Fara í efni

Raufarhöfn

Raufarhöfn, nyrsta kauptún landsins, á sér mikla sögu. Raufarhöfn var fyrrum ein af bújörðum Austur-Sléttu allt fram á sjötta tug síðustu aldar. Um aldir tilheyrði jörðin Presthólahreppi en 1945 varð Raufarhöfn sjálfstætt sveitarfélag. Náttúruleg höfn Raufarhafnar er varin klettahöfða, Höfðanum, er teygir sig austur í hafið, svo gott sem út í Íshafið sjálft. Framundan Höfðanum, stendur áberandi stakur klettahöfði; Hólminn og skilur sund þeirra á milli. Handan hafnarinnar er þessi mynd greinileg og eftir raufinni, sem aðskilur Höfðann og Hólmann, dregur jörðin og staðurinn nafn sitt Raufarhöfn.

Raufarhöfn er nefnd þegar í Íslendingasögum, og þá jafnan í sambandi við kaupför. Hansakaupmenn stöðvuðust þar og síðar Hollendingar eftir aldamótin 1700. Norður-Þingeyingum þótti örðugt að sækja verslun sína til Húsavíkuvíkur eða Vopnafjarðar og leituðu oft eftir því að verslun yrði sett upp á Raufarhöfn, en þrátt fyrir allt slíkt var það ekki fyrr en árið 1833 að Raufarhöfn var löggilt sem verslunarstaður. Þremur árum síðar, 1836, kom svo danskur kaupmaður og reisti þar stórhýsið Búðina. Húsið hafði áður staðið í Kaupmannahöfn eða jafnvel Hamborg. Búðin var þá talið eitt stærsta hús landsins; taldi fjórar hæðir upp í loft. Búðin brann í miklum eldsvoða 1956.

Verslun Thaae stóð í rúma tvo áratugi, þá tóku við íslenskir kaupmenn og síðar Gránufélagið, sem rak þar verslun til ársins 1893.

Það var svo árið 1896, sem tveir ungir og framtakssamir menn Jón og Sveinn Einarssynir frá Hraunum í Fljótum fluttu til Raufarhafnar og settu fljótt mark sitt á staðinn undir nafninu “Bræðurnir Einarsson”. Þeir tóku Búðina á leigu, opnuðu verslun og hófu fiskveiðar og hákarlaveiðar sem þeir höfðu lengi stundað sjálfir áður en þeir byrjuðu á verslunarnámi. Skömmu síðar hófu bræðurnir Friðrik og Þorgeir Clausen frá Eskifirði einnig útgerð frá Raufarhöfn.

Aldamótaárið byggðu “Bræðurnir Einarsson” vandaða bryggju á Raufarhöfn. Gátu allstór seglskip legið við hana. Aðra bryggju reistu þeir nokkrum árum síðar, sem var nægileg til þess að strandferða skip gátu fermt og affermt við hana. Hversu áhugasamir þeir bræður voru um málefni Raufarhafnar, má einnig ráða af því, að árið 1916 var lögð símalína til Raufarhafnar og lögðu þeir til framkvæmdarinnar mikið fé úr eigin vasa.

Sumarið 1900 hófu Norðmenn síldveiðar frá Raufarhöfn í reknet og varð veiðin um 600 tunnur sem þá þótti sæmileg veiði. Nokkrum árum síðar keyptu “Bræðurnir Einarsson” vandað 20 smálesta skip “Vegu” sem haldið var út til síldveiða og þorskveiða næstu árin. Sumarið 1901 varð síldveiðin um þrjú hundruð tunnur og þótti góð útkoma. Árin 1908 og 1909 voru erfið ár og afurðir lítt eða ekki seljanlegar. Jón og Sveinn, hættu smám saman síldveiðum, en ráku um hríð þroskveiðar og svo verslun sína.

Raufahafnarjörð var eins og hver önnur bújörð í konungseign, þegar verslun hófst þar og þótti heldur rýr. Strandlengja jarðarinnar er um þrír kílómetrar og var þar ágætur reki. Þá fylgdi henni ágæt silungsvötn og má nefna Ólafsvatn, Selvatn, Raufarhafnarvötn, Djúpavatn, Steinunnarvatn, Strútsvatn og Rifshæðarvötn að hluta, svo og hlutur í Deildará sem var og er gjöful laxveiðiá.

