Jafnréttis- og framkvæmdaáætlun Norðurþings

Jafnréttis- og framkvæmdaáætlun Norðurþings  2014-2018

Jafnréttis- og framkvæmdaáætlun Norðurþings byggir á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008.  Með vísan til 12. gr. jafnréttislaganna lýsir sveitarstjórn vilja sínum til að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum sveitarfélagsins.  Það skal gert með því að samþætta jafnréttissjónarmið inn í alla þætti stefnumótunar, ákvarðana og aðgerða á vegum þess.

Jafnréttis-og framkvæmdaáætlun Norðurþings nær til alls stjórnkerfis sveitarfélagsins og starfsmanna þess og ber sérhverjum starfsmanni að  framfylgja henni.  Auk þess skulu forsvarsmenn stofnana og deilda sveitarfélagsins, þar sem það á við, gera starfsáætlun í jafnréttismálum með markmið jafnréttisáætlunarinnar að leiðarljósi.  Þar skal koma fram hvernig viðkomandi stofnun eða deild hyggst vinna á grundvelli jafnréttis-og framkvæmdaáætlunarinnar.

Félagsmálanefnd Norðurþings fer með, í umboði sveitarstjórnar, þau málefni er varða jafnrétti karla og kvenna og ber ábyrgð á að farið verði eftir áætluninni í hvívetna.

Markmið

Markmið jafnréttis- og framkvæmdaáætlunar er að stuðla að jafnri stöðu kvenna og karla í sveitarfélaginu, hvað varðar menntun, atvinnulíf og félagslíf.  Lögð er áhersla á að  allir starfsmenn sveitarfélagsins njóti virðingar og fái notið sín í starfi á jafnréttisgrundvelli án tillits til kynferðis, fötlunar, þjóðernis, kynþáttar, litarháttar, stjórnmálaskoðana, trúar kynhneigðar eða annarra slíkra persónubundinna atriða.  Sama á við við ráðningu í störf sveitarfélagsins og við töku ákvarðana er varða laun og kjör, starfsþróun og símenntun.

Helstu stefnuviðmið varðandi jafnrétti meðal starfsmanna sveitarfélagsins eru:

Nefndir, ráð og stjórnir

Við skipan í nefndir, ráð og stjórnir á vegum Norðurþings skulu hlutföll kynja vera sem jöfnust til að tryggt sé að áhrif karla og kvenna við ákvörðunartöku og stefnumótun í samfélaginu séu sem jöfnust, að lágmarki 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða.  Þannig skal tryggt að áhrif karla og kvenna við ákvörðunartöku og stefnumótun í samfélaginu séu sem jöfnust.

 Aðgerðaráætlun:

 • Gera skal könnun á hlutfalli kynja í stjórnum, ráðum og nefndum í upphafi kjörtímabils og aftur að tveimur árum liðnum og ábendingum um úrbætur skal komið til Sveitarstjórnar.
 • Við skipan í nefndir, ráð og stjórnir með þremur fulltrúum skal meirihluti skipa fulltrúa af báðum kynjum.  Við skipan í nefndir, ráð og stjórnir með fimm fulltrúum skulu bæði meirihluti og minnihluti tilnefna fulltrúa af báðum kynjum.  Við skipan í nefndir, ráð og stjórnir með sjö fulltrúum skal meirihluti tilnefna tvo fulltrúa af hvoru kyni og minnihluti tilnefna fulltrúa af báðum kynjum.

Framkvæmd:  Félagsmálastjóri Norðurþings.

Ábyrgð:  Sveitarstjórn.

Tímarammi:

 • Fyrsta könnun í júlí 2016.  Síðan í upphafi hvers kjörtímabils og aftur að tveimur árum liðnum.
 • Fyrirkomulagið um skipan í nefndir, ráð og stjórnir tekur þegar gildi og skal viðhaft þegar breytingar eiga sér stað í nefndum, ráðum og stjórnum og þegar skipað er í nýjar nefndir, ráð og stjórnir.

