Fara í efni

Framhaldsskóli

Framhaldsskólinn á Húsavík
Framhaldsskólinn á Húsavík var stofnaður 1.apríl 1987 og settur í fyrsta sinn 15. september sama ár. Með því var komið til móts við mikla fjölgun nemenda á framhaldsskólastigi og auknar kröfur um þjónustu við íbúa héraðsins. Skólastarfið var í fyrstu byggt á grunni tveggja ára framhaldsnáms við Gagnfræðaskóla Húsavíkur. Síðan þróaðist það í fullmótaðan framhaldsskóla með fjölbrauta- og áfangakerfi.

Húsnæði
Skólinn er til húsa að Stóragarði 10. Þar fer mest öll kennsla fram í 12 kennslustofum. Þar er bókasafn, skrifstofa skólans og aðstaða stjórnenda, kennara og annars starfsfólks. Íþróttakennsla fer fram í Íþróttahöllinni sem er næsta hús við skólann.

Hlutverk skólans
Skólinn er öllum opinn og leggur áherslu á að þjóna íbúum í Þingeyjarsýslum. Hann hefur ákveðnar skyldur við þetta samfélag um eins fjölbreytt námsframboð og mögulegt er, að tryggja jafnan rétt allra til náms við hæfi, að miðla þekkingu og reynslu til annarra skóla í héraðinu, stofnana, fyrirtækja og stjórnvalda og að styrkja jákvæð viðhorf til búsetu á svæðinu.

Einkunnarorð skólans eru frumkvæði - samvinna - hugrekki

Skólinn er eins og aðrir framhaldsskólar á landinu rekinn af Menntamálaráðuneytinu.

Vefur Framhaldsskólans á Húsavík