Fara í efni

„Kaflaskil í byggðaþróunarverkefni á Raufarhöfn“


Ágætu íbúar Raufarhafnar og aðrir velunnarar staðarins!
Senn líður að lokum starfstíma undirritaðs sem sérstaks verkefnisstjóra Byggðastofnunar á
Raufarhöfn, en eins og áður hefur komið fram var samningur framlengdur um 4 mánuði, til 30. júní2014.

Því langar mig að staldra við og setja nokkur orð á blað.
Frá því að umræða um þróunarverkefni Byggðastofnunar, Norðurþings, Atvinnuþróunarfélags
Þingeyinga, Háskólans á Akureyri og íbúa Raufarhafnar hófst, á vormánuðum 2012, hefur ýmislegt
verið til umfjöllunar og árangur náðst í nokkrum málum en minni í öðrum.
Frumkvæði íbúa í félagsstarfi hefur blómstrað og ber sérstaklega að nefna öflugt starf eldri borgara í
nýju Félagi eldriborgara Raufarhöfn (FER) og Íbúasamtök Raufarhafnar. Enn fremur mikið og gott
starf sjálfboðaliða við uppsetningu og rekstur heimasíðu Raufarhafnar á vegum íbúasamtakanna, með
stuðningi Norðurþings. Ofangreint, ásamt t.d. góðri samstöðu um að fegra umhverfi við sparkvöll og
fl. er stór þáttur í að efla og styrkja sjálfsmynd og ímynd samfélagsins á Raufarhöfn og það er afar
mikilvægur liður í að snúa vörn í sókn.
Helsti lærdómurinn af verkefninu er þó sá að það er er ekki að vænta viðsnúnings í möguleikum
byggðarlags til að blómstra á einum degi eða einu til tveimur árum. Það er viðvarandi
samstarfsverkefni til nokkurra ára og það þarf samstillt og vel skipulagt ferli. Það þarf áræði og
frumkvæði íbúa, fyrirtækja og sveitarfélags og öflugan stuðning stoðkerfis og stjórnvalda ef árangur á
að nást.

Það þarf ekki að fjölyrða um sögu Raufarhafnar, það er öllum ljóst að tilvera staðarins byggðist á
sjósókn og nálægð við fengsæl fiskimið en jafnframt að hnignun hans síðustu ár er afleiðing af
breyttum aðstæðum, ekki síst tæknivæðingu og samþjöppun aflaheimilda á tiltölulega fáum stöðum
á landinu. Það var enda yfirlýst markmið með fiskveiðistjórnunarkerfinu að ná fram hagræðingu en
nú hljóta stjórnvöld og alþingi að staldra við og íhuga hvort sú hagræðing hefur gengið of freklega á
hagsmuni einstakra sjávarbyggða, eða eins og segir í lögunum: „…..Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru
sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu
þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu…..“. Á síðastliðnu sumri veitti Alþingi
Byggðastofnun heimild til að prófa nýja nálgun í úthlutun heimilda á nokkrum þeirra staða sem hafa
farið illa út úr þróun síðustu ára, meðal annars Raufarhöfn. Bætt var við stöðum og heimildum til
þeirra fyrir skömmu. Rétt er að taka fram að ofangreind úthlutun „til að styðja byggðarlög í
alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi“ er sérstakt verkefni og fróðlegt verður
að meta árangur af þessari nálgun að liðnum 2-3 árum og ef vel tekst til er kominn vísir að
fyrirkomulagi sem getur nýst þessum byggðarlögum til lengri tíma.
Þrátt fyrir að fiskveiðar og vinnsla hafi frá upphafi verið og verði um sinn burðarás í starfsemi á
Raufarhöfn, er samfélaginu afar mikilvægt að horfa til nýrra tækifæra, til dæmis tækifæra tengdum
auknum fjölda ferðamanna á landinu. Ásókn ferðamanna á fjölsóttustu stöðunum er þegar allt of
mikil og þörf er á að „rækta“ nýja áfangastaði. Raufarhöfn er við ysta haf, skammt sunnan núverandi
legu heimskautsbaugs (hann lá t.d. um Raufarhöfn fyrr á öldum en færist til norðurs með tímanum).
Þorpið er nyrsta þéttbýli á Íslandi, birtan og víðsýnið er einstakt og náttúran afar sérstæð.

