Fara í efni

Spunaverksmiðja við Öxarfjörð

Það var við fyrstu úthlutun styrkja á vegum Öxarfjarðar í sókn, haustið 2016, sem áhugahópur um spunaverksmiðju við Öxarfjörð fékk rausnarlegan styrk til að þróa hugmyndina. Í fyrstu var hugmyndin að byggja stóra verksmiðju sem gæti framleitt mýkra band en hingað til hefur verið á markaðnum, úr íslenskri ull með íblöndu af Mongólskri ull. Hópurinn á þessum tíma samanstóð af þáverandi formanni Búnaðarsambands Norður-Þingeyinga Einari Ófeigi Björnssyni, Birni Víkingi Björnssyni framkvæmdarstjóra Fjallalambs, Sigurlínu J. Jóhannesdóttur fyrrum ullarmatskonu og bónda að Snartarstöðum 2 í Núpasveit, Kristjáni Þ. Halldórssyni starfsmanni Byggðastofnunar og íbúa á Kópaskeri, Páli Kr. Pálssyni lektor við HR og Silju Jóhannesdóttur þáverandi verkefnisstjóra Öxarfjarðar í sókn. Undirrituð, nýr verkefnisstjóri Öxarfjarðar í sókn hefur nú tekið við hlutverki Silju í hópnum og Páll Kr. Pálsson er ekki lengur hluti af verkefninu, að öðru leyti er hópurinn óbreyttur.

Fljótlega kom í ljós að ekki er grundvöllur fyrir stórri verksmiðju en áfram er haldið með það markmið að framleiða mýkri ull.

Gerð var tilraun með að senda bæði lambsull og af veturgömlu til vinnslu í svokallaðri „minimills“ eða lítilli spunaverksmiðju í Belgíu og er niðurstaða hópsins að afurðin varð sannarlega mýkri en forsendur rekstursins afleitar miðað við afköst og nýtingu í þessari verksmiðju. Sigurlína fór til Belgíu í júní 2017 til að skoða verksmiðjuna og með henni í för var Steinþór Friðriksson bóndi í Höfða.

Í Rangárvallasýslu var á síðasta ári gangsett spunaverksmiðja af því tagi sem hópurinn hefur verið að skoða og eftir heimsókn þangað hefur hugmyndin fengið byr undir vængi enda afköst þar og nýting hráefnis allt önnur en í Belgísku verksmiðjunni. Til hliðar við verksmiðjuna hafa eigendur byggt upp fallega gestastofu og taka þar á móti ferðamönnum með fyrirlestri um okkar merkilega sauðfé, verksmiðjuna og selja sína framleiðslu um leið.

Nú liggur fyrir fyrsta útgáfa viðskiptaáætlunar og er hópurinn mjög bjartsýnn á að spunaverksmiðja á þessu svæði geti verið mjög arðbær og er nú leitað eftir einstaklingi eða einstaklingum sem hafa áhuga á að taka boltann. Áhugasamir um skemmtilegan og vonandi arðbæran eigin rekstur sem byggir á hráefni úr heimabyggð geta sótt um að taka við þeirra vinnu sem hópurinn hefur innt af hendi og fá áframhaldandi ráðgjöf frá Öxarfirði í sókn ef vilji er fyrir. Umsækjendur geta nálgast fyrirliggjandi rekstraráætlun hjá undirritaðri og fengið allar upplýsingar en skila þarf umsókn í síðasta lagi 4. september 2018. Umsækjendur verða metnir samkvæmt ákveðnu matskerfi sem lagt hefur verið fyrir verkefnisstjóra Brothættra byggða hjá Byggðastofnun.

 

Neðangreind auglýsing birtist í Skeglunni í vikunni:

 Auglýsing

Sérðu tækifæri í ullinni !

Verkefnahópur um spunaverksmiðju við Öxarfjörð sem nýtti gæðaull úr héraði auglýsir eftir áhugasömum og framkvæmdaglöðum aðila til að taka boltann og stofna fyrirtækið.

Fyrir liggur grind að viðskiptaáætlun og áhugasamir geta nálgast upplýsingar hjá verkefnisstjóra Öxarfjarðar í sókn, Bryndísi Sigurðardóttur, í síma 896 9838 eða bryndis@atthing.is. Um er að ræða svokallaða „minimills“ sem getur framleitt allt að 12 kg af bandi á dag.

Umsækjendur þurfa helst að hafa þekkingu og reynslu á ullarvinnslu eða handverki því tengdu og verða að skuldbinda sig til að hafa verksmiðjuna staðsetta við Öxarfjörð í að minnsta kosti fimm ár. Það er kostur að hafa starfað sjálfstætt og að þekkja eitthvað til markaðsmála.

Umsóknir skulu innihalda greinargóðar upplýsingar um umsækjanda og hugmyndir hans um rekstur verksmiðjunnar.

Skilafrestur er til 4. september 2018 og sendist til bryndis@atthing.is