Fara í efni

Bilun hjá Hitaveitu Öxarfjarðarhéraðs 7. júní

Laust fyrir hádegi sl. fimmtudag féll þrýstingur á heita vatninu og mátti greina á eftirlitskerfi veitunnar að vatnstankurinn í dæluhúsi í Sandinum tæmdist hratt. Klukkan níu var vatnshæð eðlileg en á milli kl. tíu og ellefu var vatnið farið af veitunni, sjá línurit yfir vatnshæð. Við skoðun starfsmanna Sels sf kom í ljós að lögnin frá borholu Æ3 hafði bilað og nánar tiltekið var járnrör inn undir dæluhúsið og upp í tankinn svo illa tært að utan að botninn hafði því sem næst farið úr því eins og sjá má á mynd. Því miður var erfitt að greina þessa bilun fyrir fram þar sem rörið virtist alheilt að ofan. 

Þeir Tryggvi Hrafn og Tomasz gengu rösklega til verks og með góðri hjálp starfsmanna Gríms ehf á Húsavík tókst að sjóða nýjan bút í rörið á Húsavík. Þeir félagar hröðuðu sér því næst að dæluhúsinu og voru búnir að tengja tankinn upp úr kl. átta um kvöldið. Hann fylltist fljótt og dælur voru ræstar en nokkurn tíma tekur að koma á fullum þrýstingi til notenda, einkum alla leið til Kópaskers. Það var ekki fyrr en um eða upp úr miðnætti sem kominn var á nægilegur þrýstingur á þeim enda. Í Lundi var það nokkru fyrr, eða upp úr klukkan tíu um kvöldið. 

Hitaveiturör

Það má segja að það hafi verið lán í óláni að bilunin varð á heitum og góðum sumardegi en eigi að síður er afar óheppilegt að missa vatn af veitunni svona fyrirvaralaust og biðst veitan velvirðingar á þeim óþægindum sem vatnsleysið kann að hafa valdið notendum.

 

Framkvæmdir við endurnýjun stofnlagnar

Eins og glöggir vegfarendur á Daðastaðamýri hafa eflaust tekið eftir stendur nú yfir vinna við að undirbúa endurnýjun stofnlagnar frá Silfurstjörnu norður í Valþjófsstaði. Búið er að lagfæra lagnastæði og draga út rör á syðsta hluta leiðarinnar og til stendur að fara norður fyrir Hafnarmel á þessu ári. Sel sf sér um framkvæmdirnar. Óhjákvæmilega mun verða einhver röskun á afhendingu vatns þegar nýja lögnin verður tekin í notkun en reynt verður að kynna þær framkvæmdir með fyrirvara þegar þar að kemur.

Framkvæmdir við nýja lögn

Kristján Þ. Halldórsson

formaður stjórnar