Auglýsingar og ráðningar starfsmanna

Fastar stöður hjá stofnunum og deildum sveitarfélagsins skulu ávallt auglýstar lausar til umsóknar og vera aðgengilegar öllum.  Í auglýsingu skal koma fram hvatning þess efnis að konur jafnt sem karlar sæki um störfin, nema þegar um er að ræða sérstakt átak til að leiðrétta kynjahalla eða ef viðkomandi starf krefst þess að ráðið sé annað hvort kynið td. ef um er að ræða baðvörslu.  Jafnréttissjónarmið skulu metin til jafns við önnur mikilvæg sjónarmið sem ráða við stöðuveitingar.

Aðgerðaráætlun:

 • Samantekt á kynjahlutföllum í öllum starfshópum ásamt yfirliti yfir auglýst störf, umsækjendur og ráðningar.
 • Við ráðningu skal unnið að því að jafna hlut kynjanna.
 • Kannaður skal möguleiki á sértækum aðgerðum til að rétta kynjahalla í störfum.

Framkvæmd:  Félagsmálastjóri Norðurþings/Sveitarstjóri Norðurþings

Ábyrgð:  Forstöðumenn stofnana og deilda.

Tímarammi:  Fyrstu úttekt skal lokið 1. nóvember 2016.

Launakjör starfsmanna

Við ákvörðun launa og annarra starfskjara, úthlutun verkefna, tilfærslur í störfum og uppsagnir skal gæta þess að mismuna ekki eftir kynferði sbr. 24. gr. laga nr. 10/2008.  Konum og körlum er starfa hjá Norðurþingi skulu greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafn verðmæt störf.  Gæta skal þess að konur og karlar hafi að öllu leyti sambærilegar kjara- og starfsaðstæður.  Tryggja verður að bæði kynin njóti sömu möguleika til endurmenntunar, símenntunar og starfsþjálfunar.  Tryggt verður að jafnréttismál verði fléttuð inn í starfsmannastefnu Norðurþings.

Aðgerðaráætlun:

 • Greining skal gerð á launum og starfskjörum starfsmanna og leiðrétta ef óútskýranlegur munur kemur í ljós.
 • Annað hvert ár skal gerð greining á endurmenntun, símenntun og starfsþjálfun starfsmanna.
 • Komið skal að vinnu starfsmannastefnu Norðurþings.

Framkvæmd:  Skrifstofustjóri og launafulltrúi.

Ábyrgð:  Sveitarstjóri.

Tímarammi:  Greiningum skal vera lokið í apríl 2017.

Samræming starfsskyldu og fjölskyldulífs starfsmanna.

Sveitarfélagið, stofnanir og deildir þess gera starfsmönnum kleift að samræma starfsskyldur sínar og fjölskyldulíf eins og kostur er.

Aðgerðaráætlun:

 • Boðið skal uppá sveigjanlegan vinnutíma eftir því sem við verður komið.
 • Bæði konur og karlar skulu hvött til að nýta sér þann rétt sem þau hafa til töku fæðingarorlofs.

Framkvæmd:   Forstöðumenn stofnana, deilda og sveitarstjóri.

Ábyrgð:  Félagsmálanefnd.

Tímarammi:  Kannanir gerðar í janúar ár hvert sú fyrsta í janúar 2017.  Félagsmálanefnd ákveður framhald í kjölfar niðurstöðu.

Fræðsla og ráðgjöf:

Fræðsla um jafnréttismál og leiðir til að vinna að jafnri stöðu kynjanna skal vera virkur þáttur í starfi sveitarfélagsins.  Fylgjast skal með endurmenntun í sveitarfélaginu og skulu stjórnendur stofnana og deilda í sveitarfélaginu beita sér fyrir því að slíkir möguleikar séu fyrir hendi sem geti aukið tækifæri kvenna og karla til atvinnu og menntunar.

Aðgerðaráætlun:

 • Árleg greining á sókn kvenna og karla í endurmenntunarnámskeið og starfsþjálfun.
 • Starfsmönnum sveitarfélagsins stendur til boða aðstoð félagsmálanefndar Norðurþings í ágreiningsmálum er varða jafnréttismál.

Framkvæmd:  Skrifstofustjóri og félagsmálastjóri.

Ábyrgð:  Félagsmálanefnd.

Tímarammi:  Kannanir gerðar í janúar ár hvert sú fyrsta í apríl 2017.  Félagsmálanefnd ákveður framhald í kjölfar niðurstöðu.

