Fara í efni

Góð mæting á fund vegna Sóknaráætlunar Norðurlands eystra

Vinna er nú hafin við gerð sóknaráætlunar fyrir Norðurland eystra 2015-2019 samkvæmt samningi sem undirritaður var af atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og Eyþingi í febrúar 2015. Ákveðið var að halda opna svæðafundi til að ræða framtíð svæðanna og landshlutans, safna hugmyndum og forgangsraða þeim. Fyrstu fundirnir voru haldnir á Húsavík 12. maí og Raufarhöfn 13. maí.

Fundirnir voru með sama sniði og hófust á því að Logi Már Einarsson, stjórnarformaður Eyþings setti fundina og kynnti dagskrána. Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri Eyþings gerði síðan grein fyrir aðdraganda samningsins um Sóknaráætlun, sem nánar má lesa um hér á vef Eyþings.

Reinhard Reynisson, framkvæmdastjóri AÞ fór því næst yfir atriði sem Sóknaráætlun er ætlað að innihalda og gerði grein fyrir ýmsum gögnum varðandi Þingeyjarsýslu sem hafa þarf til hliðsjónar við gerð áætlunarinnar, s.s. íbúaþróun, aldurs- og kynjaskiptingu, vinnumarkað og atvinnu- og menntunarstig.

Til að stýra verkefnavinnu fundanna fékk Eyþing Albertínu Friðjörgu Elíasdóttur, verkefnisstjóra atvinnumála hjá Akureyrarbæ.  Formið var með þeim hætti að viðfangsefninu var skipt í fimm málaflokka sem voru menningarmál, nýsköpun og atvinnuþróun, ferðaþjónusta, menntun og mannauður og loks innviðir og þjónusta við íbúa. Fundargestum var síðan skipt í umræðuhópa sem ræddu málin sína á milli áður en kom að sameiginlegri umræðu.

Fundurinn á Húsavík, sem ætlaður var fólki í suður sýslunni, var fámennur en góðmennur og bæði líflegur og gagnlegur. Skipt var í tvo hópa sem ræddu vítt og breytt út frá fyrrgreindum efnisflokkum en að því búnu var almenn umræða. Margt bar á góma, en meðal atriða sem sérstök áhersla var lögð má nefna aukið samstarf sveitarfélaga á svæðinu og bætt fjarskiptasamband á svæðinu, sem í nútímasamfélagi er nauðsynlegt til að eðlileg atvinnuuppbygging og samfélagsþróun geti átt sér stað og ætti því að teljast sjálfsögð grunnþjónusta í dreifbýli jafnt sem þéttbýli.

Mjög góð mæting var á fundinn á Raufarhöfn, en þangað komu um 30 manns af svæðinu frá Kelduhverfi til Langanesbyggðar auk fyrrgreindra starfsmanna og fulltrúum sveitarfélaga. Skipt var í fimm hópa eftir fyrrgreindum málaflokkum og hér færðu menn sig á milli borða og fengu tækifæri til að takast á við alla málaflokka. Greinilegur þráður var í umræðum en vöntun á fólki, samgöngur við útlönd og fjarskipti eru ofarlega á baugi. Einnig komu fram ný tækifæri og margt spennandi sem er í pípunum

Að loknum sams konar fundum á Dalvík og Akureyri 18. og 19. maí tekur við úrvinnsla gagna frá fundunum og greiningarvinna sem m.a. mun styðjast við Stöðugreiningu Byggðastofnunar fyrir Norðausturland 2014.  Því næst tekur við samráðsferli og þá frekari úrvinnsla áður en stjórn Eyþings leggur fram Sóknarætlun Norðurlands eystra 2015-2019.

Vinna við áætlunina nú hefur gengið hratt fyrir sig, en gert er ráð fyrir árlegu endurmati á henni. Í kynningu sinni á fundunum hvatti framkvæmdastjóri AÞ sveitarfélögin á svæðinu til að nýta það tækifæri sem felst í þessum samningi við ríkið og gera vandaða áætlun sem byggir á ítarlegri greiningarvinnu og stefnumótun.

Við hjá atvinnuþróunarfélaginu þökkum kærlega þeim sem mættu á fundina og lögðu sitt til málanna.