Fara í efni

Fuglamerki, sanderlur og tjaldar

Eins og hefur komið fram þá eru þau verkefni sem ÖÍS hefur styrkt frá upphafi öll afar fjölbreytt, hér að neðan má lesa áhugaverða greinargerð eftir Guðmundi Erni Benediktssyn um verkefnið „Fuglamerki, sanderlur og tjaldar“ unnið árið 2018.

 

Verkefnið var þrískipt og fólst í því að leita uppi og lesa á merkta fugla, telja sanderlur á völdum stöðum að vori og að fylgjast með merktum tjöldum á Sléttu ásamt því að mæla egg og álegustig hjá nokkrum tugum tjaldspara. Merktir fuglar og aflestur af merkjunum. Fjöldi fugla ber einfaldan númershring með sjö stafa númeri og upplýsingum um vísindastofnunina sem er ábyrg fyrir merkinu. Í fæstum tilfellum er mögulegt að lesa á þessi merki án þess að ná fuglinum.

Við hreiður eða á óðali fuglanna er þó hægt að lesa á númershringi tjalda og stelka ef aðstæður til þess eru hagstæðar. Það er gert með fjarsjá og ljósmyndun. Flest ár les ég á nokkur slík merki. Aðrir merktir fuglar bera svokölluð litmerki auk númershringsins. Þá eru líkurnar á því að hægt sé að lesa á merkin miklu meiri en ef fuglinn hefur aðeins númershringinn. Á svæðinu sem ég fylgist með eru það einkum vaðfuglar sem eru merktir með litmerkjum og nær allir erlendis. Fyrstu ár aldarinnar voru líka margar gæsir og álftir með litmerki en merktum fuglum af þeim tegundum hefur fækkað mikið síðustu árin.

Ýmsar útfærslur eru af litmerkjunum en þau eru oftast sett á fætur fuglanna og eru í ýmsum litum og eru gerð úr plasti. Sumir rauðbrystingar hafa lítinn fána með áletrun auk eins eða tveggja lithringja en aðrir eru með fjóra lithringi og fána án áletrunar. Litmerktar sanderlur eru allar með fána og þrjá til fjóra lithringi að auki. Langflestir þessara fugla eru merktir erlendis. Stærstu merkingarverkefnin eru á vegum Hollendinga og Breta en fuglarnir eru merktir í mörgum löndum á vetrarstöðvum eða á farleið. Dálítið af sanderlu er merkt á varpstöðvum á norðaustanverðu Grænlandi.

Með aflestri af merkjum hér hefur sannast að rauðbrystingar á leið til Grænlands að vori og þá merktir í Porsangerfirði í Norður-Noregi eiga það til að skipta um farleið og fara um Ísland síðar. Hlutfall þessara Porsangerfugla hefur verið ótrúlega hátt hér í Núpasveit en verulega lægra á Sléttu. Það er mjög óvenjulegt að fuglar skipti um farleið á þennan hátt. Sanderlur sem fara um Núpasveit og Sléttu eru merktar í mörgum löndum allt frá Grænlandi og til Máritaníu og Gana. Stærsta verkefnið er á vegum Hollendingsins Jeroen Reneerkens. Á Sandey í Orkneyjum merkir Bretinn Colin Corse sanderlur og margar þeirra fara um Núpasveit og Sléttu á vorin.

Tímasetning farflugsins tengist vetrarstöðvum. Sanderlur merktar að vetrarlagi á Orkneyjum fara hér um fyrstar en síðastar eru þær sem hafa vetursetu í Máritaníu. Þó Gana sé sunnar eru Máritaníufuglarnir síðastir og eru sum ár á norðurleið eftir miðjan júní þeir síðustu. Sanderla sem var á Kópaskeri í lok maí 2017 hafði sést nokkrum sinnum í Namibíu en var merkt í Sandgerði að vorlagi. Ef til vill vantar merkingar í sunnanverðri Afríku til að fylla upp í myndina. Alls hef ég lesið á merki nokkur hundruð vaðfugla og vonast til þess að heildarfjöldi aflestranna nái tveimur þúsundum á næsta ári. Suma fugla hef ég séð ár eftir ár. Rauðbrystinginn G5RW-YR hef ég fundið við Ásmundarstaði ellefu ár í röð. Kóðinn er skráður á þennan hátt en fuglinn er með rauðan hring yfir grænum fána yfir hvítum hring á vinstri fæti og gulan hring yfir rauðum hring á hægri fæti og mætir alltaf á sömu blettina í Ásmundarstaðavíkinni. Nú hefur hann raunar tapað rauða hringnum á hægri fætinum en Hollendingarnir samþykkja hann sem þennan sama fugl og áður. Tapi hann fleiri hringjum verð ég að gjöra svo vel og lesa á númershringinn.

