Fara í efni

Öxarfjörður

Árið 1893 var hinum forna Skinnastaðahreppi skipti í Öxarfjarðarhrepp og Fjallahrepp og þótt hrepparnir sem slíkir séu ekki lengur til Öxarfjörðurinn skýrt afmörkuð sveit í hugum allra sem til þekkja.

Þegar komið er af Hólssandi niður í Öxarfjörðinn taka við grösugar heiðar og áberandi kjarrivaxnar hlíðar. Fremsta bæjarþyrpingin – Landsbæirnir þar á meðal Austara-Land, Vestara-Land og Sigtún, koma í ljós á flatlendi upp af Jökulsárgljúfrunum, bæjarstæðin falleg og ef vel er rýnt í þétt kjarrið má sjá glitta í einstaka sumarbústaði. Á þessari bæjartorfu var mikill sauðfjárbúskapur og þótt býlunum hafi fækkað er búskapur stundaður þar enn. Ofar í hlíðinni, nokkru austan við Landsbæina er sauðfjárbýlið Bjarnastaðir. Áður var búið á nokkrum bæjum enn ofar í landinu, meðal annars Bjarmalandi fram til 1957, Hafursstöðum til 1972.

Þegar kemur fram á hæðirnar blasa fágaðir sandarnir við og slær á þá bláum bjarma í sólskininu. Brátt er komið að neðra brúarstæðinu við Jökulsá. Þar var lögferja á ánni forðum daga, sennilega síðan stuttu eftir landnám, samanber Reykdælasögu, altént árið 1893 er Einar Benediktsson skáld, þá ungur fulltrúi föður síns, sýslumanns í Þingeyjarsýslum, fékk sig ferjaðan yfir ána eftir að hafa réttað á Svalbarð í Þistilfirði í svonefndu Sólborgarmáli. Á meðan á réttarhöldunum stóð stytti Sólborg sér aldur og var sögð fylgja Einari eftir það. Þegar hann greiddi ferjutollinn fyrir sig og fylgdarmanninn, spurði ferjumaðurinn: “Ætlarðu ekki að borga fyrir hana?” – og átti þá við Sólborgu.

Núverandi brú var byggð 1956-1957 en enn má sjá leifar þeirrar gömlu sem byggð var 1905 og leysti sú ferjumanninn af hólmi. Kvísl úr Jökulsá, Sandáin, kýs að velja sér annan farveg til sjávar en áin sjálf og liðast með gróna landinu norður sveitina þar sem hún bætir við sig vatni lækja og linda af svæðinu. Skammt neðan við Klifshagabæina mætir hún ofjarli sínum Brunnánni, sem er orðin myndarlegt vatnsfall eftir að í hana hafa runnið Gilsbakkaá, Tunguá, Smjörhólsá og Skeggjastaðaá sem allar eru perlur í landslaginu þar sem þær liðast um sveitina. Á þessum ármótum Sandár og Brunnár lætur Sandáin nafnið en Brunnáin heldur leið sinni áfram norður sveitina til Brunnárósa skammt sunnan Buðlungahafnar.

Nú skulum við virða fyrir okkur landið handan Sandár og Brunnár sem er víðáttumikið sandlendi en athygli vekja vel gróin svæði þar sem melgresi og kjarnmikill víðir dreifa óhindrað úr sér. Þar sem aðalkvísl Jökulsárinnar er nefnist Bakkahlaup fellur nú til sjávar stóð bærinn Ytri-Bakki sem fór í eyði á síðustu öld og fyrir fáeinum árum varð íbúðarhúsið að láta í minnihlutann fyrir Jöklu sem braut allt land að því og hreif húsið með sér til sjávar. Byggðin neðan Brunnár var og er daglega nefnd Sandsbæir og vekja nöfn þeirra sumra athygli; Skógar, Ærlækjarsel og Akursel sem benda til þess að þar hafi gösugt verið og haft í seli frá bæjunum Ærlæk og Akri handan árinnar. Í landi Ærlækjarsels er nýbýlið Víðibakki. Við jarðskjálftahrinuna 1975 og 1976 varð jarðsig á þessu svæði og flæddi yfir áður þurrt land. Við það spilltust jarðirnar, einkum Skógar þar sem var tvíbýli og talin með betri jörðum sveitarinnar. Lauk búsetu á þeim í kjölfar þessa 1979 og 1985. Hiti er í jörðu þar í sandinum og úr borholu þar er leitt vatn um hluta byggðarinnar og allt til Kópaskers og að fiskeldisstöðinni Silfurstjörnunni sem reist var á Núpsmýrinni og hefur veitt mörgum atvinnu undanfarna áratugi. Á bökkum Brunnár er býlið Akursel þar sem fyrrum var búið með sauðfé en nú fer þar fram umfangsmikil lífræn ræktun á heimsins bestu gulrótum.

Nú færum við okkur aftur upp að Ferjubakka sem er upp af ferjustaðnum við Jökulsá. Þar var búskapur fram eftir síðustu öld og þar mátti finna hagleiksmanninn Ólaf Gamalíelsson sem sinnti viðgerðum og smíðaði tól og tæki sem ýmsa vanhagaði um. Nú er Ferjubakki sumardvalarstaður. Skammt norðan við Ferjubakka, norðan við Vaðkotsá er skógræktarreitur í eigu Skógræktarfélags Norður-Þingeyinga, gróðursettur af skógræktarfólki úr héraðinu. Skógræktarfélag Íslands hefur staðið fyrir því að þar er nú svonefndur “Opinn skógur. Í túnfæti hins forna býlis Akurs er risinn sumarbústaður með samnefndu heiti. Akurs er getið í fornsögum og gæti hafa verið landnámsjörð. Þar var síðast búið 1893. Ferjubakki og fleiri nágrannajarðir byggðust út frá Akri.