Árið 1875 fékk hálfdanskur maður, Christian G. P. Lund, þá verslunarstjóri í Búðinni og kona hans Þorbjörg Árnadóttir frá Ásmundastöðum, jörðina til ábúðar og stunduðu þar búskap auk verslunarreksturs. Verslunin hafði sitt aðdráttarafl og eftir að útgerð hófst, kom fólkið og verslaði og eftir því sem sjósókn þaðan efldist voru fleiri hús byggð á jörðinni og smám saman myndaðist vísir að þorpi. Á næstu áratugum stækkaði þorpið ört og byggðist afkoman þess á síldveiðum, söltun, bræðslu og tilheyrandi þjónustu við síldarútgerðina. Aldamótaárið 1900 reistu Norðmenn þar upp síldarbræðslustöð sem Síldarverksmiðjur ríkisins keyptu 1934. Verksmiðjan sú átti aldeilis eftir að mala gull fyrir þjóðarbúið næstu áratugina.

Árið 1944 var Raufarhöfn orðin önnur stærsta útgerðarstöð landsins til síldveiða, aðeins Siglufjörður var þá með meiri veiði.

Ættliðaskipti urðu 1911 á Raufarhafnarjörð er Maríus Lund ásamt konu sinni Rannveigu Laxdal Lund tóku við ábúðinni, sem auk búskaparins, sinntu um áratugaskeið vitavörslu, veðurathugunum og póstafgreiðslu fyrir staðinn. Voru þau síðustu ábúendur á ríkisjörðinni Raufarhöfn.

Til fjölda ára rak Rannveig Lund greiðasölu í Lundshúsinu, eins konar ferðaþjónustu á nútímavísu sem athafnamiklu þorpi var nauðsyn á, eða allt þar til hún flutti brott 1958 og húsið innlimað í eina síldarsöltunarstöðina. Lundshúsið var rifið um 1990. Raufarhafnarhreppur keypti jörðina af ríkissjóði um 1960.

Um og eftir 1960 varð Raufarhöfn ein stærsta síldarsöltunarstaður landsins með tilheyrandi uppgangi. Líflegt var á aðalgötu Raufarhafnar-  tvö bakarí á tímabili og ekki færri en einar 6 verslanir þ.á.m. Kaupfélagið, Jóns og Jóabúð, Bræðurnir Einarsson eða Fríðubúð eins og búðin hét síðar og sjoppur með fallegum nöfnum og má nefna Sídubúð og Rauðu mylluna sem ásamt fleirum, buðu upp á allt sem íbúar og aðkomufólk þarfnaðist , þar á meðal Prins Póló og kók; - með djúkbox sem hægt var að setja í pening og hlusta á The Beatles og jafnvel kaupa sígarettur í lausu og þar var líka að finna samkomuhúsið sem endalaust tók á móti hópum ballgesta þegar Hljómar úr Keflavík eða önnur álíka bönd komu í rútu með græjum sínum og tróðu upp á fjögurra fermetra sviðinu. Allt fullt af fólki á besta aldri – á fjórða þúsund í landlegum, langar vinnutarnir en þó ekki svo langar að ástin fyndi sér ekki næði og tíma. Svona dagar líða ekki þeim úr minni sem upplifðu. Síldarævintýrið náði hámarki á árunum 1964-1967 og voru á þessu tímabili allt að 11 söltunarstöðvar starfræktar með sínum plönum og bröggum, - flestar í eigu annarra en heimamanna, auk þeirra Síldarverksmiðju ríkisins. Nöfn söltunarstöðvanna eins og Gunnarsplanið, Borgir, Hólmsteinsplanið, Hafsilfur, Óðinn, Skor, Óskarsstöðin, Norðursíld og Síldin gleymast seint. Árið 1967 hrundu síldveiðarnar og þar með brast veigamesta burðarstoð þorpsins. Flestir urðu íbúarnir á þessu tímabili – hátt á sjötta hundrað. Á þessum síldarárum mokaði landssjóður inn fjármagni frá Raufarhöfn og ýmsir síldarspekulantar sáu sér leik á borði – byggðu hratt mannvirki fyrir starfsemi sína sem eflaust hafa skilað þeim miklum gróða þegar best lét. Innfæddir tóku meira þátt í leiknum fremur en að ráða honum; fengu næga vinnu og oft var um hrein uppgrip að ræða fyrir konur, karla og unglinga.

Hvorki á Raufarhöfn né öðrum síldarplássum var velt fyrir sér umhverfismálum og orðið mengun ekki til. Auðvitað voru göturnar holóttar og slorugar þegar hver bíllinn á fætur öðrum ók með opinn pall síldarúrgangnum frá plönunum í bræðsluna og frá henni lagði daunillan gufumökkinn sem í þá daga hét peningalykt. Nóg var þó vinnan og menn græddu peninga – aðkomumenn sem aðrir. Já aðkomufólkið var margt – vel yfir tvöþúsund og upp í á fjórða þúsund í landlegum þegar um 30 manns af rúmlega 400 bátum bættust í hópinn. Samt var nóg rými í litla samkomuhúsinu til dansleikja – aldrei kvartað og allir ánægðir. Svo var boðið upp á bíó.

