Fara í efni

Breiðablik

Breiðablik var byggt árið 1955 af Geiri Ágústssyni. Upphaflega var húsið byggt sem íbúðarhús og trésmíðaverkstæði en Geir var stórtækur smiður sem byggði fjöldann allan af húsum á Raufarhöfn. Breiðablik hefur í gegnum tíðina gengt hinum ýmsu hlutverkum en fyrir utan það að vera íbúðarhúsnæði og verkstæði hefur húsið verið verbúð, mötuneyti og skrifstofa Borgna hf., hýst hreppsskrifstofuna, starfsemi félagsmiðstöðvar grunnskólans sem og starfsemi gallerýs Ljósfangs og Boltaloftsins svo að dæmi séu tekin.

Árið 2014 tóku svo eldri borgarar Breiðablik að sér og eru í samvinnu við sveitarfélagið að gera upp húsið. Eldri borgarar sjá um vinnuna á meðan sveitarfélagið veitir efni. 

Um Geir Ágústsson (úr sléttungu):

Geir er fæddur 17. september 1926, sonur hjónanna Ágústs Magnússonar og Kristbjargar Jóhannsdóttur frá Rifi. Börn þeirra Ágústs og Kristbjargar voru átta og öll kunnir borgarar á Raufarhöfn sem settu svip sinn á þorpið. Má nefna Magnús sem stundaði m.a. útgerð, Hilmar sem var lengi verkstjóri í Síldarverksmiðjunni og svo Karl sem var duglegur framkvæmdamaður, var um tíma með síldarsöltun og rak síðar verslun á staðnum í mörg ár; báðir virkir sveitarstjórnarmenn.

Geir var mikill athafnamaður á Raufarhöfn, sat um tíma í sveitarstjórn og kaupfélagsstjórn en fyrst og fremst var hann mikilvirkur trésmiður á staðnum og byggði frá grunni fjölda húsa á Raufarhöfn. Má nefna Hafsilfursbraggann, Borgarplanið, nýja Kaupfélagshúsið, læknishúsið, nýja barnaskólann og félagsheimilið Hnitbjörg, ýmislegt annað atvinnuhúsnæði og hátt í annan tug íbúðarhúsa sem hann teiknaði mörg hver. Hann byggði húsið Breiðablik í Ásgötunni og rak þar trésmíðaverkstæði með sambyggðri trésmíðavél. Þar smíðaðihann það sem til þurfti í húsin, glugga, hurðir og innréttingar. Milli vinnustaða ók hann á „Blöðruskóda“ og var með tugi manna í vinnu.

Kona Geirs er Ingigerður Guðmundsdóttir frá Blesastöðum á Skeiðum og eiga þau fjóra syni. Ingigerður flutti til Reykjavíkur 1966 til að fylgja sonum sínum til náms og fluttu svo hjónin alfarin frá Raufarhöfn um 1970.