Öxarfjörður í sókn- Styrkir veittir

Á dögunum voru veittir styrkir til verkefna á Öxarfjarðarhéraðssvæðinu úr verkefninu Öxarfjörður í sókn.

Verkefnisstjórn bárust fjórar umsóknir vegna ofangreindra styrkja. Í boði voru fimm milljónir og úthlutunarreglur í samræmi við verkefnislýsingu og skilaboð íbúaþings. Umsóknir voru metnar á eftirfarandi flokkum á skalanum 1-5 og hæsta mögulega einkunn er 100;

  • Fellur vel að skilaboðum íbúaþings 2016 og stefnumótun verkefnisins
  • Útkoma nýtist sem flestum
  • Trufli ekki samkeppni
  • Leiði til atvinnusköpunar, helst á heilsársgrundvelli
  • Sé líklegt til árangurs og þekking/reynsla sé til staðar
  • Að markaðslegar og/eða rekstrarlegar forsendur séu trúverðugar
  • Áhrifa gæti fyrst og fremst í Öxarfjarðarhéraði
  • Hvetji til samstarfs og samstöðu
  • Styrkveiting hafi mikil áhrif á framgang verkefnis

Verkefnin sem hlutu styrk eru eftirfarandi:

Jarðaberjaræktun, Linda Björk Níelsdóttir.

Markmiðið er að afla upplýsinga fyrir fyrirhugaða jarðaberjarækt í Sandfellshaga 2 ásamt því að kostnaðargreina framkvæmdina. Afla skal þeirrar þekkingar sem þarf til að hefja árangursríka jarðarberjarækt og á grundvelli þeirrar þekkingar er ætlunin að reisa tvö gróðurhús á staðnum á árunum 2017-2018.

Verkefnið fellur vel að markmiðum Öxarfjarðar í sókn og styður við nýtinu á þeim auðlindum sem til eru ásamt því að bæta við í flóru atvinnu og ræktunar.

Melar gistihús, Hildur Óladóttir.

Markmið verkefnis-  Gera á upp húsið Mela á Kópaskeri og bjóða upp á gistingu. Húsið er staðsett við fjöruna með útsýni yfir Öxarfjörð. Áhersla verður lögð á náttúru og kyrrð. Styrkinn á að nýta til undirbúnings og hönnunar á endurbótum.

Þetta verkefni fellur vel að stefnumótun „Öxarfjörður í sókn“ og styður við markmiðssetningu, eflir þorpsmynd á Kópaskeri.

Betri merkingar við Skjálfavatn, Norðurhjari, Halldóra Gunnarsdóttir.

Markmið verkefnist- Að merkja og Skjálftavatn betur og setja upp þjónustuskilti sem vísa á útsýnisstað, fuglaskoðun og athyglisverðan stað. Að því loknu verður gert kynningarátak um pallinn og Kelduhverfi.  Við Skjálftavatn í Kelduhverfi hefur orðið uppbygging undanfarin misseri, byggður útsýnispallur á Tjarnarleiti, þar sem  sem sér yfir vatnið og sett upp fræðsluskilti við pallinn um tilurð vatnsins og jarðfræði, ásamt upplýsingum um fugla. Pallurinn er kjörinn áfanga- og nestisstaður og öruggur staður til norðurljósaskoðunar og til að njóta útsýnis og miðnætursólar. Nauðsynlegt er að merka staðinn betur út við veg.
Vel afmarkað verkefni, skýr umsókn, styður markmiðssetningu og fyrri fjárfestingu.

Skref í átt til uppbyggingar náttúrubaða við Öxarfjörð, Framfarafélag Öxarfjarðar, f.h. óstofnaðs áhugamannafélags.

Markmið verkefnis-  Kortleggja á þá staði sem koma til álita sem framtíðarstaðir náttúrubaða í héraðinu, meta hversu raunhæfur hver kostur er og koma fram með rökstudda tillögu að staðsetningu. Meðal annars verður lögð áhersla á að vinna út frá sérstöðu, aðgengi, áhuga landeigenda og aðgengi að jarðhita og ferskvatni og áætluðum kostnaði við að koma vatninu á staðinn. Ekki síst verður horft til þess hvernig slík aðstaða getur nýst sem liður í framboði þjónustu við ferðamenn í héraðinu.

Fellur vel að markmiðssetningu, svæðisbundin nýsköpun og eflir samfélagsanda á svæðinu.

Verkefnastjórn og verkefnastjóri óska styrkhöfum innilega til hamingju með styrkina og við hlökkum til að fylgjast með framgangi þeirra.

Góðar stundir,

Silja