Fara í efni

Reykjahverfi

Reykjahverfi er syðsti hluti sveitarfélagsins Norðurþing og var svæðið sérstakt sveitarfélag, Reykjahreppur, frá 1933 þar til vorið 2002 er það sameinaðist Húsavíkurkaupstað og hétu þau sveitarfélög sameinuð næstu fjögur ár á eftir Húsavíkurbær. Íbúar í Reykjahreppi voru 1. desember 2001 voru 100.

Flestir vinna við hefðbundinn landbúnað, það er kúabúskap og sauðfjárrækt en þó er svæðið þekktast fyrir jarðvarma og ylrækt sem hefur verið stunduð allt frá 1904. Garðræktarfélag Reykhverfinga hf. var stofnað það ár en fyrst var um kartöflu- og grasrækt að ræða en árið 1933 hófst ylrækt í gróðurhúsi á Hveravöllum, því fyrsta á Norðurlandi, og hefur sú starfsemi stöðugt elfst í tímans rás. Ræktaðar eru nokkrar tegundir af grænmeti.

Það er þó fleira að finna á svæðinu. Trésmiðjan Rein hefur um langt árabil verið með öfluga starfsemi og sinnt verkefnum um allt héraðið. Þar er nú einnig starfrækt sérstök verksmiðja sem framleiðir gólflista og fleira. 

Í Heiðarbæ, félagsheimili sveitarinnar, hefur í mörg ár verið rekin gisti- og veitingaþjónusta á sumrin og þar er einnig sundlaug.

Hópferðabílar Rúnars Óskarssonar eru á Hrísateigi 5 en fyrirtækið hefur auk þess að sinna flutningum með hópferðabílum einnig sinnt háfjallaferðum fyrir ferðamenn á sérútbúnum jeppum.

Mikið hefur verið byggt af sumarhúsum á svæðinu á undanförnum árum.

Þá má geta  lax- og silungsveiðinnar sem tilheyrir svæðinu, sérstaklega í Laxá, Mýrarkvísl. Fyrirtækið Norðurlax hf. hefur rekið klak- og eldisstöð á Laxamýri allt frá árinu 1972.