Fara í efni

Skipulagsmál

Skipulagsmál Norðurþings heyra undir skipulags- og framkvæmdaráð. Ráðið fer með skipulagsmál í umboði sveitarstjórnar samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 m.s.br., skipulagsreglugerð nr. 90/2013 m.s.br. og lögum um umhverfismat áætlana nr. 105-2006 m.s.br.  Ráðið mótar stefnu í skipulagsmálum og gerir tillögur til sveitarstjórnar þar að lútandi.  Bygging húsa og annarra mannvirkja, ofan jarðar og neðan og aðrar meiri háttar framkvæmdir sem breyta ásýnd umhverfisins, eiga að vera í samræmi við skipulagsáætlanir.  Skipulags- og framkvæmdaráð gerir tillögur til sveitarstjórnar um afgreiðslur framkvæmdaleyfisumsókna.  Skipulags- og byggingarfulltrúi heldur utan um skipulagsferla og er skipulags- og framkvæmdaráði til ráðgjafar um skipulagsmál.  Skipulags- og byggingarfulltrúi kynnir jafnframt skipulags- og framkvæmdaráði afgreiðslur sínar skv. mannvirkjalögum nr. 160/2010 og hefur ráðið eftirlit með því að afgreiðslur byggingarfulltrúa séu í samræmi við skipulag.  Skipulags- og byggingarfulltrúi gefur út framkvæmdaleyfi f.h. sveitarstjórnar.

Skipulagsáætlanir skiptast í svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag og skulu þær vera í innbyrðis samræmi. Í skipulagsáætlun er gerð grein fyrir stefnu sveitarstjórnar og ákvörðunum um framtíðarnotkun lands, s.s. fyrirkomulagi byggðar, samgöngum og verndun menningar- og náttúruminja. Lýsa skal forsendum ákvarðana í skipulagi og gera grein fyrir áhrifum þeirra á umhverfið, náttúruauðlindir og samfélag, m.a. með samanburði valkosta sem koma til greina. Við mótun stefnu í skipulagi skal leitað eftir tillögum og sjónarmiðum íbúa. Skipulagsáætlun er sett fram í greinargerð og á uppdrætti.

Við gerð nýrra skipulagsáætlana eða breytinga á skipulagsáætlunum skulu sveitarstjórnir taka mið af gildandi landsskipulagsstefnu.

Byggingarreglugerð 112/2012

Skipulags- og byggingarfulltrúi: Gaukur Hjartarson
Sími: 464 6100
Netfang: gaukur@nordurthing.is
Heimilisfang: Ketilsbraut 7-9, 640 Húsavík