Fara í efni

Kelduhverfi

Kelduhverfi liggur inn af botni Öxarfjarðar á Norðausturlandi. Næst sjónum eru víðáttumiklir "sandar" (Vestursandur) sem eru nú að mestu grónir.  Þetta eru óshólmar Jökulsár á Fjöllum, mýrlent land, víða kjarri vaxið, með sjávarlónum, stöðuvötnum og ám.  Síðan tekur við gamalgróið hraun og er byggðin nú öll á þessum forna hraunjaðri, enda liggur þjóðvegurinn þar. Landið hækkar síðan smátt og smátt til suðurs, vel gróin heiðarlönd, sums staðar með verulegum skógarleifum, sem ná um 15 km upp frá byggðinni.  Lengst inn til landsins austanvert eru auðnir og melar enda landið komið í meira en 500 m hæð frá sjó.

Kelduhverfið (Kelduneshreppurinn) er alls um 700 ferkm. "Sandurinn" er um 100 ferkm, gróið land um 300 ferkm og auðnir og fjöll um 300 ferkm.

 Í bók sinni Hverra manna segir Árni Óla:

“Náttúran sjálf hefur frá örófi alda afmarkað Kelduhverfi rækilega.  Að austan er hin mikla elfir Jökulsá á Fjöllum, að sunnan Mývatnsöræfi, að vestan hár fjallgarður og að norðan opið haf.  Innan þessara vébanda var það gjörsamlega einangrað.  Það er eins og rækilega umgirtur landskiki á mótum Suður-Þingeyjarsýslu og Norður-Þingeyjarsýslu.

Kelduhverfi er í rauninni ríki út af fyrir sig, en ekki hluti af stærri heild, og því hefði farið best á því, að sýslurnar hefðu haft það sem skartgrip héraðsins þarna á milli sín.”

 Í dag er Kelduhverfi  auðvitað áfram ríki út af fyrir sig, sérstakt sveitarfélag með ríka sjálfstæðisvitund en þó  með góð tengsl við nágranna sína bæði til vesturs og austurs. Eins og í mörgum öðrum sveitahreppum fækkaði íbúum jafnt og þétt á seinni helmingi síðustu aldar, en fjölgar nú aftur á ný.

Kelduhverfið er dæmigert íslenskt bændasamfélag.  Hér hefur verið stundaður sauðfjárbúskapur fá aldaöðli og er enn í dag. Nýjar atvinnugreinar hafa haslað sér völl og ber þar hæst fiskeldi og ferðaþjónusta.

Keldhverfingar hafa brasað við fleira en búhokur í gegnum tíðina.  Menningarlíf hefur oft staðið með miklum blóma og hefur getið af sér þjóðþekkta menntafrömuði, listmálara, tónlistarfólk, skáld og rithöfunda auk athafnaskálda.

Keldunes er í miðri sveit og þar var lengi þingstaður hreppsins.  Keldunes er kennt við miklar uppsprettur, sem koma undan hraunjaðrinum og kallast nú Brunnar. Í fornöld voru slíkar uppsprettur nefndar keldur og af þessum keldum dregur bærinn og einnig sveitin nafn sitt. Kelduhverfi myndi því kallast "Springfield" á alþjóðamálinu.

Fyrir unnendur íslenskrar náttúru hefur Kelduhverfið upp á margt að bjóða.  Þar er fyrst til að nefna Vatnajökulsþjóðgarð með sínum náttúruperlum.  Um hann getið þið fræðst hér á heimasíðunni.  Fuglalíf er mjög fjölskrúðugt og fyrir fuglaskoðara er hér mikið að sjá.  Silungurinn í Litlá og vötnunum þrem hefur  dregið margan veiðimanninn í hverfið.  Ekki má gleyma selnum sem syndir mót hörðum straumi Jökulsár og heldur þar löngum til.  Hellar, gjár, skógar, heiðar, og svartur ægisandur ásamt fjallahringnum, allt þetta gerir Kelduhverfið að þeim skartgrip sem Árni Óla minntist á.