Fara í efni

Vel heppnuð Sólstöðuhátíð að baki

FjallkonaKópaskersbúar héldu sína árlegu bæjarhátíð um helgina og fyrir utan stórglæsilega dagskrá heiðraði blessuð sólin hátíðina með nærveru sinni. Dagskráin hófst kl. 19:00 á föstudagskvöldi við skólahúsið með ljóðalestri Guðrúnar Kristjánsdóttur fjallkonu en hún flutti ljóðið Sólstöðuþula eftir Ólöfu Sigurðardóttir frá Hlöðum með miklum glæsibrag. (Þess má geta að á Rás 1 í gærkvöldi má hlýða á lestur Illuga Jökulssonar úr grein Ólafar frá Hlöðum sem birt var í Eimreiðinni árið 1906 http://www.ruv.is/utvarp/spila/frjalsar-hendur/23806?ep=7310fr ). 

Í kjölfarið var boðið upp fjölþjóðlegt súpuhlaðborð, grænmetissúpa frá Spáni, og kjötsúpur frá Póllandi og Íslandi, aldeilis gómsætar súpur og frábær byrjun á hátíðinni.

Á myndinni hér til hægri má sjá hina ungu fjallkonu Guðrúnu Kristjánsdóttur og önnum kafna sólstöðunefndarkonu ,Maríu Hermundardóttur. 

 

Um kvöldið bauð Ferðafélagið Norðurslóð upp á miðnæturgöngu frá brúnni við Brunná og að borholu hitaveitunnar við Skógarlón. Með útsýni til hafs og miðnætursólar í haffletinum gengu á fjórða tug göngugarpa að holunni þar sem skörungarnir Gunnþóra og Eyrún biðu með kakó og nýbakaðar kleinur í boði Hitaveitu Öxarfjarðar. Blankalogn og nánast heiður himinn var á hlaðborði veðurguða þessa nótt. 

kleinur

Ekki amalegar kræsingarna hjá Eyrúnu Egilsdóttur og Gunnþóru Jónsdóttur. Mynd: Bryndís Sigurðardóttir

  sólarlag

Dásamlegt sumarkvöld. Mynd: Bryndís Sigurðardóttir

Á laugardeginum hófst dagskráin klukkan 13:00  með leikjadagskrá á Dúddavelli og fyrirtækjadegi í Pakkhúsinu og var almenn ánægja með hvorutveggja. Á Dúddavelli var til dæmis hoppukastali og boðið upp siglingar á tjörninni og bárust hlátrasköllin um allt þorpið. Í Pakkhúsinu var hægt að skoða ýmislegt úr atvinnulífi staðarins og Rauði krossinn var með fatasölu. Að venju bauð kvenfélagið upp á kaffihlaðborð og handverkssýningu í Stóru Mörk.

Fyrirtækjadagur

Gunnþóra spjallar við fulltrúa Framsýnar. Mynd: Bryndís Sigurðardóttir

Flygilvinir - tónlistarfélag við Öxarfjörð buðu svo upp á stórkostlega tónleika í söngleikjastíl og heillaði söngkonan Jónína Björt Gunnarsdóttir alla upp úr skónum, undirleikari var Daniel Þorsteinsson. Þess má geta að þetta voru fyrstu tónleikarnir í tónleikaröð Flygilvina þetta sumarið, tónleikaröðin þetta sumarið heitir „Það er gaman að sækja tónleika“ og er styrkt af Uppbyggingarsjóði Norðurlands. Vænta má fleiri tónleika í sumar og verður spennandi að fylgjast með því.

Fjallalamb bauð upp á hátíðarmatseðil að kvöldi laugardags og gátu gestir valið sér lambakjöt frá ákveðnum bændum í sveitinni en Fjallalamb hefur tekið upp upprunamerkingu með QR kóða og nú geta viðskiptavinir fyrirtækisins flett upp í snjallsímunum sínum hvaðan varan er.

Trúbadorinn Elvar Stefánsson lék svo við hvurn sinn fingur í pakkhúsinu á laugardagskvöldinu og kunnu þorpsbúar og aðrir gestir það vel að meta.

Sunnudagurinn hófs með sól í heiði og sögugöngu með kristilegu ívafi frá Snartarstaðakirkju þar sem séra Jón Ármann Gíslason sá um tenginguna við almættið en Sigríður Kjartansdóttir leiddi gönguna.

messuganga

Göngufólk við Snartarstaðakirkju. Mynd: Halldóra Gunnarsdóttir

Alla helgina mátti svo kíkja við hjá Inngunni í bragganum sem hafði sett upp myndlistarsýningu sem hún kallaði „Tilgangurinn“ og systurnar á Melum sýndu bæði endurbætur hússins og handverk. Guðmundur Örn mun þó væntanlega stela senunni með stórmerkilegri sýningu á sjávarbakkanum utan við Bakkagötu. Sýninguna kallar hann "Heimildarlaus notkun bönnuð" og þar má sjá ógnvekjandi ruslasöfnun hafsins.

Halla Óladóttir

Halla Óladóttir. Mynd: Bryndís Sigurðardóttir

Heimildarlaus notkun bönnuð

 Svona er staðan í hafinu. Mynd: Bryndís Sigurðardóttir

Sólstöðuhátíðarnefnd á þakkir skildar fyrir metnaðarfulla hátíð og eru bæjarbúar hvattir til að gefa þeim gott knús sjáist til þeirra á förnum vegi, það eru þau Inga Sigurðardóttir, Matthildur D. Jónsdóttir, María Hermundardóttir og Guðmundur Magnússon.

BS