Sanderlutalning

Frá árinu 2010 hef ég talið sanderlur á völdum stöðum á svæðinu frá Kópaskeri og austur á Raufarhöfn.Talningin hefur sýnt að miklu fleiri sanderlur fara um svæðið en áður var talið. Niðurstöðurnar hafa orðið til þess að Náttúrufræðistofnun Íslands hefur skilgreint Núpasveit og Sléttu sem alþjóðlega mikilvægt svæði fyrir sanderlu. Talning á fleiri tegundum væri æskileg en það verk er mér ofvaxið. Sum ár fara gríðarlega margar grænlenskar sandlóur hér um. Einu sinni fyrir nokkrum árum skrifaði ég í dagbókina að það hlytu þann daginn að vera 20 þúsund sandlóur á Austur-Sléttu. Talan var einhver blanda af talningu og sjónmati á hópunum. Grænlensku fuglarnir eru talsvert síðar á ferðinni en íslenskir varpfuglar og eru flestir hér seint í maí og í byrjun júní þegar flugan er komin upp úr vötnunum á Austur-Sléttu. Í lok maí 2017 var litmerkt sandlóa í Ásmundarstaðavík. Hún var merkt sem ungfugl síðsumars í vestanverðum Noregi og uppruninn er vafalítið grænlenskur.

Tjaldar

Áhugi minn á tjaldinum hefur vaxið með árunum eftir því sem ég fann fleiri merkta og kynntist fuglinum betur. Rannsóknastofa Háskóla Íslands á Suðurlandi stundar margþættar rannsóknir á vaðfuglum, m.a. á tjöldum. Það varð úr að tveir úr rannsóknarhópnum komu hingað norður vorið 2017 og litmerktu 31 tjald á Sléttu. Ég fylgist svo með fuglunum, vakta komutíma og varp. Í fyrra (2017) taldi ég allan varpstofninn í Núpasveit og á Sléttu að Raufarhöfn. Niðurstaðan varð sú að óðalsbundin pör væru sem næst 322. Það er líklegt að talan hefði orðið svolítið hærri ef ég hefði ekki þurft að sinna öðru en rannsaka tjaldinn einan. Jafnframt vöktun og talningunni leita ég uppi hreiður og mæli eggin og álegustigið; nokkra tugi hreiðra hvort ár 2017 og 2018 og kem til með að halda því áfram.

Öll gögnin fara til Tómasar og félaga í HÍ. Elsti tjaldur sem nú er vitað um á Íslandi verpir innan við Koll í landi Leirhafnar á Sléttu. Það er kvenfugl sem hefur setið þar sama óðalið síðan ég fór að fylgjast reglulega með fuglalífi í byrjun aldarinnar. Hún var merkt sem ungi við Bakka á Tjörnesi í júní 1989. Annar mjög gamall tjaldur endaði sína daga á Raufarhöfn í vor. Það var karlfugl og merktur sem fullorðinn í Wales í október 1994 og sat óðal við ósinn úr Hringlóni utan við Ásmundarstaði. Kvenfuglinn á óðalinu var merktur í Wales árið 2006. Parið var svo litmerkt við hreiður í maí 2017. Í vor meiddist karlfuglinn og hraktist af óðalinu en kvenfuglinn fann sér tafarlaust nýjan maka og hún var fáum dögum síðar orpin þremur eggjum en hafði áður afrækt eða verið rænd tveimur eggjum sem hún átti með gamla sínum. Það var lesið á nokkra af litmerktu tjöldunum af Sléttunni á Bretlandseyjum síðastliðinn vetur. Auk þeirra hef ég lesið á 17 tjalda sem voru með númershring eða litmerki frá Bretlandseyjum og Írlandi. Myndin af því hvar tjaldar sem verpa í Norður-Þingeyjarsýslu eru að vetrinum er orðin nokkuð skýr. Þeir eru á norðan- og vestanverðum Bretlandseyjum og Írlandi.

Önnur helstu verkefni sem ég sinni við rannsóknir á fuglum eru skráning farflugsins í samvinnu við Náttúrustofuna á Húsavík og vöktun á lómum í Núpasveit og á Vestur-Sléttu. Skráning á farfluginu hefur staðið frá upphafi aldarinnar og lómaverkefnið frá og með 2012. Á rannsóknarsvæðinu eru um og yfir 90 óðalspör lóma. Skráður er fjöldi óðalspara, komu- og varptími, varpárangur og fæðuöflun handa ungum. Vorið og sumarið 2018 voru 12 lómar merktir hér og settir á þá ljósritar og köfunarritar. Fuglunum þarf svo að ná aftur sumarið 2019 til þess að taka af þeim ritana. Hliðstæð rannsókn er unnin á Bretlandseyjum og í Finnlandi og vísindamenn munu vinna sameiginlega úr gögnunum sem nást. Það getur orðið þrautin þyngri að handsama fuglana aftur því þeir muna vel hvaða hremmingum þeir lentu í við merkinguna. Auk þessa held ég árslista yfir þær fuglategundir sem ég finn á mínu svæði, tek þátt í vetrarfuglatalningu og tel fugla reglulega á talningarsvæði við Kópasker. Óvenjulegustu tegundir ársins voru hláturmáfur frá Norður-Ameríku sem var í Skálaneslónum 24. maí og fjallkjói sem var á mögulegu varpsvæði í héraðinu í byrjun september.