Brátt er komið að prestsetrinu Skinnastað og vekur kirkjan, sem byggð var 1854, og umgjörð hennar öll athygli fyrir snyrtimennsku og gott viðhald. Þangbrandslækur skilur á milli Skinnastaðar og skólasetursins við Lund. Nafn sitt dregur hann af því að sagt er Þangbrandur biskup hafi þar skýrt Öxfirðinga um kristnitökuna. Lundur var til fjölda ára barnaskóli og samkomustaður sveitarinnar byggður 1926 og þá loks er Norður-Þingeyingar fengu framhaldsskóla 1965 var honum valinn þar staður. Lundur er nú miðstöð skólahalds í héraðinu – Öxarfjarðarskóli. Sundlaug og íþróttahús eru á staðnum og þar er rekin ferðaþjónusta á sumrin.

Öxarfjörðurinn er án efa meðal fegurstu sveita landsins. Hvað mestan svip gefa fjöllin þrjú, Hafrafellið syðst, skráð 535 m á hæð, oft nefnt Tungufjall, Sandfellið 525 m hátt fyrir miðri byggðinni og skammt norðan þess Þverárhyrnan, 540 m há. Hvert er fjallið öðru tignarlegra. Upp af þeim eru víðáttumikil heiðarlönd, Tunguheiði, Búrfellsheiði og Urðir. Við rætur Hafrafellsins eru kunnugleg nöfn góðbýla: Smjörhóll, Hafrafellstunga og Gilsbakki sem fyrrnefndar bergvatnsár eru kenndar við. Í Hafrafellstungu eru nú þrjú íbúðarhús, í Gilsbakkalandi nýbýlið Gilhagi með tvö íbúðarhús, og býlið Kinn. Fiskur er í ánum og veiðihús og sumarbústaðir kúra í lundum hávaxinna birkitrjáa.

Norðan við Lund er Ærlækur, þekkt býli að fornu og nýju við samnefndan læk. Þar er nú tvíbýli og fjöldi sumarbústaða hafa risið á jörðinni enda fullnægir umhverfið allt væntingum áhugasamra þar um. Í sumum þessara húsa er heilsársbúseta. Um einum km. norðan við Ærlæk var býlið Víðines þar sem búið var í ein tíu ár fram til 1962. Þar er nú sumardvalarstaður í eigu ættingja fyrrum ábúenda jarðarinnar. Haldið er út sveitina og farið yfir Brunnána. Á bökkum hennar eru Klifshagabæirnir, reisulegir á fallegu bæjarstæði. Til austurs gnæfir Sandfellið og við rætur þess eru Sandfellshagabæirnir hvar búið er myndarlega og sömuleiðis á býlinu Leifsstöðum, skammt sunnar í kjarrivaxinni hlíðinni. Upp frá Sandfellshaga liggur sæmilegur sumarvegur um Öxarfjarðarheiði til Þistilfjarðar.

Ofan frá heiðinni líður Þveráin fram samnefndan dal á leið sinni í Brunnána og býlið Þverá á bökkum hennar. Í landi Þverár er talsverð sumarbústaðabyggð og skal engan undra þótt staðurinn sá sé valinn af fólki sem vill fegurðar og næðis njóta.

Skammt er nú að Núpi, fornfrægu stórbýli aftur í aldir hvar nú er búið á tveimur bæjum. Hið forna bæjarstæði er við rætur Öxarnúps sem skagar þverhnýptur 150 m hár fram á Núpsmýrina. Í honum er eitt af þremur Grettisbælum sveitarfélagsins, annað er við Vígaberg í Jökulsárgljúfrum og það þriðja, Grettishellir á Öxarfjarðarheiðinni. Fátt er til staðfestu um veru Grettis í þessum bælum nema sagnirnar einar og þær ber að varðveita sem gullið eitt. Göngustígur er af Núpsmýrinni upp í bælið í vesturhlíðum núpsins og sjá má þar greinileg ummerki mannshandarinnar þar sem reft hefur verið yfir holuna með stuðlabergsstólpum. Sæmilegt tak hefur það verið einum manni en launin athvarf og frábært útsýni yfir byggðina.

Fyrrgreint aðsetur Silfurstjörnunnar er á Núpsmýrinni og skammt norðan hennar fyrrum hreppamörk Öxarfjarðar- og Presthólahrepps. Úr Núpsvatni rennur Stórilækur í Brunnána.

Hér er ótalinn fjöldi býla í Öxarfirði þar sem áður var búið um lengri eða skemmri tíma við misjafnan kost. Nöfn, heimildir og minjar finnast um hátt á fimmta tug slíkra býla í gamla Öxarfjarðarhreppi einum. Þar sem annars staðar reyndi fólk að verða sér úti um bú þar sem það gæti komist af. Þessum býlum verður ekki öllum gerð skil hér en nefna má Árholt (1855-1892) norður af Hafursstöðum; Hróarsstaðir (1858-1948) vestur frá Akurseli; Vesturhúsum í landi Ærlækjar (heimildir frá 1703-1872); Staðarlón (1807-1858) norður frá Akurseli og Foss (1846-1879) á Búrfellsheiðinni. Enn eru ótaldir um fjórir tugir býla eða bæjarnafna í Öxarfirði, þar sem búið var um lengri eða skemmri tíma fyrr á öldum. Það er því margt hægt að skoða og forvitnast um í þessari fallegu sveit fyrir þá sem yndi hafa af sögu og öllu því sem henni tilheyrir.

Texti: Niels Árni Lund