Fara í efni

Aðalfundur Skjálftafélagsins

Nú er komið að aðalfundi Skjálftafélagsins en hann verður haldinn mánudaginn 4. júní kl. 19:30.

Skjálftafélagið var stofnað þann 14. nóvember 2007 en það er félag áhugafólks um jarðskjálftasetur á Kópaskeri. Skjálftasetrið var svo opnað þann 17. júní 2009 og þar hefur Hólmfríður Halldórsdóttir staðið í stafni frá upphafi en hún hefur boðað starfslok í haust og bíður stjórn nú það vandasama verkefni að finna hæfan aðila til að feta í hennar spor.

Á Skjálftasetrinu er fyrst og fremst verið að minnast Kópaskersskjálftans sem varð 13. janúar 1976 en þess má geta að í dag 29. maí 2018 eru 10 ár frá stóra skjálftanum sem varð á Suðurlandi.

Áður en vísindamenn leiddu okkur í allan sannleik um eðli og uppruna jarðskjálfta þurfti að finna trúverðugar skýringar á hvers vegna jörð gat skolfið með þessum hætti. Einna þekktust er sagan af Loka og hans góðu konu Sigyn. En þegar Loki hafði komið því leiðar að hinn fagri og góði Baldur var drepinn misstu hin goðin þolinmæðina og bundu Loka við stein inni í helli, fyrir ofan hann settu þeir eiturorm þannig að eitrið lak í andlit Loka. Sigyn stóð trygg og trú með skál og greip dropana áður en þeir lentu á Loka en þegar hún þurfti að tæma skálina féllu dropar í andlit Loka og hann kipptist svo harkalega til að af varð jarðskjálfti.

Um þetta má lesa á vef Menntamálastofnunar https://vefir.nams.is/komdu/land_og_tjod/sogur_1/jardskjalftar.html

Þar má líka fræðast um fleiri skýringar á jarðskjálftum, margar mjög trúlegar.

  • Fólk í Vestur Afríku gerði ráð fyrir því að jörðin væri flöt eins og diskur. Öðrum megin hvíldi jörðin á háu fjalli en mikill risi hélt undir hana hinum megin. Kona risans hélt himninum uppi. Þegar risinn faðmaði konuna sína hristist jörðin.
  • Margar þjóðir héldu að jörðinni væri haldið uppi af einhverjum dýrum. Kínversk þjóðtrú gerði ráð fyrir því að jörðin hvíldi á herðakambi stórs uxa. Þegar uxinn færði jörðina af annarri öxlina á hina þá varð jarðskjálfti.
  • Í Kaliforníu eru jarðskjálftar mjög algengir. Frumbyggjar (Indjánar) þar trúðu því að jörðin hvíldi á baki sex skjaldbakna. Þegar þær rifust syntu þær hver frá annarri og þá varð jarðskjálfti.
  • Japanir héldu að eyjarnar þeirra hvíldu á baki stórrar geddu sem bjó í leðjunni á sjávarbotni og þegar leikur var í geddunni hristust eyjarnar.
  • Í Mongólíu var því trúað að jörðin hvíldi á stórum froski sem auðvitað gat ekki hreyft sig öðru vísi en að valda jarðskjálfta.
  • Og á Indlandi gerðu menn ráð fyrir því að fjórir fílar héldu uppi jörðinni. Fílarnir stóðu á baki skjaldböku sem aftur stóð á baki gleraugnaslöngu. Ekkert dýranna gat hreyft sig án þess að jörðin skylfi.

En hver sem skýringin er þá er Skjálftasetrið á Kópaskeri ákaflega mikilvægt framtak og nauðsynlegt að íbúar Kópaskers sinni því eftir bestu getu.

Mætum vel á fundinn á mánudaginn.

BS