Fjárhagsaðstoð

Umsjón: Lára Björg Friðriksdóttir
Símanúmer: 464 6100


Fjárhagsaðstoð er veitt samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, en samkvæmt þeim er hverjum og einum skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Í lögunum er einnig kveðið á um að sveitarfélag skuli veita íbúum sínum þjónustu og aðstoð sem er til þess fallin að bæta úr vanda eða koma í veg fyrir að fólk lendi í þeirri aðstöðu að geta ekki séð fyrir sér og sínum.

Fjölskylduráð Norðurþings hefur sett sérstakar reglur um fjárhagsaðstoð sem starfsfólk félagsþjónustunnar vinna eftir.  Rétt á fjárhagsaðstoð eiga þeir sem eiga lögheimili á þjónustusvæði Félagsþjónustu Norðurþings og hafa tekjur undir ákveðnum viðmiðunarmörkum. Aðstoðin er í formi styrks en getur í undantekningartilfellum verið í formi láns.

Ýmsar ástæður geta legið að baki því að fólk þurfi fjárhagsaðstoð, svo sem lág laun, atvinnuleysi eða veikindi.  Aðstoðin er óháð barnafjölda, þar sem reiknað er með að barnabætur, meðlög og barnalífeyrir mæti kostnaði vegna barna. Vaxtabætur og húsaleigubætur mæta mismunandi kostnaði vegna húsnæðis. Heimilt er að veita einstaklingum og fjölskyldum aðstoð vegna sérstakra aðstæðna, sbr. 4. kafla í reglum um fjárhagsaðstoð.

Ráðgjafar taka við umsóknumum fjárhagsaðstoð. Í umsókn þurfa að m.a. að koma fram upplýsingar um fjölskyldugerð, atvinnu, húsnæði, tekjur, skuldir og eignir. Umsókn um fjárhagsaðstoð skal fylgja staðfest skattframtal sl. árs, staðgreiðsluyfirlit skatta frá yfirstandandi ári ásamt yfirliti yfir allar tekjur og aðrar greiðslur til umsækjanda og maka hans þann mánuð sem umsóknin er lögð fram og mánuðinn á undan, þar með taldar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins, lífeyrissjóðum, Atvinnuleysistryggingarsjóði, sjúkrasjóðum stéttarfélaga eða öðrum aðilum.

Ráðgjöf vegna fjármála er veitt þar sem þörf er fyrir hana og alltaf í tengslum við fjárhagslega aðstoð.

Vakin er athygli á því að öll fjárhagsaðstoð til framfærslu er skattskyld.