Fara í efni

Hnitbjörg

Félagsheimilið Hnitbjörg var vígt árið 1967. Hafist var handan við byggingu Hnitbjarga á haustmánuðum árið 1964 og stóð fokhelt árið 1966. Uppbyggingin var styrkt af Félagsheimilasjóði, sérstökum sjóði menntamálaráðuneytisins sem ætlað var að styrkja slíkar uppbyggingar. Þess utan sáu hreppurinn og önnur félög á Raufarhöfn fyrir byggingu þess. 

Húsið er um 600 fermetrar að flatarmáli og er útlit þess í anda þeirra félagsheimila sem byggð voru á þessum tíma. í húsinu er að finna tvo misstóra sali aðskilda með renniþili, stórt leiksvið, myndarlegt anddyrir ásamt aðstöðu fyrir leikfélag og eldunaraðstöðu. Þá er rúmgott húsrými norðan við leiksviðið sem gengt hefur ýmsum hlutverkum í gegnum tíðina en Landsbankinn leigði húsrýmið upphaflega undir útibú sitt í þorpinu.

Hnitbjörg hafa verið alla tíð frá vígslu miðstöð félagslífs og skemmtunar á Raufarhöfn. Má þar nefna dansiböll á borð við þorrablót og sjómannadagsböll, leiklist, tónlist og fundarhöld auk þess sem salurinn var um árabil nýttur til leikfimikennslu grunnskólanema.

Úr Sléttungu um vígsludag Hnitbjarga:

Já, beðið var eftir nýju félagsheimili og loksins rann upp vígsludagurinn 25. ágúst 1967. Athöfnin hófst á því að prófasturinn, séra Marinó Kristinsson á Sauðanesi, flutti ávarp og staðfesti nafn hússins, Hnitbjörg, sem valið var úr tillögum þar um. Höfundur tillögunnar var Ágúst Ásgeirsson, ungur drengur á Raufarhöfn sem síðar átti eftir að verða landsþekktur frjálsíþróttamaður. Þá söng kirkjukór Raufarhafnarkirkju
undir stjórn Hólmfríðar Árnadóttur, Karl Ágústsson, formaður framkvæmdanefndar og Kristján Vigfússon, formaður eigendanefndar fluttu ræður og Þorsteinn Einarsson, íþróttafulltrúi ríkisins flutti ávarp. Þeir Snæbjörn Einarsson kennari og Hjalti Friðgeirsson kaupmaður fluttu frumort ljóð og loks bætti Lárus Guðmundsson kennari nokkru við dagskrána. Ásgeir Ágústsson oddviti stýrði vígsluathöfninni sem fór mjög vel og hátíðlega fram. Að dagskrá lokinni var fólki boðið að skoða húsið og þiggja veitingar. Um kvöldið var svo haldin fyrsta dansskemmtunin í húsinu og var þátttaka mikil, ekki síst af heimafólki.

Úr Sléttungu; Frásögn af balli:
Fullt út úr dyrum
Hrafn Pálsson segir frá.


Snemma sumars 1952 datt Hafnfirðingnum Rúti Hannessyni, harmonikku- og saxófónleikara, í hug að koma saman
hljómsveit og fara með hana út um land hluta úr sumri til dansleikjahalds. Áður fékk hann á leigu Buickbifreið hjá stéttarbróður
sínum, Bjarna Böðvarssyni. Henni fylgdi sú kvöð að sonur bifreiðareigandans, Ragnar, yrði bílstjóri og trommuleikari hljómsveitarinnar. Næstur kom Ásgeir Sigurðsson á klarinett, þá ég – Hrafn Pálsson á píanó eða lék á orgel, ef slagharpa var ekki á staðnum, og loks söngvarinn Erlingur Hansson. Nokkur aldursmunur var á okkur, ég 16 ára, Ragnar 18 ára, Ásgeir 19 ára, en hinir á fertugsaldri.
Ákveðið var að heimsækja Norðurland og halda dansleiki á u.þ.b. 10 stöðum og enda á Raufarhöfn. Ekki var haft fyrir
því að æfa mikið heldur haldið af stað enda stór hugur í mönnum. Lítil urðu uppgripin til að
byrja með enda vildi hljómsveitarstjórinn endilega vera í nágrenni við hljómsveit Björns R. Einarssonar sem var á ferð á sama tíma og
næstum alltaf í næsta kauptúni við okkar. Rútur var mikill keppnismaður og trúði á eigið ágæti. Við vorum því
miður ekki eins frægir og keppinautarnir, Björn R., Guðmundur bróðir hans, Jón Sigurðsson bassaleikari og Magnús Pétursson. Gekk því á ýmsu meðan við fetuðum okkur upp landakortið og launin voru rýr. Loksins komum við á þennan fengsæla stað Raufarhöfn og lentum í landlegu í þrjá daga. Heimamenn, aðkomnir landar vorir, norskir og færeyskir sjómenn fylltu samkomuhúsið út úr dyrum öll kvöldin. Þegar peninga þraut fyrir inngangseyrinum var greitt í „Southern Comfort“, vindlingum og öðru góssi. Oft voru salernin svo upptekin að hraustir menn fóru út á grundina til að væta ekki fötin sín og týndu þeir miðanum sínum og urðu þá að greiða nýjan aðgöngumiða. Veran á Raufarhöfn bjargaði þannig ferðinni okkar. Sælir og ánægðir kvöddum við Raufarhöfn sem við höfum rómað allir sem einn fram á þennan dag. Ekki síst hljómsveitarstjórinn okkar, Rútur heitinn Hannesson, sem sagði oft er við hittum hann: „Eigum við að skreppa til Raufarhafnar?“ Hló svo innilega eins og hann átti svo gott með, hvernig sem allt gekk fyrir 60 árum síðan.

Vígsla félagsheimilisins Hnitbjarga

Hjalti Friðgeirsson

Við erum mætt á nýjum stað og stundu,
einn stærsta viðburð hér á norðurþröm.
Samtök fólksins þeirri hugsjón hrundu
með heiðri fram, en eigi brotalöm.

Hin fagra bygging vandann loksins leysti,
langþráð stund, er heyra má og sjá.
Fyrirheit um drengskap, hug og hreysti
að hylla snilli og nýja vaxtarþrá.

Fagra bygging! Unaðsþokka þínum
mun þingeysk menning lengi búa að.
Í þessu húsi er saga í lit og línum
og listin hvarvetna á réttum stað.

Hér er menntun, sæmd og sálargróður
í samvinnu að birta rétta mynd.
Hin unga kynslóð á að baki bróður,
og bjartar vonir, tæra heilsulind.

Fögur lilja send frá vorsins veldi,
sem vinargjöf með hlýjum sunnanblæ.
Yfir byggðum svanir kvaka að kveldi
kærar óskir heim í þennan bæ.

Nú er eins og vorsins harpa hljómi,
háleit stund er kemst því æðsta næst.
Hugstæð, fögur bygging lengi ljómi,
loksins hefur draumur fólksins ræst!