Fara í efni

Kottjörn

Tjörnin í hjarta þorpsins, er nefnist Kottjörn dregur nafn sitt líklega frá bænum Koti sem stóð sennilega á hæðinni handan við tjörnina. Flúðin sem gengur þar farm í sjóinn nefnist Kotflúðin og Kotbáran liggur við Framnesið. 

Kottjörn hefur í gegnum árin verið vinsæll leikvöllur ungra Raufarhafnarbúa. Á sumrin voru smíðaðir flekar og siglt um og stundaðar hornsílaveiðar en á veturna voru skautarnir teknir fram. Í hólmanum er mikið fuglalíf en á árum áður var þar að finna æðavarp sem ábúendur jarðarinnar nytjuðu. 

Úr frásögn Jóns Magnússonar og Valgeirs Jónassonar í Sléttungu:

Kottjörnin var mikið notuð til leikja. Margir áttu skauta og einnig smíðuðum við eins konar fleka sem skautajárn voru sett undir og nokkurs konar stýrisskauti var settur fremst á fyrirbærið og að lokum settum við handrið aftan á flekann til þess að þrír til fjórir krakkar gætu
skautað með þetta ferlíki á undan sér og einn til tveir sátu á flekanum og stýrðu. Fyrir kom að frumstæð þversegl voru sett á farartækið og sóttist þá ferðin betur undan vindi en því verr á móti vindinum. Þorgeir á Hjaltabakka átti lítinn gamlan vörubíl sem var stundum ekið út á svellið þegar rökkva tók og ísinn var orðið nægilega þykkur. Var útbúinn ljóskastari á staur á palli bílsins og grammafónn sem var í bílnum var þaninn eins og tæknin leyfði í þá daga til að fólk hefði tónlist á svellinu og var ekki laust við að rómantíkin léti stundum á sér kræla þarna á svellinu undir dillandi tónlistinni og stjörnubjörtum himni.