Áhættumat fyrir stofnanir og fyrirtæki

Áhættumat fyrir stofnanir og fyrirtæki sveitarfélagsins

Sveitarfélagið Norðurþing hefur markað sér þá stefnu að framkvæmt verði áhættumat fyrir allar deildir og stofnanir innan sveitarfélagsins. Leitast verði við að matið sé þannig úr garði gert að það varpi skýru ljósi á alla þá áhættuþætti sem kunna að vera í starfsemi Norðurþings. Reynt er að greina og dæma á raunhæfan, sanngjarnan og skýran hátt alla þá þætti sem talið er að geti haft hugsanlega áhættu í för með sér í starfseminni, fyrir starfsfólk og viðskiptavini Norðurþings.

Matið var framkvæmt með þeim hætti að stuðst var við vinnuumhverfisvísa fyrir viðkomandi starfsemi, ásamt sértækum umhverfisvísum þar sem þeir áttu við í starfsemi sveitarfélagsins.

Aðkoma starfsfólks í öllum deildum Norðurþings að framkvæmd vinnunnar við matið var með þeim hætti að öryggistrúnaðarmenn, öryggisverðir, öryggisnefndir viðkomandi deilda lögðu mat á þá áhættuþætti sem fram koma í matinu. Ásamt því var öðru starfsfólki gefin kostur á því að koma með athugasemdir og ábendingar við greininguna.

Samhliða áhættugreiningunni var framkvæmd ánægjukönnun á meðal starfsmanna. Þar gátu starfsmenn skilað inn sínum könnunum nafnlaust án aðkomu yfirmanna.

Rýmingar og viðbragðsáætlanir eru til staðar á þeim stöðum þar sem það á við til dæmis í skólum, leikskólum, íþróttahúsum og á öðrum fjölmennari vinnustöðum sveitarfélagsins.

Sveitarfélagið Norðurþing hefur þess utan sameiginlega viðbragðs og neyðaráætlun vegna náttúruhamfara. Þeirri áætlun skal dreift á allar starfsstöðvar, gerð aðgengileg og kynnt starfsfólki.

Norðurþing hefur mjög skýra og ítarlega stefnu í eineltis og kynferðis áreitismálum. Slík mál eru ekki undir neinum kringumstæðum liðin innan stofnana þess og hart á þeim tekið komi þau upp. Stefnunni fylgir viðbragðsáætlun með skýrum verkferlum komi slík mál til úrlausnar.

Norðurþing gerir þær kröfur að allir starfsmenn íþróttamannvirkja séu sendir á skyndihjálparnámskeið einu sinni á ári til að viðhalda þekkingu sinni á því sviði og fái haldgóða fræðslu um skyndihjálp og notkun á þeim skyndihjálparbúnaði sem skylt er að hafa á slíkum stöðum. Ekki skal ráða nýtt starfsfólk í þessar deildir án þess að því gefist kostur að sækja slíka fræðslu áður en störf hefjast.

Ein deild sem sveitarfélagið rekur yfir sumarmánuðina í öllu sveitarfélaginu er vinnuskóli. Ekki hefur verið gert áhættumat fyrir vinnuskólann þar sem engin starfsemi er yfir vetrar mánuðina. Öllu jafna hefur verið ráðið tiltölulega ungt fólk til að gegna stöðu flokkstjóra í þessu starfi á aldrinum 18 til 20 ára. Sveitarfélagið setur þær kröfur, að þeim einstaklingum sem ráðnir eru í þessar stöður verði gert að sækja skyndihjálparnámskeið og grunnnámskeið hjá vinnueftirlitinu. Þar verði farið yfir helstu öryggisatriði sem snerta vinnuna, hvaða öryggisbúnað og persónuhlífar skal nota og annað þess háttar.

Settar verði skýrar vinnureglur um notkun öryggisbúnaðar/persónuhlífa við þau störf sem við á eins og til dæmis við notkun sláttuvéla, sláttuorfa og annarra hættulegra tækja.

Sveitarfélagið gerir þær kröfur til deildarstjóra / sviðsstjóra viðkomandi deilda að þeir virði og uppfylli þær kröfur, að starfsemi á þeirra vegum sé framkvæmd í samræmi við niðurstöður áhættumatsins og að þeir bregðist við með viðeigandi hætti þeim ábendingum og athugasemdum sem fram komu í matinu. Einnig þarf þetta mat að vera lifandi og unnið með það á hverju ári.

 

Markmiðunum er áætlað að innihalda eftirfarandi atriði:

  • Áhættumat fyrir allar stofnanir og mannvirki í eigu Norðurþings.
  • Greining og mat á öllum áhættuþáttum í starfsemi á vegum sveitarfélagsins.
  • Allt starfsfólk stofnana taki þátt í gerð matsins.
  • Virk úrbóta og viðbragðsáætlun sé til á öllum stöðum og á öllum deildum þar sem einhver starfsemi fer fram ( aðgerðaáætlun ).
  • Ábyrgðaraðili fyrir skráningu á úrbótaáætlun og eftirfylgni,  skal vera deildarstjóri viðkomandi deildar.
  • Samþykkt og yfirlýst stefna sveitarfélagsins varðandi einelti og kynferðislega áreitni á vinnustöðum sveitarfélagsins sé til staðar og að skilvirk og góð viðbragðs og úrbótaáætlun fylgi henni.
  • Ánægjukönnun starfsfólks hverrar deildar fyrir sig sé framkvæmd að minnsta kosti einu sinni á ári  ( niðurstöðum skilað nafnlaust ).
  • Samantektir úr öllum áhættumötum teknar saman í eitt hefti, sem allsherjar mat og greining á öllum hugsanlegum áhættuþáttum í starfsemi hverrar einingar fyrir sig í sveitarfélaginu öllu.
  • Ásamt því séu þar yfirlýsingar sveitarfélagsins, í eineltis og kynferðis áreitis málum.
  • Sveitarfélagið skipar svokallaða öryggisnefnd sem í væru til dæmis sveitarstjóri, tveir öryggistrúnaðarmenn, og tveir öryggisverðir. Nefnd þessi hittist tvisvar sinnum á ári og fer yfir athugasemdir á úrbótalistum og hvernig til tókst með markmið og úrbætur síðastliðna sex mánuði og kemur með tillögur að breytingum hafi þær athugasemdir sem þar eru skráðar ekki komist til framkvæmda.

 

Sveitarfélagið Norðurþing hefur unnið áhættumat í nánast öllum sínum stofnunum. Hægt er að sjá niðurstöður fyrir hverja stofnun hjá Sveini Hreinssyni, umsjónarmanni fasteigna sveitarfélagsins. Kosnir/skipaðir hafa verið öryggisverðir og öryggistrúnaðarmenn hjá öllum stofnunum. Einnig hefur verið stofnuð öryggisnefnd fyrir sveitarfélagið. Í henni sitja Helga Eyrún Sveinsdóttir, Grímur Kárason, Óskar Óskarsson og Sveinn Hreinsson. Ætlunin er að öryggisnefnd fundi tvisvar á ári. Fyrir fundi hennar verður óskað eftir ábendingum um það sem betur má fara innan stofnanna. Öryggisverðir og öryggistrúnaðarmenn taka við ábendingum og koma þeim á framfæri.