Félagsleg ráðgjöf

Yfirumsjón með félagslega ráðgjöf: Lára Björg Friðriksdóttir
Sími: 464 6100
 

Hvað er félagsleg ráðgjöf?

Flestir verða fyrir einhverjum erfileikum eða áföllum á lífsleiðinn. Markmið félagslegrar ráðgjafar er að vinna að lausn félagslegra og persónulegra erfiðleika og veita upplýsingar og leiðbeiningar um félagsleg réttindi.

Félagsleg ráðgjöf félagsþjónustu Norðurþings er veitt samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, lögum um málefni fatlaðs fólks, lögum um málefni aldraðra og barnaverndarlögum.

Ráðgjöfin byggir fyrst og fremst á því að efla og styrkja hvern einstakling til að takast á við viðfangsefni sín með áherslu á stuðning til sjálfshjálpar þannig að sérhver einstaklingur geti sem best notið sín í samfélaginu. Virðing, góð tengsl og trúnaður eru lykilatriði í allri ráðgjöf og samskiptum.

Félagsleg ráðgjöf tekur til barna og fullorðinna og getur staðið ein eða verið í tengslum við önnur úrræði félagsþjónustunnar. Einnig veita ráðgjafar upplýsingar um mögulega þjónustu utan félagsþjónustunnar og vísa fólki á þau úrræði sem henta hverjum og einum. Ráðgjafar aðstoða við gerð umsókna um þjónustu ef þörf er á.

Hver sinnir félagslegri ráðgjöf?

Starfsfólk félagsþjónustu Norðurþings veitir félagslega ráðgjöf til einstaklinga og fjölskyldna, barna og fullorðinna. 

Starfsfólk Félagsþjónustu Norðurþings er bundið þagnarskyldu um málefni einstaklinga sem þangað leita. Undantekningu frá þagnarskyldu má einungis gera skv. lagaboði svo sem ef barni er hætta búin.

Hvaða ráðgjöf er í boði?

Félagsleg ráðgjöf tekur m.a. til ráðgjafar vegna eftirfarandi:

 • samskipta í fjölskyldunni, meðal annars sambúðarvanda
 • uppeldismála
 • málefna barna- og unglinga
 • ættleiðingarmála
 • málefni útlendinga
 • fjárhagsvanda fjölskyldunnar      
 • atvinnuleysis
 • húsnæðisvanda                   
 • áfengis- og vímuvanda
 • hjónaskilnaða og sambúðarslita
 • forsjár- og umgengnisdeilna
 • skertrar færni og fötlunar                                  
 • aðstæðna á efri árum og öldrunar                                           

Fyrir hverja er félagsleg ráðgjöf?

Allir með lögheimili í Norðurþingi, 18 ára og eldri, sem þurfa á ráðgjöf eða upplýsingum um félagsleg réttindi eða þjónustu að halda geta leitað til félagsþjónustunnar. Einnig hafa nágrannasveitafélögin, Þingeyjarsveit, Skútustaðarhreppur, Tjörneshreppur, Svalbarðshreppur og Langanesbyggð gert samning við Norðurþing um ráðgjafarþjónustu.

Hvað kostar þjónustan?

Þjónustan er íbúum Norðurþings og nágrannasveitafélögum að kostnaðarlausu.

Hvernig fæ ég viðtal?

Óskir þú eftir félagslegri ráðgjöf, vinsamlegast hafðu samband við Félagsþjónustu Norðurþings í síma 464 6100 til að fá nánari upplýsingar.
Ekki þarf að skila sérstökum gögnum nema ráðgjafa þyki það ákjósanlegt með hliðsjón af aðstæðum eða í tengslum við önnur úrræði félagsþjónustunnar.