Fara í efni

Vinnuskóli

Vinnuskóli 2024
Helstu upplýsingar og reglur Vinnuskólans - lesist vel

Í sumar verður Vinnuskóli Norðurþings starfandi fyrir ungmenni fædd árin  2009, 2010 og 2011, það er að segja þeir sem eru að ljúka 7., 8. og 9. bekk. Vinnuskólinn er opin ungmennum sem eru með skráð lögheimili í sveitarfélaginu eða eiga foreldra/foreldri sem er með lögheimili í sveitarfélaginu.

Árgangur 2009 mætir á efri hæð íþróttahallarinnar kl. 8:00 mánudaginn 24. júní
Árgangur 2010 mætir á efri hæð íþróttahallarinnar kl. 8:00 mánudaginn 1. júlí
Árgangur 2011 mætir á efri hæð íþróttahallarinnar kl.8.00 mánudaginn 10. júní.

Ungmenni búsett utan Húsavíkur taka það fram í umsókn og fara verkefni og vinnufyrirkomulag eftir fjölda umsókna sem berast. Mögulega verður leitað eftir samstarfi við fyrirtæki og stofnanir ef fáir eru í hóp.

Laun eru sem hér segir:.
Unglingar fæddir 2009 –  kr. - 1.197 kr. klst - vinnutímabil 5 vikur - tímabil 24.júní – 26. júlí  
Unglingar fæddir 2010 –  kr. -  931 kr. klst - vinnutímabil 4 vikur - tímabil 1. júlí – 26. júlí  
Unglingar fæddir 2011 -  kr. -  665 kr. klst - vinnutímabil 3 vikur - tímabil 10.júní – 28. júní 

Skipulag starfsemi:
Vinnuskólinn er rekinn af Norðurþingi og heyrir undir Fjölskyldusvið Norðurþings.  Dagleg stjórn Vinnuskólans er í höndum flokkstjóra.  Helstu verkefni Vinnuskólans varða snyrtingu og umhirðu í  þéttbýli og í dreifbýli.   Vinnuskólinn er sambland af starfsþjálfun, fræðslu, félagsstarfi og skapandi verkefnum. Verkefni og viðfangsefni hvers dags geta því verið margbreytileg og til að mynda er stefnt að því að vinna að skemmtilegum og uppbyggilegum hliðarverkefnum. Hliðarverkefni geta verið skreyting bæjarins og önnur skapandi verkefni.
Unnið er alla virka daga vikunnar, 4 klukkustundir á dag.  Vinnudagurinn er frá 8:00 til 12:00.

Röðun í flokka:
Vinnuskólinn lítur svo á að unglingar þurfi að venjast því að vinna með hverjum sem er.  Þeim er því ekki raðað eftir vinahópum.  Ekki er víst að þeir sem eru settir í hóp í upphafi verði saman allt sumarið.   Margar ástæður geta orðið til þess að endurraða þurfi í hóp eða hópa.

Helstu kröfur til nemenda Vinnuskólans:
Gert er ráð fyrir að unglingur sem sækir um vinnu í Vinnuskóla Norðurþings sé með umsókn sinni að lýsa yfir áhuga sínum á því að taka þátt í starfi skólans og vinna samviskusamlega þau verk sem honum eru falin.  Unglingnum ber að sýna kurteisi í samskiptum við stjórnendur skólans, íbúa sveitarfélagsins og þá sem með honum vinna.  Klæðnaður þarf að vera í samræmi við veður og vinnuaðstæður hverju sinni.  Unglingar eru beðnir um að hafa með sér nesti til að neyta í kaffitímum.  Tóbaksnotkun og notkun rafretta og nikótíns er alfarið bönnuð í Vinnuskólanum.  Fari unglingur ekki  að tilmælum flokkstjóra eða sætti sig ekki við þær starfs- og vinnureglur sem gilda í Vinnuskólanum verður honum gefið tækifæri til að bæta sig.  Beri það ekki árangur er hann sendur heim launalaust í lengri eða skemmri tíma og verður forráðamönnum þá gert viðvart.

Ofnæmi eða aðrir kvillar:  
Vinnuskólinn reynir að mæta vandamálum vegna ofnæmis eða annarra sambærilegra kvilla.  Til að hægt sé að taka tillit til slíkra beiðna þarf að fylgja vottorð sérfræðings.

Með því að senda inn umsókn staðfestir foreldri/forráðamaður að hafa kynnt sér reglur þessar

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í Vinnuskóla Norðurþings.  Sótt er um með rafrænum hætti og má nálgast eyðublaðið með því að smella hér.