Lengi vel var erfitt um gott drykkjarvatn á Raufarhöfn, fyrst var notað vat úr brunnum svo úr vötnum ofan Melrakkaáss, þá borholur sem fylltust af sjó.  Nú er vatn á Raufarhöfn úrvalsgott – er leitt úr lind við Ormarsá.

Þegar síldin hvarf, hurfu eigendur mannvirkjanna og mörg þeirra skilin eftir í reiðileysi. Myndarlega hefur verið staðið að því að fjarlægja þau sem ónýt voru og allt athafnasvæði hafnarinnar er nú með miklum ágætum. Síldarverksmiðjur ríkisins voru atkvæðamiklar á staðnum og veittu mörgum vinnu. Síðar tók S.R. mjöl við en starfsemi þess flutt burt af staðnum fyrir nokkrum árum. Á vegum Síldarverksmiðjanna var rekið vélaverkstæði á Raufarhöfn sem ósjaldan var leitað til með viðgerðir á bílum eða öðrum tækjum. Nú er verkstæðið í einkaeign og rekið sem véla- og trésmíðaverkstæði. Á Raufarhöfn er útibú Landsbankans, heilsugæsla og þar hefur lögregla héraðsins aðsetur. Grunnskóli er starfræktur og leikskóli og á staðnum er myndarlegt íþróttahús með sundlaug. Þar við er tjaldstæði fyrir ferðalanga og gönguleiðir eru merktar. Myndarlegt félagsheimili – Hnitbjörg var byggt á áttunda áratug síðustu aldar og þjónar miklum tilgangi. Þá var myndarlega staðið að uppbyggingu á hóteli í fyrrum húsnæði síldarsöltunarstöðvarinnar Óðins – heitir Hótel Norðurljós og býður upp á fyrsta flokks gistingu  og veitingar í mat og drykk. Raufarhafnarkirkja er fyrir botni hafnarinnar þar sem fyrsta byggð þorpsins var. Hún tók við hlutverki Ásmundarstaðakirkju í ársbyrjun 1928, teiknuð af Guðjóni Samúelssyni. Kirkjunni og því sem henni tilheyrir er vel við haldið og hún fallegt mannvirki. Raufarhöfn var lengst af sérstakt prestakall en hefur nú verið sameinað Skinnastaðaprestakalli.

Í dvalarheimilinu Vík eru fjórar íbúðir, samkomustaður fyrir aldraða og mötuneyti í hádeginu. Lögreglan hefur aðsetur á staðnum, þar er vöruafgreiðsla flutningabíla og stórra skipa. Þá veita faglærðir iðnaðarmenn þorpsbúum og öðrum margháttaða þjónustu.

Eftir að síldin hvarf var reynt að mæta atvinnuleysinu með ýmsum hætti, m.a. rekin saumastofa þar um tíma. Mestu skiptu þó kaup sveitarfélagsins á togaranum Rauðanúpi og stofnun útgerðarfélagsins Jökuls. Þrátt fyrir breytingar á eignarhaldi á vinnslu og skipum er útgerð, þ.m.t. smábátaútgerð undirstaða atvinnunnar í þorpinu. Þá skapaði loðnan miklar tekjur um og eftir 1975, enda miklu landað á Raufahöfn.

Kaupfélagsrekstur var um tíma á Raufarhöfn þegar umsvifin voru hvað mest, en Kaupfélag Raufarhafnar, sem fleiri hættu starfsemi. Nú er ágæt verslun á staðnum, Urð, sem orð fer af, að þar sé allt að finna sem viðskiptavininn vanhagar um. Þá er rekið kaffihús á staðnum um sumartímann, Gallerý Ljósfang sem selur listmuni og annað sem sem ferðafólk og heimamenn kunna að meta.  Á Melrakkaási, norðan við þorpið, er að rísa Heimskautsgerði – mikið mannvirki sem sækir hugmyndafræði sína til Snorra-Eddu og er forvitnilegt fyrir gesti og gangandi að skoða.

Höfðinn er náttúruprýði staðarins og fallegt að ganga um svæðið og virða fyrir sér landið og ekki síður hafið í sínum fjölbreyttu myndum. Þar trónir Raufarhafnarviti, sjófarendum til halds og trausts. Á höfðanum var lendingabraut lítilla flugvéla og notuð fyrir sjúkraflug og við síldarleit.  Núverandi flugvöllur, Raufarhafnarflugvöllur er staðsettur austan við Hól, um 10 km utan við þorpið.

Oft getur verið kalsasamt á Raufarhöfn þegar norðaustan suddinn ber þar upp á dögum saman, en þar er líka fallegt og friðsælt í stafalogni og sólskini; hafflöturinn spegilsléttur svo langt sem augað eygir.