Fara í efni

Fuglalíf

Fjölskrúðugt fuglalíf er helsta einkenni í fánu Norðurþings. Fjölbreytileg búsvæði fyrir fugla eru innan sveitarfélagsins m.a. afar lífrík votlendissvæði þar sem finna má fuglategundir sem eru fátíðar utan Þingeyjarsýslna. Þar má nefna fjölda andategunda sem verpa víða í Öxarfirði og við Víkingavatn í Kelduhverfi.  Laxá rennur að hluta innan sveitarfélagsins en hún er skráð sem RAMSAR-svæði en það eru votlendissvæði sem eru talin hafa alþjóðlegt mikilvægi.

Þá er einnig að finna mikinn fjölda sjófugla við ströndina og er Rauðinúpur mesta fuglabjargið en þar er m.a. að finna eitt af nokkrum súluvörpum landsins. Þar er einnig að finna lunda (Fratercula), svartfugla s.s. langvíu (Uria aalge), stuttnefju (Uria lomvia), álku (Alca torda) og teistu (Cepphus grylle).  Í Lundey á Skjálfanda og í Mánáreyjum eru stórar lundabyggðir og meðfram allri stönd Norðurþings er að finna fjölda máfategunda.

Víðáttumiklar lyngheiðar í sveitarfélaginu eru búsvæði mikils fjölda mófugla s.s. heiðlóu, spóa og rjúpu. Rjúpan er ein af einkennistegundum Þingeyjarsýslu og varpþéttleiki hvergi meiri á landsvísu. Rjúpan er aðalfæða fálkans en hvergi er jafn mikið af honum og hér. Rjúpan er vinsæl villibráð og mikil hefð fyrir rjúpnaveiði í sveitarfélaginu og má í því sambandi nefna að á fyrrihluta 20. aldar var töluverður útflutningur á rjúpu á vegum Kaupfélag Þingeyinga. Á Melrakkasléttu er eitt stærsta varp sendlings á Íslandi.

Rannsóknarstöðin Rif var stofnuð árið 2014. Rifi er ætlað að efla og auka náttúrannsóknir á Melrakkasléttu, safna og miðla upplýsingum um náttúrufar á svæðinu og styðja nærsamfélagið. Hún er með starfstöð á Raufarhöfn en nýtir jörðina Rif til rannsókna.