Fara í efni

Raufarhöfn sagan

Raufarhöfn er sjávarþorp sem stendur á austurströnd Melrakkasléttu og er það einn af nyrstu byggðarkjörnum landsins (66°27.26′N 15°56.06′W). Aðalatvinnuvegur þorpsins er sjávarútvegur og er íbúafjöldinn um 200 manns.

Náttúruleg höfn Raufarhafnar er varin klettahöfða, Höfðanum er teygir sig austur í hafið, svo gott sem út í Íshafið sjálft. Framundan Höfðanum, stendur áberandi stakur klettahöfði; Hólminn og skilur sund þeirra á milli. Handan hafnarinnar er þessi mynd greinileg og eftir raufinni, sem aðskilur Höfðann og Hólmann, dregur jörðin og staðurinn nafn sitt.

Raufarhafnarkirkja er fyrir botni hafnarinnar þar sem fyrsta byggð þorpsins var. Kirkjunni og því sem henni tilheyrir er vel við haldið og hún fallegt mannvirki. Raufarhöfn var lengst af sérstakt prestakall en hefur nú verið sameinað Skinnastaðaprestakalli.

Á Melrakkaási, norðan við þorpið, er  Heimskautsgerðið – mikið mannvirki sem sækir hugmyndafræði sína til Snorra-Eddu og er forvitnilegt fyrir gesti og gangandi að skoða.

Höfðinn er náttúruprýði staðarins og fallegt að ganga um svæðið og virða fyrir sér landið og ekki síður hafið í sínum fjölbreyttu myndum. Þar trónir Raufarhafnarviti, sjófarendum til halds og trausts. Á höfðanum var lendingabraut lítilla flugvéla sem var notuð fyrir sjúkraflug og við síldarleit. Núverandi flugvöllur, Raufarhafnarflugvöllur er staðsettur austan við Hól, um 10 km utan við þorpið.

Sagan

Raufarhöfn er nefnd þegar í Íslendingasögum, og þá jafnan í sambandi við kaupför. Hansakaupmenn stöðvuðu þar og síðar Hollendingar eftir aldamótin 1700. Norður-Þingeyingum þótti örðugt sækja verslun sína til Húsavíkuvíkur eða Vopnafjarðar og leituðu oft eftir því að verslun yrði sett upp á Raufarhöfn, en þrátt fyrir allt slíkt var það ekki fyrr en árið 1833 að Raufarhöfn var löggilt sem verslunarstaður. Þremur árum síðar, 1836, kom svo danskur kaupmaður og reisti þar stórhýsið Búðina. Húsið hafði áður staðið í Kaupmannahöfn eða jafnvel Hamborg. Búðin var þá talið eitt stærsta hús landsins; taldi 4 hæðir upp í loft. Búðin brann í miklum eldsvoða 1956.

Það var svo árið 1896, sem tveir ungir og framtakssamir menn Jón og Sveinn Einarssynir frá Hraunum í Fljótum fluttu til Raufarhafnar og settu fljótt mark sitt á staðinn undir nafninu “Bræðurnir Einarsson”. Þeir tóku Búðina á leigu, opnuðu verslun og hófu fiskveiðar og hákarlaveiðar sem þeir höfðu lengi stundað sjálfir áður en þeir byrjuðu á verslunarnámi. Skömmu síðar hófu bræðurnir Friðrik og Þorgeir Clausen frá Eskifirði einnig útgerð frá Raufarhöfn.

Aldamótaárið byggðu “Bræðurnir Einarsson” vandaða bryggju á Raufarhöfn. Gátu allstór seglskip legið við hana. Aðra bryggju reistu þeir nokkrum árum síðar, sem var nægilega stór til þess að strandferðaskip gátu fermt og affermt við hana. Hversu áhugasamir þeir bræður voru um málefni Raufarhafnar má einnig ráða af því, að árið 1916 var lögð símalína til Raufarhafnar og lögðu þeir til framkvæmdarinnar mikið fé úr eigin vasa.

Sumarið 1900 hófu Norðmenn síldveiðar frá Raufarhöfn í reknet og varð veiðin um 600 tunnur sem þá þótti sæmileg veiði. Nokkrum árum síðar keyptu “Bræðurnir Einarsson” vandað 20 smálesta skip “Vegu” sem haldið var út til síldveiða og þorskveiða næstu árin. Sumarið 1901 varð síldveiðin um þrjú hundruð tunnur og þótti góð útkoma. Jón og Sveinn, hættu smám saman síldveiðum, en ráku um hríð þroskveiðar og svo verslun sína.

Árið 1875 fékk hálfdanskur maður, Christian G. P. Lund, þá verslunarstjóri í Búðinni og kona hans Þorbjörg Árnadóttir frá Ásmundastöðum, jörðina til ábúðar og stunduðu þar búskap auk verslunarreksturs. Á næstu áratugum stækkaði þorpið ört og byggðist afkoman þess á síldveiðum, söltun, bræðslu og tilheyrandi þjónustu við síldarútgerðina. Aldamótaárið 1900 reistu Norðmenn þar upp síldarbræðslustöð sem Síldarverksmiður ríkisins keyptu 1934. Árið 1944 var Raufarhöfn orðin önnur stærsta útgerðarstöð landsins til síldveiða, aðeins Siglufjörður var þá með meiri veiði.

Um og eftir 1960 varð Raufarhöfn ein stærsta síldarsöltunarstaður landsins með tilheyrandi uppgangi. Síldarævintýrið náði hámarki á árunum 1964-1967 og voru á þessu tímabili allt að 11 söltunarstöðvar starfræktar með sínum plönum og bröggum, - flestar í eigu annarra en heimamanna, auk þeirra Síldarverksmiðju ríkisins. Árið 1967 hrundu síldveiðarnar og þar með brast veigamesta burðarstoð þorpsins. Flestir urðu íbúarnir á þessu tímabili – hátt á sjötta hundrað.