Fara í efni

Halla- saga af sveitastúlku

 

Á fallegum sunnudegi skundaði ég í leikhús. Réttara sagt á leiksýningu í félagsheimili Raufarhafnar sem ber heitið Hnitbjörg. Leiksýningin heitir því einfalda nafni Halla og er gerð eftir bók Jóns Trausta úr ritröðinni Heiðarbýlið.

Leiksýninguna settu upp þrjár leikkonur, þær Fanney Valsdóttir, Sesselía Ólafsdóttir og Margrét Sverrisdóttir. Margrét lærði leiklist í Bretlandi og hefur unnið sem leikkona, leikstjóri, handritshöfundur og grjóthleðslumaður. Sesselía nam leiklistan við KADA í London og hefur leikið margskonar efni á sviði og fyrir sjónvarp. Fanney hefur starfað með Leikfélagi Hörgdæla síðan 1990 og er potturinn og pannan í leiklistarlífi sveitarinnar.

Sýningin tekur á ástum og örlögum sveitastúlkunnar Höllu sem verður ástfangin af reykvískum presti sem flytur inn á prestsetrið þar sem Halla er vinnukona en sagan gerist í norðlenskri sveit. Seinna kemur í ljós að hann hefur haldið ýmislegu leyndu sem hefur talsverð áhrif á þeirra samband. Inn í söguna fléttast afar skemmtileg persóna hann Ólafur sauðamaður en hann er innskeifur, boginn og með lina handleggi og er það einungis hluti af mannlýsingunni.

Leiksýningin Halla er afar skemmtilega uppfærð í höndum þessara þriggja kvenna. Þær færðu mig aftur til miðju 19. aldar og mér leið líkt og ég stæði í túnfætinum og fylgdist með lífi Höllu, Ólafs sauðamanns og annara persóna sem eiga sér hlutverk. Ég grét og hló og allt þar á milli sem mér finnst merki um að vel hafi tekist til að koma tilfinningum persónanna á framfæri

Þeim stöllum tókst á magnaðan hátt að gera einfalda sviðsmynd með ljósum, skuggamyndum og heimasmíðum þremur kössum sem varð alltaf ljóslifandi hvort sem um stofu prestsins var að ræða eða kirkjuna á staðnum.

Þetta var frumsýning og það var ljóst að leikkonurnar eiga eftir að slípast enn frekar í sínum hlutverkum en í heild var þetta yndisleg sýning sett upp á aðgengilegan og fagmannlegan hátt. Ég mæli eindregið með henni, afar góð skemmtun jafnt fyrir unga sem aldna. Frumsýning var á Raufarhöfn, þar sem Jón Trausti fæddist og ólst upp á Melrakkasléttu.

Frekari upplýsingar má finna á facebook síðu verksins Halla.

Kveðja Silja Jóhannesdóttir