnum sínum til aðstoðar vilji þeir vinna úr vandamálum sem tengjast misnotkun vímuefna. Viðvarandi vandi á þessu sviði sem sannarlega kemur niður á vinnu starfsmanns fyrir sveitarfélagið leiðir til þess að viðkomandi verði leystur frá störfum.

Upplýsingar

Norðurþing leggur áherslu á að hagnýta nýjustu tækni við miðlun upplýsinga og veita íbúum sínum og öðrum er mál varða upplýsingar á skjótan og aðgengilegan máta.

Lögð er áhersla á að boðleiðir séu skýrar og upplýsingaflæði sé gott til starfsmanna sveitarfélagsins öll þau málefni sem varða þá og þeirra störf.

Starfsmenn sveitarfélagsins skulu ávallt hafa í huga trúnað og nærgætni við umfjöllun viðkvæmra mála.

Starfslok

Stefnt skal að því að tíðni starfsloka hjá Norðurþingi sé lægri eða eins og lægst gerist hjá sambærilegum stofnunum. Starfslokaferlið á að einkennast af fagmennsku, sanngirni og reisn.

Við starfslok skal farið í einu og öllu eftir ákvæðum kjarasamninga og gildandi laga.

Þegar starfsmanni er sagt upp skal ákvæðum stjórnsýslulaga um stjórnsýsluákvarðanir varðandi rannsóknarskyldu stjórnvalds, andmælarétt starfsmanns, birtingu ákvörðunar og svo framvegis,fylgt í hvívetna.

Stjórnendur skulu fá tilsögn í reglum um uppsagnir og réttindi starfsmanna.

Stjórnendur skulu hafa sveitarstjóra með í ráðum um áminningar og uppsagnir til að tryggja að rétt sé að málum staðið.

Ef samið er við starfsmann um styttingu uppsagnartíma skal tekið mið af aðstæðum á vinnustaðnum hverju sinni og tryggt að brotthvarf starfsmannsins valdi ekki öðrum starfsmönnum auknu álagi eða óþörfum óþægindum í starfi.

Fyrirhuguð starfslok skulu tilkynnt samstarfsmönnum svo fljótt sem auðið er eftir að uppsögn liggur fyrir.

Starfsmenn skulu láta af störfum um næstu mánaðamót eftir að þeir ná 70 ára aldri án sérstakrar uppsagnar eins og kveðið er á um í kjarasamningum. Stjórnandi skal ræða við viðkomandi starfsmann að minnsta kosti 3 mánuðum fyrir áætluð starfslok og ákveða í samráði við hann hvernig starfslokum skuli háttað.

Starfsmönnum sem hætta störfum hjá sveitarfélaginu er boðið upp á starfslokasamtal við sinn næsta yfirmanna eða starfsmannastjóra og ávallt leitast við að starfslok verði með jákvæðum hætti.

Samþykkt í sveitarstjórn 21. júní 2016