Fara í efni

Valið í matinn hans Bjössa

Á dögunum sást til ísbjarnar á Melrakkasléttu, eða að minnsta kosti töldu ferðalangar sig sjá ísbjörn og tóku til fótanna enda ekki víst að verða til frásagnar ef kynnin hefðu orðið nánari. Ferðlangarnir tilkynntu grun sinn til lögreglu og hefðbundið ferli fór í gang, leitarflokkar, þyrlur, fréttabirtingar og SMS viðvaranir.

Hvort um var að ræða ísbjörn, kind eða jafnvel álftapar má ræða fram og til baka og „besserwisserar“ allra landa hafa sameinast í að ráða í hvað þessir menn sáu (oftast betur en þeir sem sáu með sínum eigin augum) en vonandi hefur sú umræða ekki orðið svo hæðnisfull og hatrömm að næst þegar einhver spottar ísbjörn í nágrenninu muni viðkomandi steinþegja og koma sér og sínum hljóðlega í skjól. Hér má rifja upp að það eru ekki nema átta ár síðan ísbjörn gekk á land í Þistilfirði og er meðfylgjandi mynd af því dýri, myndina tók Hilma Steinsdóttir og er tekin af vef visis http://www.visir.is/g/2010839885568

En það var ekki bara ísbjörninn sem vakti athygli og áhyggjur. Varúðarskeyti voru send í SMS í farsíma í nágrenninu og reyndust skil á þeim vera afar misjöfn og skipti þá engu um hvaða símafyrirtæki var að ræða. Til dæmis bárust engin skilaboð til eigenda verslunarinnar í Ásbyrgi en ætla má það afar mikilvægt að svona upplýsingar berist á svo fjölfarið svæði, sömuleiðis hefði Bjössi til dæmis komið íbúum Gilhaga, Þverár, Meiðavalla, Hóls og Klifshaga í opna skjöldu. Reistarnes hefði sennilega verið fyrsta matarbúr þessa óboðna gests því engin boð komu þangað. Á sumum heimilum fékk allt heimilisfólk skilaboð en öðrum ekki, til dæmis fannst Elvari að sér vegið því Matta fékk skilaboð en ekki hann, sömu sögu var að segja hjá Örnu og Kristjáni þar sem hann var látin vita en Arna mátti á hlaðborð Bjössa.

Þetta er auðvitað grafalvarlegt mál því það eru ekki bara heimsóknir ísbjarna sem þarf að vara við, hér sem annarsstaðar á landinu getur náttúran brostið í hamfarir algerlega óforvarendis og þá er mikilvægt að geta komið skilaboðum áleiðis til íbúa. Það eru ekki allir með opið fyrir útvarpið enda útsendingar hér á hjaranum ekki alltaf eins og best verður á kosið og fæstir með vakandi auga á fréttamiðlum á veraldarvefnum en næstum allir eru með farsíma við hendina. SMS sendingar í farsíma er frábær leið til að ná til eiginlega allra og hún verður að virka.

Á heimasíðu almannavarnardeildar ríkislögreglustjórans segir:

„Vegna hamfara eða neyðarástands á ákveðnu svæði á landinu, senda almannavarnir SMS skilaboð frá Neyðarlínunni inn á svæðið. Boðin eru send í farsíma á skilgreindu svæði um farsímamöstur og skiptir ekki máli frá hvaða símafyrirtæki farsímarnir eru, innlendir eða erlendir farsímar, allir eiga að fá boðin. Boðin eru miðuð við hættusvæði og þarf ekki sérstakt smáforrit eða áskrift til að móttaka þau. Kveikt þarf að vera á farsíma og hann þarf að vera inn á því þjónustusvæði, sem farsímamastrið er og boðin eru send frá. Ekki er hægt að svara skilaboðunum. Vegna tæknivanda getur það komið fyrir að einstaka farsími fái ekki boðin. Þessi boð eru viðbót við aðrar leiðir til að upplýsa íbúa um hættu, en dæmi um aðrar leiðir eru fjölmiðlar s.s. útvarp, sjónvarp og netið.“

Í ljósi þess að til er tækni til að senda fólk til tunglsins og fjarstýrðar sprengjur til að drepa fólk í fjarlægum löndum hlýtur að vera hægt að leggja áherslu á að leysa þennan smávægilega tæknivanda.

Bryndís Sigurðardóttir