Fara í efni

Mjúkull og spunaverksmiðja í Öxarfirði

Mjúkull í Öxarfirði

Verkefnið fjallar um uppsetningu á spunaverksmiðju í Öxarfjarðarhéraði sem ynni úr ull af svæðinu. Framleiðslan á að vera úr hreinni og óblandaðri íslenskri ull og vera um leið mýkri en sú sem fæst á markaðnum í dag.

Verkefnið hófst í október 2016 undir handleiðslu Silju Jóhannesdóttur og seinna Bryndísi Sigurðardóttur fyrrverandi verkefnisstjórar Öxarfjarðar í sókn ásamt vinnuhópi (Björn Víkingur Björnsson, Einar Ófeigur Björnsson, Kristján Þ. Halldórsson, Sigurlína J. Jóhannesdóttir og í fyrstu í samstarfi við Pál Kr. Pálsson) en þá var stefnan tekin á stóra verksmiðju sem framleiddi allt að 50 tonn af bandi á ári. Fljótlega var ljóst að ekki væri grundvöllur fyrir svo stórri verksmiðju og ákveðið að beina athyglinni að svokallaðri „minimill“ eða lítilli spunaverksmiðju.

Áhugi á ullvinnslu var mikill á svæðinu og var því ákveðið að halda áfram með verkefnið þar sem hluti af styrknum hafi verið eyrnamerktur í að kanna gæði ullarinnar af svæðinu. Send var ull út til Belgíu í vinnslu, auk þess að farið var í skoðunaferð í vinnsluna. Það band sem kom til baka þykir gott. Hinsvegar er vinnslan í Belgíu ekki hagkvæm með tilliti til kostnaðar og nýtingu. Hinsvegar við nákvæmari skoðun og eftir að svipuð vinnsla opnaði á suðurlandi fékkst það staðfest að hægt er að vinna íslensku ullina á hagkvæman hátt með tilliti til kostnaðar og hráefnisnýtingu.

Þegar búið var að vinna grunn af viðskiptar- og rekstaráætlun ákvað verkefnastjórn hópsins að auglýsa eftir áhugasömum aðilum til að taka við verkefninu.
Guðrún Lilja og Brynjar Þór sóttust eftir verkefninu og tóku við því í september 2018.
Síðan þá hefur verið unnið að því að klára viðskiptar- og rekstaráætlun ásamt því að leita eftir fjármagni fyrir kaup á vélum.

Ullarvinnslan er lítil og eru vélarnar (sem koma frá Kanada) hugsaðar með heimavinnslu í huga. Áætla má u.þ.b. 8 -10 kg af fullunnu bandi á dag. Til að byrja með verður keypt ull af bændum úr Öxarfirði og nágranna sveitum. Lögð verður áhersla á framleiðslu úr lambsull þó unnið verður úr allri ull og þar sem vinnslan mun ekki ná að anna allri ull svæðinu verður reynt að fá bestu ullina frá sem flestum bændum. Áætlun og markmið vinnslunar er að auka verðmæti ullar til bænda, eins að reyna auka verðmæti mislitrar ullar. Fyrst og fremst verður notast við náttúrulegu ullarlitina án aukalitunar. Verður þá litið fyrst og fremst til ullargæða, umhirðu og frágang ullar, sé vel að öllu staðið mun það skila sér til bænda. Vélarnar getar spunnið örþunnt band og nýtt einungis fínustu ullarþræðina, eins er hægt að vinna prjónaband í ýmsum þykktum og samsetningum, lita og grófleika. Hægt er að vinna niður í 1 kg í einu. Þannig að hægt yrði að spinna af 1 skepnu sem er t.d með sérstaka ullar liti eða eiginleika. Afgangsþræðir sem falla frá við kembingu eru nýttir í allskonar hluti t.d gróft og þykkara band sem nýtist í ýmiskonar handverk. Eins er hægt að vinna ull og selja á ýmsu framleiðslustigi, t.d fyrir handspuna og þæfingarhandverk. Vélarnar eru hannaðar til ýmiskonar ullarvinnslu. Hægt er að vinna Geitafiðu, angóru af kanínum, Alpakka ull, og í raun alla ullarþræði.

Samhliða vinnslunni mun byggjast hægt og rólega upp gestastofa þar sem ullarvinnsla fortíðar og nútíðar verður kynnt ásamt ýmsum öðrum fróðleik um sauðfé. Hægt verður að koma og kynna sér vinnsluna og næla sér í afurðir vinnslunnar. Vinnslan verður sett upp í Gilhaga og verður farið í breytingar á húsnæði um leið og vélarnar verða pantaðar. Á næstu dögum fer af stað hópfjármögnun fyrir verkefnið til að fjármagna seinasta hjallann og verður það auglýst þegar að því kemur.