Fara í efni

Álfhóll flytur af Möðrudalsöræfum

 Nýtt upplýsingahús hefur verið tekið í notkun á tjaldsvæðinu í Ásbyrgi, það er óvenju lífsreynt, svona miðað við hús almennt því það var áður staðsett á Möðrudalsöræfum og þar áður við jarðböðin í Mývatnssveit. Núna heitir húsið Álfhóll og mun það þjóna gestum tjaldsvæðisins en landverðir munu hafa viðveru í húsinu frá klukkan 17:00 og 22:00 alla daga fram í ágúst.

Álfhóll stendur rétt norðan við stóra snyrtihúsið og blasir við þegar keyrt er af Ásbyrgisvegi inn að tjaldsvæðinu. Gestir eru hvattir til að ganga frá tjaldgistigjöldum í Álfhóli á komudegi, ekki síst til að losna við að vera vaktir upp snemma næsta morgun. Í Álfhóli er einnig hægt að fá upplýsingar um gönguleiðir og ýmsa afþreyingarmöguleika í nágrenninu, millistykki fyrir rafmagnstengla, skiptimynt og vonandi flest annað sem þörf þykir fyrir. Þetta kemur fram á facebook síðu þjóðgarðsins.

 Á myndinni sést Sylvía landvörður á vakt í Álfhóli í gærkvöldi.

BS