Fyrir fáum 2 vikum var stofnuð náttúrurannsóknastöð, Rannsóknastöðin Rif sem er ætlað að hvetja erlenda og innlenda vísindamenn til að rannsaka náttúru Melrakkasléttu. Stöðin er þegar orðin aðili aðalþjóðlegu neti rannsóknastöðva á norðurslóðum og væntingar eru um að í framtíðinni muni aukinþekking og umfjöllun birtast í vaxandi áhuga og umferð, ekki einungis vísindamanna, heldur einnigferðamanna um svæðið.  Unnið er að því að reisa Heimskautsgerðið á Melrakkaási og það verður mjög sérstakur segull fyrir gesti á Norðausturhorninu og er það raunar nú þegar ef hæfilegum

skammti af „upplifun“ er bætt við. Enn fremur eru tækifæri í notkun húsnæðis á Raufarhöfn, til
dæmis gömlu lýsistankanna. Falleg höfnin og nálægar slóðir bjóða upp á aðstöðu fyrir siglingar með
ferðamenn, veiði er í fjölmörgum vötnum á Sléttu, nægilegt rými ætti að vera fyrir gönguferðir og
hestaferðir og svo mætti áfram telja. Ekki má gleyma sögu staðarins í þessu samhengi.

Ofangreind tækifæri eiga það sammerkt að tíma tekur að móta og þróa þær „afurðir“ sem skila
árangri og því er brýnt að víðtækt samstarf verði um uppbygginguna, þó svo að nauðsynlegt sé að
frumkvöðlar leiði og verði drifkrafturinn á bak við einstök verkefni.
Ekki má gleyma grunngerð samfélagsins þegar rætt er um byggðaþróun, hvað þá uppbyggingu í
ferðaþjónustu. Vegasamband við Raufarhöfn er nú mjög gott með nýjum vegi um Hólaheiði og
Hófaskarð (ef frá eru talin vandkvæði á að halda veginum um Hófaskarð opnum í vetrarveðrum).
Hins vegar er ástand vegarins um Melrakkasléttu afar bágborið og þar þarf að verða bylting á ef
mögulegt á að vera að nýta þá ótvíræðu möguleika sem felast í hringvegi um Sléttuna. Tæknibylting
hefur orðið í netfjarskiptum undanfarin ár og þó einkum í notkun og kröfum notenda til netsins. Hér
þurfa stjórnvöld að koma mjög sterk inn án tafar og tryggja notendum og ferðamönnum í dreifðum
byggðum á borð við Norðausturhornið jafnræði í netaðgangi á við aðra landsmenn svo sem segir fyrir
um í Fjarskiptaáætlunum. Húsnæðismarkaður er lítt virkur á stöðum þar sem misgengi á milli
byggingarkostnaðar og kaupverðs er mikið og þörf er á því að taka tillit til þessara aðstæðna í
væntanlegum reglum um húsnæðismál. Enda gæti verið hagstætt fyrir t.d. ungar fjölskyldur sem búa
við húsnæðisvandræði á Höfuðborgarsvæðinu að flytja sig um set og dvelja skemmri eða lengri tíma í
rúmgóðu húsnæði á rólegum og fallegum stað og borga skaplega leigu. Ekki síst þurfa stjórnvöld og
stofnanir að vera opin fyrir tækifærum sem kunna að felast í störfum án tiltekinnar staðsetningar, svo
og staðsetningu einstakra verkefna. Þar leynast talsverðir möguleikar fyrir dreifðar byggðir og þorp á
landinu.
Að lokum er rétt að taka fram að það að starfsumhverfi undirritaðs breytist um komandi mánaðamót,
markar ekki lok byggðaþróunarverkefnis á Raufarhöfn. Nú þurfa íbúar og aðrir aðilar að
byggðaþróunarverkefninu að setjast niður og móta framhaldið en einnig mun undirritaður sinna
verkefnum á Raufarhöfn áfram ásamt öðrum starfsmönnum Byggðastofnunar.
Gangi ykkur vel, áfram Raufarhöfn
Kristján Þ. Halldórsson