Fara í efni

Kynning á verkefni Hitaveitu Öxarfjarðar

Kæling á vatni úr holu Æ3 við Skógalón í Öxarfirði til notkunar fyrir veitukerfi Hitaveitu Öxarfjarðarhéraðs hf

Um Hitaveitu Öxarfjarðar og verkefnið:

Félagið var stofnað og hóf starfsemi á árinu 1994. Eigendur voru íbúar Öxarfjarðarhéraðs, notendur veitunnar. Ákvörðun um veituna og fjárfesting í húsum og framkvæmdir við veitukerfin byggðust á samtakamætti íbúanna og lagði hver og einn mikið af mörkum í vinnu og fjármunum til að veitan yrði að veruleika. Veitan þjónar notendum á svæðinu Skinnastaður í suðri til Kópaskers í norðri að frátöldum þeim bæjum sem eru of langt frá stofnlögn til að afhending teldist tæknilega og kostnaðarlega möguleg (vatnshiti og lagnakostnaður). Hönnun veitunnar gerði ráð fyrir að vatn úr borholu væri um 98°C.

Óumdeilt er að veitan eykur lífsgæði íbúa sem hennar njóta til verulegra muna en strax í upphafi var ljóst að orka frá veitunni yrði tiltölulega dýr vegna fámennis og langra stofnlagna m.a. Ætla má að orkan frá veitunni sé sú dýrasta á landinu hvað jarðhitaveitur varðar en þó heldur hagstæðari en rafkynding ef tekið er tillit til orkumagns til ráðstöfunar fyrir hvern notanda. Veitan hefur frá aldamótum glímt við vaxandi vanda í kerfinu og aukinn kostnað vegna hækkunar hitastigs í holunni. Fór svo að félagið fékk stuðning frá ríki og Norðurþingi til að styrkja fjárhag veitunnar fyrir nokkrum árum, á grundvelli lengingar viðmiðunartímabils niðurgreiðslu kostnaðar til rafhitunar. Einnig fékk félagið nýtt hlutafé frá eiganda borholunnar, Seljalaxi hf á þeim tíma.

Hitinn er nú um 116° við holutopp. Þessi hækkun hita frá upphaflegum áætlunum þýðir að veitan þarf að kæla vatnið með rafknúnum loftkælibúnaði og greiðir um eina milljón árlega vegna þessa, auk þess viðhaldskostnaðar á lagnakerfi sem við bætist aukalega vegna hitans. Ætla má að viðbótar viðhaldskostnaður sé af stærðargráðu 500 þúsund til milljón króna árlega þegar allt er talið.

Stjórn veitunnar hefur undanfarin tvö til þrjú ár velt fyrir sér ódýrari og hagkvæmari leiðum til kælingar á vatninu og jafnframt koma í veg fyrir þá miklu orkusóun sem í notkun núverandi búnaðar felst. Meðal annars hafa sérfræðingar Eflu verkfræðistofa, í samstarfi við aðra sérfræðinga, unnið mikla vinnu fyrir veituna, auk þess sem viðfangsefnið var tekið fyrir í lokaverkefni meistaranema við Háskólann í Reykjavík vorið 2017. Verkefni Byggðastofnunar Brothættar byggðir, Öxarfjörður í sókn styrkti kælingarverkefni veitunnar um eina milljón króna og var sá styrkur félaginu mikil hvatning til að skoða málin af fullri alvöru þrátt fyrir að aðeins sé um að ræða tiltölulega lítinn hluta kostnaðar.

Þegar sérfræðingar og heimamenn báru saman bækur sínar kom á daginn að ýmsar leiðir eru mögulegar en því miður reynast þær flestar hafa umtalsverða galla þegar betur er að gáð. Efnasamsetning, hitastig og þrýstingur vatnsins gera það að verkum að gæta þarf vel að hverju skrefi breytinga og m.a. þarf að hafa tæringarhættu og hættu á útfellingum í huga. Annað sem gerir kælingu erfiðari og dýrari en ella er að það er tiltölulega langt í nægilega mikið af köldu ferskvatn sem nota mætti til varmaskipta. Það er helst að fá í Þverárdal en þangað eru meira en 10 km og lagnir því dýrar.

Niðurstaða úr úttekt starfsmanna Eflu var að vænlegast sé að leitast við að nýta umframvarmann frekar en að „farga“ honum á staðnum. Mestu möguleikarnir felast í að senda vatnið fullheitt að næsta stórnotanda, þ.e. Laxeldis Samherja á Núpsmýri. Það kallar hins vegar á víðtækt samstarf, auk þess sem veikleiki er að fullur skilningur og þekking á hegðun borholu Æ3 við mismunandi rennsli liggur ekki fyrir. Mjög fyrirhafnarsamt og dýrt getur verið að afla þeirrar þekkingar, auk þess að það er nær ómögulegt án þess að veitan missi vatnið meðan á tilraunum stendur. Það er illmögulegt fyrir notendur veitunnar og getur skapað áhættu varðandi endingu veitukerfa.

Annar möguleiki er að framleiða rafmagn í smærri stíl með ORC-vél (vél sem framleiðir rafmagn með kælingu á vatni) á milli borholu og dæluhúss í Sandinum og fá þannig vökva á hæfilegum hita inn á kerfið. Rafmagnið nýtist þá til að knýja dælur veitunnar í Sandinum.

Framhald kælingarverkefnis - rafmagnsframleiðsla með lághitavatni við Skógalón í Öxarfirði

Í ofangreindri lausnaleit beinist athyglin æ meir að þeim möguleika að framleiða rafmagn með ORC-vél fyrir umframhitann og fá vatnið úr því ferli hæfilega heitt til að dæla inn á veitukerfið, það er um 93°C. Um ýmsar útfærslur gæti verið að ræða en stjórn veitunnar hugnast best sú leið að fara rólega af stað og gera tilraun með litla rafstöð. Rafmagnið sem þannig fengist er af stærðargráðu 40-80 kWe, sem dygði til að sjá veitunni fyrir þeirri raforku sem hún notar til dælingar við Skógalón, auk kælingar raforkuframleiðslubúnaðarins. Árlegur sparnaður í rafmagnskaupum yrði þá gróft áætlað 2,5 – 3 milljónir árlega miðað við að auka hlut dælustöðvar í Sandinum (hækka þrýsting).

Veitan hefur nú fengið styrkvilyrði að upphæð 10,5 mkr. úr sjóði ráðuneytis úr byggðaáætlun, lið C.1, fyrir milligöngu Eyþings og hefur stjórn veitunnar ákveðið að hefja vinnu við undirbúning á framleiðslu rafmagns. Ávinningurinn af verkefninu er óumdeilanlegur:

  • Lágmörkun orkusóunar
  • Tilraunaframleiðsla með tvívökvavél til raforkuframleiðslu úr lághita í Öxarfirði – mjög miklir möguleikar felast í nýtingu á heitu vatni á þessu orku- og vatnsríka svæði
  • Hagkvæmari kæling vatnsins fyrir veituna
  • Betri ending veitukerfa og búnaðar
  • Hagkvæmari rekstur veitunnar à lægri orkugjöld til notenda til lengri tíma litið
  • Sterkara samfélag við Öxarfjörð

Meðfylgjandi eru myndir teknar af Kristjáni Þ. Halldórssyni