Einelti, kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni:

Einelti, kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni verður ekki liðin á vinnustöðum Norðurþings.  Þeir starfsmenn sem fyrir því verða eða vita til þess að aðrir starfsmenn verði eða hafi orðið fyrir slíku skulu leita til næsta yfirmanns eða sviðstjóra næsta sviðs, skrifstofustjóra eða sveitarstjóra.  Sérstaks trúnaðar skal gætt í málum.  Mál skal ekki fram haldið án samþykkis meints þolanda.  Hverskonar ofbeldi varðar áminningu eða brottrekstur úr starfi.

Aðgerðaráætlun:

 • Starfsmenn sveitarfélagsins skulu fá fræðslu um hvað felst í kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni og kynferðilegri áreitni og hvert leita skuli komi upp slík mál. 
 • Leiðbeiningar Vinnueftirlitsins um viðbrögð við Einelti og kynferðislegri áreitni á vinnustöðum – Forvarnir og viðbrögð verði kynntar fyrir starfsmönnum sveitarfélagsins.
 • Stefna og viðbragðsáætlun Norðurþings í eineltismálum og kynferðisáreitnismálum verði kynnt starfsmönnum sveitarfélagsins.
 • Í starfsmannahandbókum stofnana og deilda Norðurþings skuli koma fram stefnu- og viðbragðsáætlanir í málum sem þessum.

Framkvæmd:  Forstöðumenn stofnana, deilda og sveitarstjóri.

Ábyrgð:  Félagsmálanefnd.

Tímarammi:  Á árinu 2017 fari fram fræðsla til starfsmanna sveitarfélagsins um kynbundið ofbeldi, kyndbundna áreitni og kynferðislega áreitni.

Íþrótta- og æskulýðsmál:

Félagsmálanefnd beinir því sérstaklega til fræðsluyfirvalda og forstöðumanna annarra stofnana s.s. félagsmiðstöðvar og íþróttamiðstöðvar að vinna að því að jafna stöðu kynjanna og veita börnum og unglingum hvatningu til að nýta sér hæfileika sína til fulls, bera virðingu hvert fyrir öðru og efla jákvæð samskipti kynjanna, þ.e. hafa jafnréttissjónarmið að leiðarljósi.   Stúlkum og drengjum skulu veitt sömu tækifæri til íþrótta- og tómstundaiðkana og njóta sömu fjárveitinga á vegum sveitarfélagsins til þessara iðkana.   Einnig skulu stúlkur og drengir hafa sömu möguleika til sumarstarfa á vegum sveitarfélagsins.

Aðgerðaráætlun:

 • Gerð skal úttekt á fjárveitingum til íþrótta- og æskulýðsmála með tilliti til kynskekkju.
 • Gætt skal að kynjajöfnun þegar ráðið er í sumarstörf .

Framkvæmd:  Forstöðumenn og íþrótta- og æskulýðsfulltrúi.

Ábyrgð: Félagsmálanefnd.

Tímarammi:

 • Úttekt skal gerð þrjú ár aftur í tímann og vera lokið í ágúst 2017.
 • Ár hvert skal gætt að kynjajöfnun þegar ráðið er í sumarstörf.

Kynning, endurskoðun og eftirfylgni jafnréttisáætlunar:

Jafnréttisáætlun þessi skal kynnt öllum stofnunum, deildum, nefndum, ráðum og stjórnum á vegum sveitarfélagsins.  Þá skal jafnréttis- og framkvæmdaáætlun vera aðgengileg öllum íbúum sveitarfélagssins s.s. á heimasíðu sveitarfélagsins.  Félagsmálanefnd skal fylgjast með og hafa frumkvæði að aðgerðum til að tryggja jafna stöðu kynjanna í Norðurþingi, einnig skal nefndin hafa umsjón með gerð jafnréttisáætlunar til fjögurra ára í senn.

Áætlunin skal endurskoðuð á hverju ári eftir samþykkt hennar.

 

Samþykkt á fundi félagsmálanefndar Norðurþings þann 9. júní 2016.
Staðfest í sveitarstjórn Norðurþings þann 21. júní 2016.

 

Jafnréttisáætlun - pdf skjal