Hultin ehf – Efling þjónustu á svæðinu með betri markaðssetningu
Hultin ehf, timburfyrirtæki á Kópaskeri, lauk nýverið við verkefni sem styrkt var af Frumkvæðissjóði Brothættra byggða. Fyrirtækið sérhæfir sig í allskonar timburlausnum og hefur m.a. sett upp pallahönnunarforrit fyrir pallasmíði og er það notað af mörgum viðskiptavinum. Eins veitir fyrirtækið staðbundna þjónustu á norður- og austurlandi og kemur reglulega með svokallaðar sprettibúðir (e. pop-up) í nálægum byggðakjörnum þar sem engar byggingarvöruverslanir eru til staðar.
Markmið verkefnisins var að styrkja langtíma starfsemi fyrirtækisins með því að byggja upp skýrari og faglegri markaðsgrunn og efla þjónustuna. Eins að gera samskipti við viðskiptavini markvissari og auka sýnileika á svæðinu.
Rætt var við markaðsstofu sem kallast Black Flamingo Marketing og sérhæfir sig í stafrænum lausnum í gegnum áskriftarþjónustu. Stefnt er að því að hefja samstarf með þeim á næsta ári en fram að því verður unnið að undirbúning fyrir stafræna markaðsvinnu.
Verkefnið fellur vel að markmiðum Brothættra byggða um að efla þjónustu sem er mikilvæg íbúum svæðisins. Í heildina hefur verkefnið lagt góðan grunn að áframhaldandi þróun og mun styrkja getu fyrirtækisins til að sinna íbúum og atvinnulífi á svæðinu í framtíðinni.
